Hvað get ég gert til þess að komast í keisara?

Íslensk kona spyr hvort hún geti valið að fara í …
Íslensk kona spyr hvort hún geti valið að fara í keisaraskurð. AFP

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljós­móðir svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Hér svar­ar hún spurn­ingu frá konu sem er mjög kvíðin fyrir fæðingunni. 

Ég er komin 38 vikur á leið og er mjög kvíðin fyrir fæðingunni. Svo kvíðin að mig langar helst að vera svæfð og fara í keisaraskurð. Er einhver séns að fá það í gegn? Eða réttara sagt, hvað þarf ég að gera til að fá það í gegn? Ég held að ég muni ekki komast lifandi í gegnum hefðbundna fæðingu.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Á Íslandi er því þannig háttað að ekki er hægt að fara í keisara að eigin ósk. Keisaraskurðir eru aldrei framkvæmdir nema  það sé ábending fyrir því. Það eru þá þættir sem ógna heilsu móður eða barns á einhvern hátt. Því fylgir alltaf áhætta að fara í keisaraskurð því þetta er í raun mikil aðgerð. Það er í flestum tilfellum best fyrir barn og móður að ganga í gegnum eðlilega fæðingu sé það mögulegt. Það er vegna þess að það eru ákveðnir þættir í fæðingunni sem hafa áhrif á nýburann og gera hann betur undirbúinn  fyrir líf utan móðurkviðar. Má þar nefna ákveðin stresshormón sem myndast í fæðingu og gera nýburann betur tilbúinn. En auðvitað eru ákveðnar aðstæður eða þættir sem gera það að verkum að keisaraskurður er öruggari leið fyrir barn eða móður. Keisaraskurðir eru í raun neyðarúræði og eru eingöngu framkvæmdir eins og áður sagði ef það er ábending fyrir því. Það geta verið ákveðnir þættir í fæðingunni sem valda því að það þarf að grípa til keisaraskurðar, t.d. fyrirsæt fylgja, yfirvofandi súrefnisskortur hjá barni eða naflastrengsframfall svo eitthvað sé nefnt. Ef barnið er sitjandi þá hefur konan val um keisaraskurð eða fæðingu ef ákveðnar mælingar á grind og barni eru uppfylltar. Þetta er ekki tæmandi listi en ýmsar ástæður geta verið fyrir keisaraskurði, hvort sem um valkeisara eða bráðakeisara er að ræða.

Hvað varðar kvíða þinn fyrir fæðingunni myndi ég eindregið mæla með að þú ræddir við þína ljósmóður í mæðravernd. Hún ætti að geta gefið þér auka tíma til að fara yfir fæðinguna og hvað það er sem veldur þér þessum kvíða. Eins getur verið góður undirbúningur fyrir þig að fara á fæðingarfræðslunámskeið. Það hjálpar þér að vera betur undirbúin og þar er farið ítarlega yfir hvernig eðlileg fæðing er og hvernig maður getur undirbúið sig. Einnig er farið vel yfir þau bjargráð sem maður getur nýtt sér til að koma sér í gegnum fæðinguna. Þetta ætti að einhverju leyti að hjálpa þér að vinna á þínum kvíða. Sem ljósmóðir sem starfar í fæðingum og einnig í fæðingarfræðslu þá finn ég töluverðan mun á líðan fólks sem hefur undirbúið sig með því að fara á fæðingarfræðslunámskeið og þeim sem eru ekki undirbúin. Þú gætir einnig óskað eftir viðtali við fæðingarlækni í gegnum mæðraverndina og ætti að vera auðvelt að koma því við. Vona að þetta muni hjálpa þér að leysa úr þínum kvíða. Mundu það að fæðing er eðlilegasti hlutur í heimi og líkami konunnar er til þess gerður að fæða.

Gangi þér vel.

Kveðja, Hildur Sólveig ljósmóðir. 

Þú get­ur sent ljós­mæðrun­um spurn­ingu HÉR.

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is