Fæðingasögur Bretadrottningar

Filippus prins fékk að vera viðstaddur fæðingu yngsta barns síns.
Filippus prins fékk að vera viðstaddur fæðingu yngsta barns síns. Skjáskot/Instagram

Elísabet II Bretlandsdrottning eignaðist fjögur börn, Karl prins, Önnu prinsessu, Andrés prins og Játvarð prins. Elísabet var fyrsti konunglegi valdahafinn sem eignaðist barn án þess að innanríkisráðherra væri viðstaddur. Hún var líka fyrst til þess að hafa eiginmann sinn viðstaddan fæðingu yngsta barns síns. Farið er yfir sögu drottningar í Hello Magazine.

Karl prins 1948

Karl fæddist með keisaraskurði 14. nóvember 1948 í Buckingham höll. Drottningin var þá aðeins 22 ára gömul og tók fæðingin um 30 klukkustundir. Filippus prins var ekki viðstaddur. Hann er sagður hafa leikið skvass á meðan. Um leið og hann heyrði fréttirnar flýtti hann sér í Buhl herbergi Buckingham hallarinnar sem hafði verið breytt í skurðstofu og tók barnið í fangið. Filippus sem er þekktur fyrir hreinskilni sagði Karl líkjast helst plómu búðingi. 

Anna prinsessa 1950

Anna prinsessa fæddist 15 ágúst 1950 og verður því 70 ára í sumar. Elísabet drottning átti hana ekki í Buckinghamhöll líkt og hin börnin sín heldur átti hún hana í Clarence House þar sem verið var að gera við Buckinghamhöll eftir stríðsárin. Filippus prins skálaði í kampavíni fyrir heilbrigði stúlkunnar ásamt starfsfólki sínu. „Þetta er hin blíðasta stúlka,“ sagði hann við komu fyrstu og einu dóttur sinnar.

Andrés prins 1960

Tíu árum síðar eignast Elísabet drottning annan son, Andrés prins. Hann fæddist í belgísku svítu Buckinghamhallar. Sagt er að drottningin hafi verið svæfð á meðan mestu hríðarnar gengu yfir og barnið tekið með töngum. Þessi aðferð var mjög umdeild og tíðkast ekki lengur. Drottningin á að hafa valið eðlilegri fæðingu með Játvarð, síðasta barnið.

Játvarður prins 1964

Fjórða og síðasta barnið, Játvarður prins, kom í heiminn 10. mars 1964. Þá loks var Filippus prins viðstaddur fæðinguna. Hann hélt í hönd drottningar og veitti henni stuðning. Drottningin, þá 37 ára, hafði óskað eftir því að hann yrði viðstaddur. Hún hafði lesið sér mikið til um mikilvægi þess að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna og heillaðist af hugmyndinni. Filippus prins var því fyrsti konungsmeðlimurinn til þess að vera viðstaddur fæðingu barns sins.

mbl.is