Ennþá að læra að ala upp sín eigin börn

Guðbrandur Bragason.
Guðbrandur Bragason.

Guðbrandur Bragason vildi að hann hefði byrjað að vinna á leikskóla fyrr. Hann segir vinnuna hafa breytt honum sem uppalanda og hann sé alltaf að læra eitthvað nýtt. 

Hann starfar sem deildarstjóri á leikskóla og er nýkominn úr sumarfríi og hefur verið að taka á móti nýjum nemendum á deildina og er að kynnast þeim. Guðbrandur á sjálfur þrjú börn á aldrinum frá fjögurra ára til ellefu ára.

Hann segist sjálfur vera ennþá í ferli með að læra að ala upp sín eigin börn.

„Ég vildi að ég hefði byrjað fyrr að vinna á leikskóla því þar hef ég lært margt og breyst mikið sem uppalandi í kjölfarið. Hvert barn er einstakt og engin tvö eru eins. Ég reyni að mæta börnunum mínum á þeirra forsendum og bera virðingu fyrir þeirra persónuleika. Það tekst ekki alltaf, en ég legg mig fram. Það sem er sennilega erfiðast en jafnframt mikilægast er að setja mörk og fylgja þeim eftir. Þar á ég það til að gleyma mér. Svo verður uppeldið ekkert auðveldara eftir því sem þau eldast en ég hélt alltaf að sú yrði raunin. Ég reyni að sýna skilning, ást og umhyggju ásamt því að standa við það sem ég segi og umfram allt sýna þolinmæði.“

Hvernig upplifir þú meðgönguna?

„Ég mætti í allar skoðanir og var mikið að pæla en mér fannst ég einhvernveginn alltaf standa á hliðarlínunni. Ég vissi kannski ekki alveg hvað ég átti að gera en var mikið að spá í praktísk mál, nafn, fatnað og slíkt. Ég man samt að ég var pínu smeykur í lok fyrstu meðgöngu því ég hafði aldrei verið í þessari stöðu áður og fannst eins og ég gæti einhvern veginn klúðrað þessu. Ég talaði mikið við mömmu á meðgöngunni en hún er ljósmóðir og hafði svör við öllu. Hún tók á móti öllum börnunum og það var ómetanlegt að eiga hana að.“

Fæðingin mögnuð lífsreynslan

Hvernig er upplifun þín af fæðingu barnanna?

„Fæðingin var mögnuð lífsreynsla sem ég er mjög þakklátur fyrir. Ég er almennt mjög smeykur við blóð og liggur oft við yfirliði ef ég sker mig smávegis eða fæ of ýtarlegar upplýsingar um hina og þessa kvilla en þarna var ég pollrólegur og klippti á naflastrenginn af mikilli yfirvegun. Ég kom sjálfum mér bara nokkuð á óvart.“

Fórstu í barneignarleyfi?

„Ég fór í þriggja mánaða fæðingarorlof með hverju barni en það dreifðist eftir hentugleika.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera pabbi?

„Bara að fá að vera til staðar og fylgjast með börnunum á mismunandi þroskastigum, með súkkulaði í kringum munninn í öfugum bol að segja frá einhverju hversdagslegu. Svo var ég svo heppinn að hafa strákinn okkar sem er 4 ára á deildinni minni í leikskólanum. Það voru mikil forréttindi að fá að vera svona mikið saman, nánast allan sólarhringinn og erum við mjög nánir fyrir vikið.“

Erfiðast að setja reglurnar

En það erfiðasta?

„Mér finnst erfiðast að setja reglurnar því þá er ég svo „leiðinlegur“ en ég hef lært að það er allt í lagi að vera ekki alltaf vinsæll.“

Er eitthvað sem hefur komið á óvart tengt því að eignast barn sjálfur?

„Sennilega hvað foreldrahlutverkið er krefjandi. Ég minnist þess ekki að mér hafi verið sagt hversu mikil vinna það væri að ala upp börn.“

Hvað er það skemmtilegasta að gera með fjölskyldunni?

„Mér finnst allra skemmtilegast að fara í ferðalög, útilegur, sumarbústaði eða til útlanda. Þá næ ég á einhvern hátt að upplifa ferðalagið með börnunum og finnst ég orðinn aftur krakki. Við þurfum bara að passa upp á að taka stundum augun af snjalltækjunum.“

Ertu mikið að leika?

„Ég leik sennilega alveg nóg og þá aðallega í vinnunni. Er mest að kubba en hef líka gaman af því að moka og sigta í sandkassanum. Ég er að æfa mig í að kubba með öðrum en ég vil oftast stjórna því hvaða kubbur á að vera hvar. Það gengur ekki þegar maður er að kubba með öðrum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert