Þegar foreldri er í fangelsi

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

„Börn geta upplifað mikið áfall þegar foreldri er tekið frá þeim, hvort sem þau hafa orðið vitni að handtöku eða ekki. Þegar foreldri fer í fangelsi standa börn frammi fyrir mörgum áskorunum. Það fyrsta sem hægt er að nefna er augljós röskun á tengslum, foreldri – barn. Rannsóknir sýna að gæði tengsla foreldris og barns hafa áhrif á vitsmuna-, félags- og tilfinningaþroska þess svo slík röskun getur haft áhrif á þessa þroskaþætti,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í pistli: 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Ung börn upplifa oft sorg, ótta og sektarkennd við fangelsun foreldris. Ef ekki er hlúð að þessum tilfinningum þeirra og þær fá ekki heilbrigðan farveg getur vaxið með börnum reiði og árásargirni sem getur alið af sér alvarlegan hegðunarvanda. Sum börn upplifa einnig kvíða og þunglyndi.

Hugsanir barna um aðra eru lærðar í gegnum foreldra (eða aðra uppalendur) að mestu. Það getur því haft veruleg áhrif á það hvaðan börn hafa sína félagslegu vitneskju (hugmyndir um aðra) ef foreldri er í fangelsi vegna glæps. Hins vegar er hægt að viðhalda mikilvægum tengslum foreldris – barns þrátt fyrir fangelsisvist.

Skilningur og vitund

Þegar foreldri er fangelsað vita aðrir umönnunaraðilar barna oft ekki hvort eða hvernig þeir eiga að skýra fjarveru foreldris fyrir börnum, miðað við aldur þeirra og þroska. Börn þurfa að vita sannleikann; þegar börn ná að skilja ástandið er líklegra að það aðlagist breytingum í lífi sínu á jákvæðan hátt. Það þarf að vita að það eru fleiri sem eru í slikri stöðu. Einnig er ímyndunaraflið oft verra en veruleikinn.

Heimsóknir og tengsl

Þegar börn skilja fangelsun og hvað það þýðir fyrir þau sjálf geta þau mögulega heimsótt foreldri sitt í fangelsi. Hver fjölskylda er einstök og tengslin missterk fyrir fangelsunina. Ef foreldri var í lífi barns fyrir fangelsun getur verið dýrmætt að viðhalda tengslunum eins og hægt er. Rannsóknir hafa einnig sýnt að föngum sem eru í sambandi við börn sín meðan á fangelsisvist stendur gengur oftar betur að aðlagast samfélaginu á ný. Börn geta einnig fengið stuðning til að skrifa bréf eða hringja símtal eftir aðstæðum.

HÉR er hægt að lesa meira um efnið.

mbl.is