Foreldrahlutverkið ekki alltaf dans á rósum

Helga Reynisdóttir ljósmóðir stendur fyrir nýrri fæðingarfræðslu.
Helga Reynisdóttir ljósmóðir stendur fyrir nýrri fæðingarfræðslu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Reynisdóttir, ljósmóðir á Fæðingarvaktinni á Landspítalanum, stendur fyrir nýjum fæðingarfræðslunámskeiðum í Kvennastyrk í Hafnarfirði. Á námskeiðunum fer Helga yfir allt sem tengist því að eignast barn, hvort sem það snýr að fæðingunni sjálfri eða sambandi foreldra. Hún segir mikilvægt að vera raunsær og sækja sér fræðslu þegar foreldrahlutverkið er annars vegar. 

„Ég hef lengi gengið með þá hugmynd að vera með mína eigin fæðingarfræðslu þar sem farið væri vel í alla þá hluti sem að snúa fæðingarferlinu og foreldrahlutverkinu. Ég er mikill Hafnfirðingur og það er því alveg draumastaða að námskeiðið skuli vera í hjarta miðbæjar Hafnarfjarðar,“ segir Helga um þá ákvörðun að fara af stað með fæðingarfræðslu. 

„Ég fer yfir slysavarnir, parasambandið, fæðinguna, bjargráð í fæðingu, sængurleguna, upphaf brjóstagjafar, nýburann, fæðingarhormónin, spöngina og spangarstuðning svo eitthvað sé nefnt. Ég er með líflegan fyrirlestur og svo eru spurningar og spjall í kringum efnið eins og þörf er á.“

Hvað finnst þér mikilvægt að foreldrar viti áður en barn kemur í heiminn?

„Mér finnst skipta máli að fólk sé raunsætt og sé búið að fá góða fræðslu til að takast á við það krefjandi hlutverk sem foreldrahlutverkið er. Að fólk átti sig á því að þetta er ekki alltaf dans á rósum og það svífa ekki allir um á ljósbleiku skýi. Mig langar með þessu námskeiði að undirbúa fólk sem best fyrir komandi tíma og veita því fræðslu sem er raunsæ og getur gagnast því fram yfir fæðinguna.“

Helga segir mikilvægt að huga vel að parasambandinu þegar barn …
Helga segir mikilvægt að huga vel að parasambandinu þegar barn kemur í heiminn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga bendir á að niðurstöður rannsókna séu samhljóða um að pör sem sækja fæðingarnámskeið eigi ánægjulegri fæðingarupplifun. Sömuleiðis hefur það sýnt sig að það dregur úr kvíða að vera vel upplýstur. 

„Þá greiða stéttarfélögin yfirleitt námskeiðin gegn framvísun kvittunar og því ætti ekki að vera nein fyrirstaða að skrá sig á námskeiðið en mér finnst að allir sem eiga von á fyrsta barni eigi að fara í fæðingarfræðslu. Það sést bersýnilega í starfinu mínu hvað það skiptir miklu máli að vera vel upplýstur og vita hvað maður er að fara út í þegar kemur að fæðingunni.“

Helga segir að námskeiðið sem hún stendur fyrir sé ólíkt þeim sem hafi verið í boði annars staðar. 

„Ég fer vel yfir alla þá þætti sem snúa að fæðingunni og við hverju má búast eftir fæðingu. Einnig hef ég fengið í samstarf með mér Ólaf Grétar fjölskyldu- og hjónaráðgjafa og í sameiningu förum við vel yfir þau tól sem verðandi foreldrar þurfa að hafa til að halda samskiptum og sambandinu í lagi. Undirstaðan að farsælu fjölskyldulífi eru hamingjusamir foreldrar sem eru skotnir í hvert öðru.“

Í sambandi við hamingju foreldra bendir Helga á að það fylgi því mikið álag að eignast barn og samkvæmt rannsóknum finna 67 prósent para fyrir dvínandi ánægju í parasambandinu á fyrstu þremur árum barnsins. Hamingja foreldra skiptir því öllu máli í fjölskyldulífinu. 

Finnst þér konur vera meðvitaðar um þær leiðir sem eru í boði þegar kemur að fæðingu?

„Já og nei, það kemur alveg bersýnilega fram þegar maður heldur svona námskeið að það er margt sem að fólk veit ekki og hefur ef til vill ekki fengið réttar upplýsingar. Það er svo auðvelt að lesa sér til á Google og hlusta á áhrifavalda í dag að það gerist alveg að fólk sé ekki með réttar og gagnreyndar upplýsingar.“  

Námskeið Helgu fer fram í líkamsræktarstöðinni Kvennastyrk á Strandgötu í Hafnarfirði og hefur það sína kosti. 

„Það er meira pláss svo minni líkur eru á að námskeiðin verði rafræn komi til þess að það þurfi að herða sóttvarnareglur. Þetta er í splunkunýjum líkamsræktarsal og konur sem eru slæmar í grindinni geta valið hvort þær vilji sitja á stól, á jógabolta eða liggja á jógadýnu með kodda og teppi. Það ættu allir að geta komið sér vel fyrir. Sigrún sem á Kvennastyrk er svo mikil áhugakona um grindarbotninn, en við deilum þessum áhuga,“ segir Helga og bendir á að stöðin sé fyrir konur á öllum aldri og mæður og verðandi mæður séu í meðgöngu- og mömmuleikfimi í stöðinni. 

Helga svarar einnig spurningum lesenda mbl.is um allt sem tengist meðgöngu og fæðingu. Sendu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert