Lögmaður með ástríðu fyrir virðingarríku uppeldi

Guðrún Inga og Einar Páll á skírnardegi dóttur sinnar.
Guðrún Inga og Einar Páll á skírnardegi dóttur sinnar. Ljósmynd/Aðsend

Lögmaðurinn Guðrún Inga Torfadóttir er einn af stofnendum og umsjónarmönnum hlaðvarpsins Meðvitaðir foreldrar. Guðrún starfar þar að auki sem sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í hlaðvarpsþáttunum fjallar Guðrún um virðingu í uppeldi og foreldrahlutverkið. 

„Ég kynntist virðingarríku uppeldi í gegnum Kristínu Maríellu, og þá út frá kenningum RIE, og fór að sækja foreldramorgna sem Kristín Björg Viggósdóttir og Gyða Björg Sigurðardóttir héldu mánaðarlega ásamt fleiri góðum. Ég fékk að vera með í að stofna Meðvitaða foreldra formlega með frábærum hópi kvenna. Eftir að hafa starfað í um tvö ár að foreldrahittingum, bókaklúbbi og að halda ævintýraleikvelli ákváðum við í fyrra að fara að búa til hlaðvarpsþætti þar sem hægt væri að hlusta á vandaða umfjöllun og samræður um virðingarríkt uppeldi. Það varð úr að ég tók að mér að leiða þá vinnu með hópnum okkar,“ segir Guðrún í viðtali við barnavefinn. 

Guðrún á sjálf tvær dætur fæddar 2014 og 2017 og tvo stjúpsyni. Hún er gift lögmanninum Einari Páli Tamimi. 

Guðrún nálgast foreldrahlutverkið með auðmýkt.
Guðrún nálgast foreldrahlutverkið með auðmýkt. Ljósmynd/Aðsend

„Ég nálgast foreldrahlutverkið af auðmýkt. Ég mæti einlæg og hreinskilin til leiks og reyni að vera meðvituð í nærveru minni. Auðvitað tekst það ekki alltaf, en svona flestum stundum þegar á reynir á ég fulla verkfærakistu af úrræðum til að komast í jafnvægi og meðvitund og get þá mætt börnunum mínum á þann máta sem ég vel að gera. Ég set mörk þegar ég er þess fullviss að þeirra sé þörf en er fyrst og fremst að nálgast þetta hlutverk í gegnum tengsl og samtal við dásamlegu mannverurnar sem stelpurnar mínar eru. Ramminn eða utanumgjörðin um fjölskylduna hefur síðan mikla þýðingu, svo ég huga vandlega að henni með manninum mínum. 

Stjúpsynir mínir eru síðan frábærir báðir og það hefur afar takmarkað reynt á einhvers konar uppalendahlutverk fyrir þá af minni hálfu. Fyrst og fremst er ég vinur þeirra og í þeirra liði og ég er afar þakklát fyrir þau vináttu- og fjölskyldutengsl,“ segir Guðrún. 

Það liggur ekki beint við að Guðrún, lögmaður og sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, stýri hlaðvarpsþáttum um uppeldismál og fræði. 

„Ég er hins vegar með bakgrunn í listdansi og kenndi börnum og unglingum að dansa í einhver ár með háskólanámi og fann þar mikla ástríðu í starfi við að hlúa að og byggja undir sjálfsvirðingu og -mat nemenda minna. Svo sem ekki langt að sækja það þar sem foreldrar mínir voru bæði listamenn og kennarar, í tónlist og myndlist. Ég hugsa því að ég sé í dag mjög virk í að nýta bæði vinstra og hægra heilahvel og nýti því tilfinningagreind mína ásamt því að vinna með framheilanum. Þá hef ég líka fengið ástríðu fyrir virðingarríku uppeldi eftir að hafa orðið móðir og rambað á þá braut. Þannig finn ég eins konar jafnvægi í dag og er býsna sátt við lífið og tilveruna,“ segir Guðrún. 

Tilgangur þáttanna er að vera uppspretta fyrir uppalendur og alla þá sem annast börn að nálgast þetta málefni og vera þeim innblástur. 

Guðrún með eldri dóttur sinni og þá yngri í bumbunni.
Guðrún með eldri dóttur sinni og þá yngri í bumbunni. Ljósmynd/Aðsend

„Virðingarríkt uppeldi er ansi núanserað, þ.e. við þurfum að kafa dýpra í okkur sjálf til að nálgast hvað sé sannarlega virðingarrík framkoma fullorðinna gagnvart börnum og það er mjög langt frá því sem hefur verið viðtekið almennt í fortíð og jafnvel nútíð. Þess vegna er svo gagnlegt að hlusta á fólk tala um þetta. Ekki er verra að þetta sé á íslensku og út frá íslensku samfélagi. Við erum ótrúlega rík af ástríðufullu fólki um þetta málefni og ég held að því fari bara fjölgandi.

Við gerum breytingar í lífi okkar þegar við erum annaðhvort örvæntingarfull eða full af innblæstri. Við reynum því að koma með hið síðara. Oft hef ég sjálfa mig í huga þegar ég var nýorðin móðir. Ég á minningar þar sem ég upplifði mig einmana og vanmáttuga í fæðingarorlofi í Garðabænum með vagninn úti að ganga, en hlustaði á eitthvert gott hlaðvarp frá til dæmis Janet Lansbury og fékk styrk og gleði til að mæta ungbarninu mínu betur þegar inn var komið,“ segir Guðrún. 

Hlusta má á Virðing í uppeldi á hlaðvarpsvef mbl.is sem og á öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

Teymið sem stendur á bakvið Virðing í uppeldi.
Teymið sem stendur á bakvið Virðing í uppeldi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert