Brunar um bæinn með bækur

Bergljót Arnalds brunar um bæinn með barnabækur.
Bergljót Arnalds brunar um bæinn með barnabækur. Ljósmynd/Aðsend

Rithöfundurinn Bergljót Arnalds verður á ferðinni fyrir jólin. Nýlega stofnaði hún Barnabókabílinn sem er lítil bókaverslun á jólum. Bækur Bergljótar Arnalds hafa verið gífurlega vinsælar og nú býður rithöfundurinn upp á að fá bókina heim að dyrum.

Með þessu vill Bergljót mæta þörfum þeirra sem vilja ekki bíða í röð eða vera í stórmörkuðum á sóttvarnatímum. Þekktustu bækur Bergljótar eru Stafakarlarnir, klukkubókin Tóta og tíminn, Talnapúkinn og bækurnar um Gralla gorm. Um er að ræða bækur sem fræða börnin um stafina, tölurnar, dýrin og margt fleira skemmtilegt.

„Vinsælasta bókin í bókabílnum er án efa Jólasveinasaga. Þetta er bók sem fjallar um Grýlu og jólasveinana og vesenið á þeim að komast til byggða. Algjört jólaævintýri og svo er ég með baðbók fyrir yngstu börnin. Það má taka þá bók með sér í sund því nú eru laugarnar opnar. Ekki amalegt að geta lesið í barnalauginni,“ segir Bergljót.

Bergljót hefur verið að gera upp gamalt hús á Eyrarbakka og nú býðst kaupendum í nærumhverfinu að fá bókina senda heim auk þess sem hún fer um Reykjavík og nágrenni.

„Auk höfuðborgarsvæðisins ætla ég einnig að bjóða upp á þessa þjónustu á Eyrarbakka, Stokkseyri, í Þorlákshöfn, Hveragerði og á Selfossi. Þetta verður svona pínu eins og ísbíllinn á sumrin nema ég er að selja fræðandi barnabækur. Þetta er skemmtilegt tilraunaverkefni sem ég vona að heppnist.“

Bergljót mælir með að fólk hafi samband við sig með því að senda skilaboð á fésbókinni. Þá er hægt að skipuleggja hvort bókin á að vera árituð og eins hvenær hentar að fá bókina í hús.

Stafakarlarnir hennar Bergljótar hafa notið vinsælda í mörg ár.
Stafakarlarnir hennar Bergljótar hafa notið vinsælda í mörg ár. Ljósmynd/Bergljót Arnalds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka