Biden þarf að gangast við lausaleikskróga

Hunter Biden, til vinstri, ásamt föður sínum Joe Biden og …
Hunter Biden, til vinstri, ásamt föður sínum Joe Biden og bróður Beau Biden. AFP

Dómari í Arkansas hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hunter Biden, sonur stjórnmálamannsins Joe Biden, hafi eignast barn í leyni árið 2018. Barnið átti hann með konu í Arkansas.

Átta mánuðir eru síðan málið kom fyrst upp en þá óskaði móðir barnsins, Lunden Roberts, eftir að Hunter greiddi meðlag. Hunter neitaði því hins vegar og samkvæmt gögnum málsins segir hann að þau hafi ekki einu sinni stundað kynlíf. 

Eftir DNA-próf hefur komið í ljós að Hunter er faðir barnsins. Dómari veitti Roberts fullt forræði yfir barninu en Hunter er velkomið að heimsækja barnið með samþykki móðurinnar. 

Hunter hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla í Bandaríkjunum en hann hefur nú þegar valdið töluverðum usla í kringum forsetaframboð föður síns, en Joe Biden sækist eftir að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í kosningunum í nóvember komandi. 

Viðskipti Hunters í Úkraínu og Kína hafa verið harðlega gagnrýnd þótt engin sönnunargögn séu í málinu sem sýna fram á misgjörðir af hálfu hans.

Meðlagsmál Hunters verður tekið aftur fyrir hjá dómara síðar í mánuðinum þar sem rætt verður um hversu há meðlagsgreiðslan verður. Dómari hefur óskað eftir gögnum um fjármál bæði Hunters og Roberts fyrir síðastliðin fimm ár. 

Hunter og lögfræðingar hans hafa hins vegar sagt að öll þau gögn sem dómarinn fer fram á séu ónauðsynleg til þess að ákvarða hversu há meðlagsgreiðslan á að vera. Að sögn People hefur Hunter viljað kveða málið í kútinn til þess að forðast að upplýsingar um fjármál hans verði gerðar opinberar. Hann hefur einnig óskað eftir því að fundurinn hjá dómara verði lokaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert