Þetta fékk miðaldra fólkið í dag í fermingargjöf

Hjörvar Hafliðason, Mikael Nikulásson, Stefán Hrafn Hagalín og Hjálmar Örn …
Hjörvar Hafliðason, Mikael Nikulásson, Stefán Hrafn Hagalín og Hjálmar Örn Jóhannsson tjáðu sig um fermingargjafir. Samsett mynd

Fermingar snúast oftar en ekki um gjafirnar, ekki síst peningana. Fótboltasérfræðingurinn Mikael Nikulásson í hlaðvarpsþættinum Dr. Football hélt því fram að hann hefði fengið 370 þúsund í fermingargjöf en Hjörvar Hafliðason stjórnandi þáttarins efaðist um að hann hefði fengið svo mikið í fermingargjöf árið 1988. 

Mikael sagðist hafa boðið 100 manns í veisluna og lægsta peningagjöfin hefði verið fimm þúsund krónur. Sessunautum Mikaels í hlaðvarpsþættinum fannst líklegra að upphæðin hefði verið 37 þúsund en þá sagði Mikael að bara frá ömmu sinni og afa hefði hann fengið 50 þúsund. Hann fékk þó ekki bara peningagjafir. Félagarnir halda því fram að upphæðin sé 1,9 milljónir að núvirði. 

Hjörvar Hafliðason spurði fylgjendur sína á Twitter sem fæddust á árunum 1973 til 1975 hvað þeir hefðu fengið háa upphæð í fermingargjöf. Fólk sem fætt er á áttunda áratug síðustu aldar fékk töluvert lægri upphæð en Mikael segist hafa fengið. 

Hægt er að hlusta á þáttinn Dr. Football á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson tók meðal annars þátt í umræðunum en hann fæddist 1973. „1973 kid: 200 dollarar + 80.000 kr. íslenskar,“ skrifaði Hjálmar og sagði síðan að faðir hans hefði látið hann hafa gjaldeyrinn eftir veisluna. 

Twitternotandinn Ásdís sem fæddist 1973 fjárfesti í skandinavískri hönnun fyrir fermingapeningana. „Fékk 25.000 kr. og keypti mér svona norskan design-stól sem er æðislegur og enn í notkun í dag (mamma er nýbúin að yfirdekkja og skipta út svampinum),“ skrifaði Ásdís sem birti mynd af stólnum. 

Stefán Hrafn Hagalín deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans segir að flest börn sem fermdust í kringum 1985 á Akureyri hafi fengið 30 til 40 þúsund krónur. 

Klipparinn Guðni Halldórsson fæddist 1974 og segist hafa fengið 30 til 40 þúsund krónur. 

mbl.is