Ómögulegt að standa í þessu með börn

Söngkonan Pink með börnum sínum tveimur.
Söngkonan Pink með börnum sínum tveimur.

Söngkonan Pink er í viðtali á vef Billboard þar sem hún fer yfir hversu erfitt það er að vera poppstjarna og móðir. Pink á tvö börn með eiginmanni sínum, Carey Hart. Að vera á tónleikaferðalagi með tvö börn hefur reynt á söngkonuna. 

Pink var minnt á í viðtalinu að hún ætlaði að hætta að fara á tónleikaferðalög þegar dóttir hennar færi í skóla. Nú er dóttir hennar orðin átta ára og eitt barn bæst við að auki en Pink er ekki enn hætt að fara á tónleikaferðalög. 

„Það er ástæða fyrir því að konur gera þetta ekki, það eru ástæður fyrir því að mömmur gera þetta ekki,“ segist Pink hafa sagt við sjálfa sig grátandi inni á baðherbergjum tónleikahalla. Notaði hún síðan f-orðið til þess að lýsa hversu ómögulegt það væri að vera móðir og túra um heiminn. 

Pink er nýbúin með tónleikaferðalag og segir að dóttir sín hefði fengið sig fullsadda af tónleikalífinu síðustu tvo mánuðina. Segir hún að dóttir sín vilji vera heima hjá sér, hjóla, æfa sund og fara í fimleika eins og önnur átta ára gömul börn.

Pink ætlar nú að breyta til en hún veit ekki hvernig. Segist hún vera meðal annars opin fyrir því að koma fram í Las Vegas eins og hefur reynst stjörnum með börn á borð við Britney Spears og Celine Dion vel. 

mbl.is