Leitar að nýjum íslenskum kvikmyndastjörnum

Guðmundur Arnar Guðmundsson er að undirbúa nýja kvikmynd.
Guðmundur Arnar Guðmundsson er að undirbúa nýja kvikmynd. mbl.is/Stella Andrea

Leikstjórinn Guðmundur Arnar Guðmundsson leitar að unglingsstrákum á aldrinum 13 til 16 ára til þess að fara með hlutverk í sinni nýjustu bíómynd. Guðmundur Arnar hefur áður leikstýrt ungu fólki en kvikmynd hans Hjartasteinn hlaut í kringum 50 alþjóðleg verðlaun og að auki níu Edduverðlaun. 

Nú hefur framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures hlotið framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands fyrir næstu mynd Guðmundar Arnars sem ber vinnuheitið Berdreymi. Myndin fjallar um hóp unglingsstráka í úthverfi Reykjavíkur sem upplifa sig utangarðs og nota ofbeldi til þess að leysa sín deilumál. Guðmundur skrifaði handritið og er það innblásið af unglingsárum hans í Reykjavík. Stendur nú yfir leit að strákum á aldrinum 13-16 ára fyrir aðalhlutverk myndarinnar.

„Við fengum hátt í 1.000 umsóknir í leit okkar að réttu leikurunum fyrir Hjartastein og sáum þar hve mikið er um hæfileikaríkt ungt fólk á Íslandi,“ segir framleiðandinn Anton Máni Svansson. „Nú viljum við aftur bjóða öllum sem áhuga hafa og eru á aldrinum 13-16 ára til að senda inn umsókn, hvort sem þeir hafa reynslu eða ekki. Það eina sem þarf að gera er að senda tölvupóst sem inniheldur skýra andlitsmynd, nafn, aldur og hæð, með leyfi forráðamanns, á netfangið casting@doorway.is.“

Stefnt er á að hefja tökur á Berdreymi næsta sumar og hafa aðstandendur trú á því að myndin, líkt og fyrri verk Guðmundar, muni vekja mikla athygli bæði hér heima og fyrir utan landsteinana.

„Þetta er raunsæ og gróf en á sama tíma hugljúf saga um unga stráka sem reyna að finna sinn farveg í erfiðu umhverfi,“ segir Guðmundur Arnar leikstjóri um nýju myndina. 

Ungt fólk fór einnig með aðalhlutverk í myndinni Hjartasteini.
Ungt fólk fór einnig með aðalhlutverk í myndinni Hjartasteini.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert