Harry og Meghan segja Archie rauðhærðan

Archie er rauðhærður eins og pabbi hans.
Archie er rauðhærður eins og pabbi hans. AFP

Hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, voru óhrædd að tala um son sinn á verðlauna­at­höfn sam­taka lang­veikra barna og aðstand­enda þeirra í London í vikunni. Staðfestu þau meðal annars að Archie litli sonur þeirra er rauðhærður rétt eins og faðir hans. 

Rauða hárið er einkennandi fyrir Harry og hafa margir velt því fyrir sér og jafnvel vonað að Archie væri það sömuleiðis. Mæðgur á verðlaunahátíðinni spurðu hjónin, að því er fram kemur á vef Hello, hvort Archie væri rauðhærður sömuleiðis. 

Sögðu mæðgurnar að Meghan hefði staðfest að Archie væri rauðhærður og bætti Harry við að hann væri það pottþétt. Sagði prinsinn að það væri hægt að sjá rauða hárlitinn á augabrúnum Archie. 

Ágætar myndir hafa birst af Archie í fjölmiðlum en erfitt hefur verið að greina hárlitinn vegna hárleysis. Á Harry að hafa sagt að Archie væri ekki með neitt hár miðað við að vera fimm mánaða. Meghan sagðist hins vegar hafa farið með hann í ungabarnaleikhóp og sagði hin börnin vera með alveg jafnlítið hár eða jafnvel minna. 

Glittir ekki í rauða lokka?
Glittir ekki í rauða lokka? AFP
mbl.is