Jolie og Pitt skildu barnanna vegna

Angelina Jolie tjáir sig um skilnaðinn.
Angelina Jolie tjáir sig um skilnaðinn. AFP

Leikkonan Angelina Jolie segir í nýju viðtali að hún hafi ákveðið að skilja við eiginmann sinn Brad Pitt með velferð fjölskyldunnar í huga.  

Jolie sótti um skilnað við Pitt í september 2016 eftir 12 ára samband og 2 ára hjónaband. Hún hefur lítið tjáð sig opinberlega um skilnaðinn í gegnum árin. Í viðtali við Vogue segir Jolie að hún hafi hugsað um hag barnanna þegar hún ákvað að skilja. Jolie og Pitt eiga sex börn saman. 

„Ég ákvað að skilja fjölskyldunnar vegna. Það var rétt ákvörðun. Ég hef haldið áfram að hugsa um velferð þeirra. Sumir hafa nýtt sér þögn mína og börnin sjá lygar um sig sjálf í fjölmiðlum. En ég minni þau á að þau ein viti sannleikann. Í raunveruleikanum eru þau sex hugrakkir, sterkir ungir einstaklingar,“ sagði Jolie. 

Skilnaðurinn vakti mikla athygli og um tíma var forræðisdeila þeirra Jolie og Pitt miðpunktur athyglinnar. Fréttir síðustu mánaða herma þó að flest kurl séu komin til grafar og vel gangi hjá hjónunum fyrrverandi.

Angelina Jolie og Brad Pitt skildu árið 2016.
Angelina Jolie og Brad Pitt skildu árið 2016. Halldór Kolbeins
mbl.is