Guðrún Ansnes: Börn eru krydd í tilveruna

Guðrún Ansnes ásamt Einari Ben og syninum, Benedikt.
Guðrún Ansnes ásamt Einari Ben og syninum, Benedikt.

Guðrún Ansnes segir vanmetið að tala við börn. Þá er hún ekki að tala um einhliða spjall við þau. Heldur að hlusta á þau og taka skoðanir þeirra alvarlega. Henni finnst börn yfirleitt skemmtilegasta fólkið. 

Guðrún er almannatengslastjóri og annar eigandi Ampere, almannatengsla- og auglýsingastofu á sex ára son með kærastanum sínum Einari Ben. Fjölskyldan á mörg áhugamál sameiginleg. Meðal annars að ferðast saman í lengri eða styttri ferðir.

„Okkur fjölskyldunni þykir voða gaman að flakka saman. Hvort sem um ræðir lengri eða styttri ferðir, innanlands eða utan. Við deilum líka áhuga á útivist. Benedikt hefur verið ansi duglegur að fara með okkur í fjallgöngur hingað og þangað. Við mæðgin deilum líka djúpum og innilegum áhuga á draugasögum og er þá Djákninn á Myrká ávallt vinsælastur.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við foreldrahlutverkið?

„Það er ótrúlega flókið setja fingurinn á það sem er alveg algjörlega skemmtilegast. Foreldrahlutverkið í heild sinni er stórskemmtilegt. Síbreytilegt og maður veit einhvern veginn aldrei alveg hvað maður er að gera en allir eru bara að reyna að gera sitt besta. Mér finnst ég hrikalega heppin að fá að sinna þessu hlutverki og finnst það alls ekkert sjálfgefið. Eitt af mörgu skemmtilegu, eru samtölin sem geta spannað allt frá að vera sprenghlægileg í að vera svo hyldjúp að maður stendur gjörsamlega á gati. Krakkar eru svo hrikalega fyndnir, klárir og frjóir og segja bara alls konar ef þau fá pláss til. Það er einstaklega skemmtilegur eiginleiki og einstakt krydd í tilveruna. Ég held að það sé vanmetið að tala mikið við börn og þá ekki einhliða spjall og fyrirskipanir, heldur hlusta í alvöru líka, pæla með þeim og taka skoðanir þeirra alvarlega. Þau eru yfirleitt skemmtilegasta fólkið.“

Er eitthvað sem upp á vantar tengt umfjöllun um uppeldi barna?

„Kannski er fjallað fullt um það - en ég hef að minnsta kosti ekki enn fengið nógu grípandi niðurstöðu. Öll þessi millibil sem langflestir foreldrar eiga í mestu basli með eru áskorun. Þrír mánuðir í sumarfrí í grunnskólum með foreldra á vinnumarkaði, skrítna bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þetta praktíska sem er einhvern veginn alltaf vandamál. Hvar eiga þessi börn eiginlega að vera miðað við samfélagsgerðina okkar?“

Einbirni með eldri borgara part í sér

Áttir þú góða barnæsku sjálf?

„Já ég átti ljómandi góða barnæsku, umkringd mjög góðu fólki þar sem alltaf var líf og fjör. Ég er einbirni og naut mín því í botn með öllu fullorðna fólkinu mínu. Sem útskýrir vissulega ákveðið eldriborgara-element í mér í dag sem svo kristallast mikið til í vali á sjónvarpsefni og tónlistarvali, kærastanum og öðrum stundum til ákveðins ama.“

Hvað myndir þú aldrei gera sem var almennt gert þegar þú varst lítil tengt börnum?

„Í svipinn dettur mér ekkert afgerandi í hug, en ég myndi auðvitað aldrei bjóða barninu mínu upp á að sitja beltislausu í bílnum, þó um stutta vegalengd væri að ræða eins og tíðkaðist, eða bakka upp úreltar hugmyndir um kynbundin hlutverk og setja einhvers konar skorður út frá því. Þá þætti mér líka ólíklegt að ég myndi reyna að koma kúamjólk ofan í börn undir formerkjum þess að hún sé hið heila gral heilsueflingar. Tek samt fram að það er til lítils að horfa til baka og foreldra-skamma fólk svona eftir á. Þetta fólk var pottþétt líka bara að reyna.“

Hvaðan færðu leiðsögn þegar kemur að uppeldinu?

„Úr öllum mögulegum áttum. Fjölskyldan og vinir eru ótæmandi og dýrmætir viskubrunnar þegar eitthvað flækist fyrir okkur. Annars er líka bara gott að hlusta á innsæið. Það kemur okkur oft langt.“

Eru mikið fyrir að lesa saman

Lestu fyrir barnið þitt?

„Já heilmikið. Við höfum gert það frá því að hann var pínulítill. Hann er farinn að lesa mikið sjálfur svo við skiptum stundum um hlutverk. Eins erum við nokkuð dugleg við að lesa saman, þar eð hann með sína bók og ég með mína. Það eru mjög notalegar stundir.“

Hvaða bókum mælir þú með því tengdum?

„Umfram allt annað vel ég bækur sem honum þykja skemmtilegar, vekja áhuga og passa við þroska hverju sinni. Við erum að vinna okkur í gegnum hnausþykka Emil í Kattholti núna en höfum ekki hikað við að grípa annað slagið í bókina Ojbara! Varstu að freta Fróði? sem eðlilega er orðin að einhvers konar klassík á okkar heimili.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert