„Ég væri ekki viss um það hvort ég vildi eignast börn“

Áskorun er ný þáttaröð í umsjón Gunnlaugs Jónssonar. Í þáttunum er rætt við afreksfólk í íþróttum sem hefur með einstöku hugarfari og þrautseigju sigrast á ólíkum áskorunum í gegnum lífið, innan vallar og utan. Áhorfendur kynnast viðmælendum í sínu náttúrulega umhverfi og fá að sjá hliðar sem fáir ef nokkrir þekkja, að baki sögum sem flestir hafa heyrt; kynnast manneskjunni undir búningnum. 

Meðal viðmælenda eru knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir sem flutti til Svíþjóðar eftir stormasaman feril hér heima og er nú að hefja sitt 13. tímabil hjá Kristianstad í Svíþjóð. Hún ræðir meðal annars um barneignir og knattspyrnuferilinn.

„Ég var mjög skýr með það í upphafi að ég væri bara í þessu þjálfarastarfi, þetta væri bara minn draumur og ég ætlaði mér ekki að fara út af því spori og verða þriggja eða fjögurra barna mamma og eyða aðaltímanum í það,“ segir Elísabet.

„Og ég meira að segja var ég frekar skýr með það í upphafi að ég væri ekki viss um það hvort ég vildi eignast börn,“ bætir hún við.

Eiginmaður hennar, Gylfi Sigurðsson var ekki á sama máli: „Ég vildi börn og ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að tækla þetta, þannig að ég leitaði mér hjálpar,“ segir hann. 

„Við gerðum ákveðið samkomulag, ég sagði að ég myndi sjá um hana þar til hún yrði unglingur og hún myndi taka táningsárin,“ bætir Gylfi við. 

Elísabet fæddi barnið 4. apríl og Valur átti leik við KR daginn eftir. Hún var að velta því fyrir sér hvernig hún gæti komist á leikinn því Gylfi þyrfti að vera heima með barninu.

Fyrsti þátturinn af Áskorun kemur í Sjónvarp Símans Premium á fimmtudaginn og verður sýndur sama dag í opinni dagskrá klukkan 20.10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert