Prinsessan sögð í yfirstærð á forsíðu

Hollenska konungsfjölskyldan stillir sér upp en hefð er fyrir konunglegri …
Hollenska konungsfjölskyldan stillir sér upp en hefð er fyrir konunglegri myndatöku sem markar upphaf sumarfrísins. AFP

Spænska tímaritið Caras sætir mikilli gagnrýni fyrir að hafa sagt hollensku krónprinsessuna Amalíu vera í yfirstærð á forsíðunni. Gagnrýnendur segja það ónærgætið og telja að hætta stafi af því fyrir óharðnaða unglinga sem margir glíma við brothætta sjálfsmynd en Amalía krónprinsessa er 16 ára gömul.

Á forsíðu Caras er stór mynd af drottningunni Maximu að leiða dóttur sína Amalíu. Við myndina er texti sem útleggst nokkurn veginn á þessa leið: „Elsta dóttir Maximu sýnir stolt útlit sitt í yfirstærð.“ 

Tímaritið hefur brugðist við gagnrýnisröddunum og sagt að tilgangur fyrirsagnarinnar á forsíðunni hafi verið að draga úr skömminni yfir því að vera í yfirstærð og veita öðrum innblástur til þess að fagna fjölbreytileika líkamans. 

Aðrir sem berjast gegn fitufordómum segja forsíðu blaðsins einmitt vinna gegn markmiðinu að fagna fjölbreyttum líkömum því þeir eru einmitt að segja öllum að horfa á hvernig stúlkan er vaxin. 

mbl.is