Tinna Bergmann ólétt með kórónuveiruna

Tinna Bergmann er smituð af kórónuveirunni og biður landsmenn að …
Tinna Bergmann er smituð af kórónuveirunni og biður landsmenn að taka ástandinu alvarlega. mbl.is/Hari

Tinna Bergmann Jónsdóttir verslunarstjóri greindist nýverið með kórónuveiruna. Hún segist ekki vera vön að tjá sig opinberlega um sín hjartans mál en segir að fólk verði að taka kórónuveiruna alvarlega. Hún segir að hún hafi ekki verið í vinnu fyrir smit og búið sé að rannsaka aðra á vinnustaðnum og því óhætt fyrir fólk að koma í búðina þótt hún sé ekki þar. 

Hún biður fólk um að halda sig heima og vera ekki að fara út að óþörfu. Sjálf er hún komin 23 vikur á leið og segir óvissuna við að vera smituð af veirunni mikla. Enda vita læknar lítið hvaða áhrif hún getur haft á konur sem eiga von á barni. 

„Elsku Íslendingar, ég og maðurinn minn höfum verið staðfest með Covid-19-veiruna og höfum ekki hugmynd um hvernig við höfum smitast! Núna er ég ólétt, komin 23 vikur á leið og er vægast sagt óendanlega áhyggjufull um litla krílið okkar, það er það eina sem skiptir mig máli akkúrat núna. Við vorum bæði rosalega passasöm, sprittuðum okkur vel og þvoðum á okkur hendurnar, ég var komin með exem á hendurnar vegna mikils þvotts! En þetta er augljóslega bráðsmitandi,“ segir Tinna á Facebook-síðu sinni. 

Hún finnur fyrir miklum þyngslum við öndun og á erfitt með að anda djúpt. Hún hefur verið með beinverki, hausverk og núna nýlega missti hún bragð- og lyktarskynið. 

„Ég hef ekkert fengið hita, ekki eina kommu, en líður samt mjög illa í líkamanum. Maðurinn minn fékk mjög lágan hita, ekki yfir 38,5, sem segir okkur að það er allur gangur á þessu og höfum við bæði verið án kvefs. Við finnum augljósan mun á þessum einkennum líkamans en þegar um venjulega flensu er að ræða. Eins og einhver vond þoka sé yfir líkamanum og öndunarveginum. En fyrstu einkenni mín var vægur þurr hósti. Annars var ég hress, svo á sólahring byrjuðu önnur einkenni að myndast. Eins og hausverkur og vægir beinverkir sem síðan þá hafa hægt og rólega aukist. Hjá manninum mínum var það allt öðruvísi, hann byrjaði með þessa þoku og beinverki, hóstinn kom seinna og er minni. Þetta segir okkur að einkennin eru ekki alltaf eins. Þó mjög svipuð og koma í mismunandi röð.“

Tinna biður landsmenn um að hittast ekki í hópum, þótt þeir séu litlir. Eins mælir hún með að fólk haldi fjarlægð. Því veiran virðist bráðsmitandi.

„Við hittum litlu fjölskylduna okkar helgina fyrir greiningu (sem sagt síðustu helgi) í mat og þau eru öll komin í sóttkví og mamma byrjuð með smá einkenni og ég krossa bara fingur. Sem betur fer pössuðum við okur fyrir greiningu og héldum okkur frá öðru fólki. Við vorum í fríi frá vinnu helgina sem einkennin byrjuðu. Verandi ung og heilsuhraust með Covid19 þá er þetta að taka verulega á okkur bæði líkamlega, karlinn sem er aldrei veikur er vanur að harka sig í gegnum allt, getur varla sinnt brýnum e-mailum, því er ofaukið. Og við erum rétt að byrja Covid-ferlið ef marka má reynslu annarra um að vera verstur á 6. - 7. degi. Ég vildi senda út þessa yfirlýsingu þar sem ég get ekki lagt meiri áherslu á að biðja ykkur að halda ykkur heima, þá sem mögulega geta. Farið sérstaklega varlega þegar þið mætið í vinnu og sleppið öllum ónauðsynlegum hittingum. Þetta er ekki veira sem þú vilt smitast af, lenda í óvissu með eða að smita aðra af. Núna skiptir ást og nágrannakærleikur öllu máli og við erum í sóttkví/einangrun til að passa aðra. Þetta snýst ekki bara um okkur. Núna er ég að fást við þá óvissu að vera með Covid19 og 23 vikna ólétt og ég óska engum að líða eins og mér líður núna. Því læknar geta ekki sagt mér að allt sé í lagi, veiran er það ný og ég er ekki komin lengra á leið. Ég er ekki eina ólétta konan á Íslandi og margir eru með undirliggjandi sjúkdóma og aldraðir. Hugsum vel um hvert annað. 

Eitt gott sem ég las var að forfeður okkar voru sendir í stríð, en við erum send heim á sófann í sóttkví, við getum þetta!

Margt smátt gerir eitt stórt og það á vel við þessa tíma. Við erum öll í þessu saman. 

Ást, Tinna.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert