Tveggja ára keypti sófa og lét senda heim

Móðirin lánaði dóttur sinni símann sinn.
Móðirin lánaði dóttur sinni símann sinn. ljósmynd/Colourbox.dk

Isabella McNeil, tveggja barna móðir í San Diego í Bandaríkjunum, lenti illa í því nýverið. Eldri dóttir hennar sem er aðeins tveggja ára pantaði sófa á netinu og fékk hann sendan heim. McNeil sagði í viðtali við NBC San Diego að hún hefði leyft dóttur sinni að leika með símann sinn þegar hin tveggja ára gamla keypti sófa og lét senda hann heim. 

„Mamma, símann, mamma, símann,“ sagði hnátan við móður sína. McNeil segist hafa verið að skoða sófa í símanum og var með smáforrit frá Amazon opið þegar hún lét það eftir dóttur sinni að fá að leika með símann. 

Stúlkan ýtti óvart á „kaupa núna“-hnapp þegar hún fékk símann og keypti gráan sófa fyrir 430 Bandaríkjadali eða um 55 þúsund krónur. 

McNeil komst ekki að prakkarastriki dóttur sinnar fyrr en nokkrum dögum seinna. Hún var í vinnunni og fékk skilaboð um að sófinn væri á leiðinni. Hún viðurkennir að hafa verið rugluð enda kannaðist hún ekki við að hafa pantað sófa. Hún gat ekki hætt við pöntunina og var sófinn kominn heim til hennar stuttu seinna. 

McNeil segist hafa lært af atvikinu og vonar að þetta verði öðrum foreldrum víti til varnaðar. Hún er nú með Amazon-smáforritið lokað þegar dóttir hennar fær að nota símann hennar. Hún mælir einnig með að loka öðrum smáforritum og notast við fingrafaraskanna. „Börn eru mun klárari en við höldum,“ sagði McNeil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert