Unglingar vilja bjarga Barron Trump

Barron Trump ásamt móður sinni Melaniu Trump.
Barron Trump ásamt móður sinni Melaniu Trump. AFP

Á meðan heimsbyggðin fylgist með Donald Trump og forsetakosningunum í Bandaríkjunum beina unglingar á samfélagsmiðlinum tiktok sjónum að yngsta syni Trumps, Barron. 

Upp hefur komið hreyfingin #SaveBarron eða #BjörgumBarron, sem felur í sér að bjarga hinum 14 ára Barron frá föður sínum. 

Tiktoknotandinn @freebaron2020 hefur tekið saman fjölda mynda og myndbanda af Barron og segir að Barron sé ekki sammála föður sínum í pólitík, hann sé ekki hamingjusamur í Hvíta húsinu og það verði að bjarga honum þaðan. 

Hreyfingin hefur fengið nokkrar undirtekir á tiktok og margir lagt orð í belg. „Hann er bara barn. Mér líður eins og hann sé ólíkur föður sínum,“ skrifaði einn. Annar skrifaði að hann hataði fjölskylduna sína í leyni.

„Hann vill bara vera venjulegur strákur, fara á leiki, í partí og spila í tölvunni, en pabbi hans leyfir það ekki,“ skrifaði sá þriðji.

Sögusagnir eru á kreiki um að Barron fái ekki að nota samfélagsmiðla og megi ekki eiga vini þótt erfitt sé að staðfesta það. 

Barron hefur að einhverju leyti verið haldið fjarri sviðsljósinu síðastliðin fjögur ár. Hann fylgir þó foreldrum sínum stundum á viðburði og er til hliðar þegar haldnir eru viðburðir í Hvíta húsinu. Hann var aðeins 10 ára þegar faðir hans sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna. 

Móðir hans, Melania Trump, greindi frá því í október að það sem hún hræddist mest hefði raungerst þegar Barron greindist með kórónuveiruna líkt og foreldrar hans. Hann veiktist þó ekki og sýndi engin einkenni.

Barron Trump ásamt foreldrum sínum í ágúst 2020.
Barron Trump ásamt foreldrum sínum í ágúst 2020. AFP
Barron Trump var aðeins 10 ára gamall þegar faðir hans …
Barron Trump var aðeins 10 ára gamall þegar faðir hans sór embættiseiðinn. AFP
mbl.is