Ræddu barneignir fyrir alvöru eftir giftingu

Ásta Lovísa og Lovísa Irpa eiga von á barni.
Ásta Lovísa og Lovísa Irpa eiga von á barni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Ásta Lovísa Arnórsdóttir og Lovísa Irpa Helgadóttir eiga von á sínu fyrsta barni. Lovísa Irpa gengur með barnið en Ásta Lovísa stendur þétt við bakið á konu sinni. Ásta Lovísa segist finna fyrir því að samfélagsumræðan sé oft á þá vegu að makar ólettra séu karlmenn. 

Þær Ásta Lovísa og Lovísa Irpa kynntust fyrir rúmlega áratug. 

„Við kynntumst á diskóbar þar sem dansað var frá sirka tólf til sjö fyrir rúmlega áratug síðan. Eftir það urðum við vinir og byrjuðum síðan saman tæpum tveimur árum seinna,” segja þær Ásta Lovísa og Lovísa Irpa um hvernig samband þeirra hófst. Þær giftu sig svo hjá sýslumanninum á Selfossi í nóvember 2017 og héldu veislu sumarið 2018. 

Einfalt að ákveða hvor gengi með barnið

Brúðkaup og svo barn, þetta er allt eftir bókinni. Var alltaf planið að eignast barn?

„Nei, alls ekki. Við ræddum ekki mikið barneignir fyrstu árin. Við vorum báðar blankir námsmenn þegar við byrjuðum saman og voru barneignir því ekki einu sinni möguleiki þó okkur hefði langað til þess. En svo eftir giftinguna þá byrjuðum við að ræða barneignir fyrir alvöru, enda á allt öðrum stað í lífinu heldur en á öðrum tímapunktum í sambandinu.“

Ásta Lovísa og Lovísa Irpa segja það ekki hafa verið flókið ferli að ákveða hvor þeirra myndi ganga með barnið. 

Þetta fór ekki í gegnum neitt voðalega langt ákvörðunarferli. Þegar við tókum ákvörðun um að eignast barn var það partur af þeirri ákvörðun að Lovísa Irpa myndi ganga með það því hún vildi það.“ 

Þegar Ásta Lovísa og Lovísa Irpa voru búnar að taka ákvörðun um að eignast barn settu þær sig í samband við Livio. Þær byrjuðu á því að fara í viðtal. Eftir ferli sem tók um það bil eitt og hálf ár varð Lovísa Irpa ólétt af barninu sem þær bíða nú eftir. 

Lovísa Irpa vildi ganga með barnið.
Lovísa Irpa vildi ganga með barnið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orðræðan á enn langt í land

Konurnar eru komnar 25 vikur á leið og tóku þá ákvörðun um að fá að vita kyn barnsins. „Við ákváðum að fá að vita kynið en höfum ekki látið það hafa áhrif á hvernig við undirbúum komu barnsins eða væntingar okkar til þess.

„Fyrstu þrír mánuðirnir voru skelfilegir,“ segir Lovísa Irpa þegar hún er spurð hvernig meðgangan hefur gengið. „Mér var alltaf óglatt og ég hafði enga matarlyst og á einhverjum tímapunkti gat ég ekki einu sinni komið nálægt ísskápnum, hugsað um hann eða nefnt hann á nafn án þess að kúgast. En eftir það þá hefur þetta gengið mjög vel.“ 

Hvernig er að vera á hliðarlínunni og fylgjast með konunni sinni ganga með barnið? 

„Það sem ég hef aðallega út á það að setja er að mér finnst orðræðan sem viðgengst í samfélaginu oft útiloka foreldra „á hliðarlínunni“ sem eru ekki karlmenn. Stofnað hefur verið fæðingarsögur feðra og reglulega hefur verið rætt hvernig það er fyrir feður að geta ekki farið með óléttu konunum sínum í sónar út af COVID19. Það er ögn kaldhæðnislegt að efnt var til þeirrar umræðu í nafni þess að auka sýnileika þess foreldris sem ekki gengur með barnið. Á sama tíma var ekki hægt að nota orð sem tók foreldra í þessum hópi inn í reikninginn sem að eru ekki karlmenn. Það hefur stungið mig aðeins og mér líður þá stundum eins og ég hafi ekki rétt á að upplifa hlutina sem er verið að tala um. Eins og svekkið að missa af 20 vikna sónum út af COVID19 eða aðdáunina sem fylgir því að fylgjast með óléttum maka sínum tækla óléttuna. 

Á sama tíma reyni ég frekar að einbeita mér að því hvað ég get gert frekar en það sem ég get ekki gert. Ég sé um allar búðarferðir núna að ráðleggingum ljósmóður og geng í þau verk sem að Lovísa Irpa treystir sér ekki í, og passa upp á að Lovísa Irpa taki vítamínin sín.“

Ásta Lovísa og Lovísa Irpa bíða spenntar eftir frumburðinum.
Ásta Lovísa og Lovísa Irpa bíða spenntar eftir frumburðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Börn eiga ekki að vera spegilmyndir foreldra sinna

Vegna samkomubannsins hafa þær Ásta Lovísa og Lovísa Irpa ekki gert mikið til þess að undirbúa fæðinguna enda hafa öll undirbúninsnámskeið verið sett á ís. Þær hafa því verið í biðstöðu eins og svo margir aðrir Íslendingar að undanförnu. 

Mæðurnar verðandi eru þó byrjaðar að huga að uppeldinu. 

„Við viljum aðallega leggja áherslu á að hlutverk barnsins er ekki að uppfylla okkar eigin væntingar heldur skapa sínar eigin. Börn eiga ekki að vera spegilmyndir af foreldrum sínum heldur sínir eigin einstaklingar. Síðan viljum við leggja áherslu á að það sé gott stuðningsnet í kringum barnið og að það upplifi að það geti verið það sjálft.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert