Nýtt skip og hringekjan endurbætt

Fallturninn Mikið fjör hefur verið í nýja fallturninum í Fjölskyldugarðinum …
Fallturninn Mikið fjör hefur verið í nýja fallturninum í Fjölskyldugarðinum síðustu tvö sumur. Fleiri tæki verða endurnýjuð þar fyrir næsta sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er mikilvægt að við séum með garð sem við getum verið stolt af. Hér var mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf en síðustu tvö ár hefur verið sett sérstakt fjármagn í að endurgera Fjölskyldugarðinn og nú sér fyrir endann á því,“ segir Þorkell Heiðarsson, verkefnastjóri hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Þó að rólegt sé yfir garðinum á veturna hafa starfsmenn haft í nægu að snúast við endurbætur og skipulagningu fyrir sumarið. Í fyrra var byrjað að skipta tækjum út og verður það klárað í ár.

„Framkvæmdatíminn er mjög stuttur. Vetur eru langir og sumurin stutt en þá er garðurinn fullur af fólki. Þetta er því erfitt púsluspil fyrir okkur,“ segir Þorkell.

Hann segir að hið vinsæla rugguskip Krakkafoss hafi verið selt úr landi. „Gamli Krakkafoss fór til Portúgals en það kemur annað skip í staðinn, ekki ósvipað en talsvert flottara. Það verður sett upp núna í vor, smíðinni lýkur um miðjan mars.“

Þá segir Þorkell að vonir standi til að hægt verði að koma Sleggjunni í lag. Það er tæki sem kom úr Skemmtigarðinum í Smáralind. Í fyrra fékkst ekki varahlutur í tækið og því komst það ekki í gagnið.

„Eins og að gera upp flugvél“

Mikil vinna hefur verið lögð í endurbætur á hringekjunni sem er elsta tívolítækið í Fjölskyldugarðinum. Hana hefur verið að finna í Húsdýragarðinum en eftir endurbætur verður hringekjunni fundinn staður Fjölskyldugarðsmegin.

„Hringekjan var framleidd árið 2003 og hún hafði tekið íslenskri veðráttu mjög illa. Hún er skreytt myndverkum eftir Brian Pilkington, myndum af Grýlu, Leppalúða, víkingum og fleirum, og þeir fletir voru sendir til framleiðandans sem málaði þá upp á nýtt. Afgangurinn af tækinu var klassaður upp með tilliti til íslenskra aðstæðna og skipt var um allt rafkerfi. Hún er skreytt um 1.500 ljósum sem voru alltaf að taka inn á sig vatn með tilheyrandi viðhaldi. Nú hefur verið skipt yfir í tölvustýrt LED. Þetta er í raun eins og að gera upp flugvél, þetta er bara nýtt tæki,“ segir Þorkell.

Leiksvæðin mikið endurnýjuð

Hann segir að mikið af leiktækjum í garðinum hafi verið endurnýjuð. „Við erum að reyna að hafa Fjölskyldugarðinn þannig að þar séu bæði tæki sem fólk borgar fyrir að fara í og flott leiksvæði sem ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir. Markmiðið er að hafa þetta í jafnvægi.“

mbl.is