„Ég hef alltaf þráð að vera faðir“

Foreldrarnir Magnús Jóhann, Ines og Skjöldur með börnin sín Storm …
Foreldrarnir Magnús Jóhann, Ines og Skjöldur með börnin sín Storm og Sögu. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskylda Skjaldar Mio Eyfjörð og Magnúsar Jóhanns Cornette stækkaði töluvert nýlega þegar þeir Skjöldur og Magnús urðu tvíburapabbar. Móðir barnanna er vinkona þeirra og heitir Ines Gapch. Hún er að sjálfsögðu líka hluti af fjölskyldunni að sögn Skjaldar sem er að upplifa langþráðan draum. 

„Ég hef alltaf þráð að vera faðir en þar sem ég er samkynhneigður er það kannski ekki eins auðvelt og hjá flestum öðrum. Ég hef fylgst með börnum allra vina minna og verið hálföfundsjúkur. Þar sem ég er ekkert unglamb lengur finnst mér mjög fyndið að margir af mínum vinum og vinkonum eru orðin afar og ömmur,“ segir Skjöldur um þann draum að stofna fjölskyldu. 

Skoðuðu ýmsa möguleika

Skjöldur segir að þeir Magnús hafi talað um að eignast börn í mörg ár og hvernig þeir ætluðu að fara að því.

„Við ákváðum að gera þetta með vinkonu okkar og þegar þau byrja í leikskóla munum við vera með þau aðra hvora viku og svo eru þau aðra hvora viku hjá mömmu sinni. Við Magnús vorum búnir að ræða ættleiðingu, fósturbörn og staðgöngumóður en okkur fannst þetta það sem passaði fyrir okkur.“

Saga og Storm fæddust fyrir tímann en dafna vel.
Saga og Storm fæddust fyrir tímann en dafna vel. Ljósmynd/Aðsend

Skjöldur og Magnús fluttu til Noregs fyrir meira en tíu árum en þar starfar Skjöldur sem hárgreiðslumaður, förðunarfræðingur og stílisti. Hann kemur enn fram sem dragdrottning en hann varð landsþekktur á Íslandi fyrir framkomu sína. Þrátt fyrir að hafa hugsað um barneignir lengi voru þeir ekki tilbúnir þegar þeir bjuggu á Íslandi.

„Við vorum búnir að skoða ættleiðingu og staðgöngumóðurleiðina á Íslandi en við vorum ekki tilbúnir á þeim tíma að fara af stað í ferlið. Kannski mest vegna þess að Magnús er átta árum yngri en ég og hann var bara 23 ára þegar við fluttum til Noregs en við erum búnir að búa hér í 12 ár í haust. 

Langþráður draumur Skjaldar varð að veruleika þegar Storm og Saga …
Langþráður draumur Skjaldar varð að veruleika þegar Storm og Saga komu í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Langaði í tvö börn

Það kom ánægjulega á óvart að fá tvíbura en börnin fengu nöfnin Storm Eyfjörð Cornette Gapsch og Saga Eyfjörð Cornette Gapsch.

„Það var yndislegt, það var efst á óskalistanum mínum! Við vorum búin að reyna í um sex mánuði áður en þetta tókst. Hún var komin um átta vikur á leið þegar við fengum að vita að þetta væru tvíburar. Við vorum himinlifandi með fréttirnar en planið var hvort eð er að eignast tvö börn. Við vorum bara búin að finna eitt stelpunafn og eitt strákanafn sem allir voru sammála um. Þegar við vissum ekki hvaða kyn þau voru fundum við engin tvö stelpunöfn eða tvö strákanöfn sem allir voru sammála og svo passa nöfnin þeirra fullkomlega saman, Saga og Storm.“ 

Ljósmynd/Aðsend


Skjöldur var í vinnunni þegar hann fékk fréttirnar um að börnin væru á leiðinni. 

„Það var rosalegt. Móðirin var búin að vera með meðgöngueitrun í nokkrar vikur og var inni á spítala allan tímann. Það var ekki auðvelt að vera í fullri vinnu, Magnús að klára skóla, jólin á næsta leiti, meðgöngueitrun og kórónuveiran úti um allt. Það voru bara við sem máttum heimsækja hana.

Börnin voru tekin með keisara sjö vikum fyrir tímann og það var ákveðið með um tveggja tíma fyrirvara. Þannig að ég þurfti að klára kúnnann sem ég var með í stólnum á hárgreiðslustofunni, afbóka restina af mánuðinum og bruna beint upp á sjúkrahús. Vegna kórónuveirunnar fékk bara annar okkar að vera viðstaddur fæðinguna þannig að við drógum miða hver fengi að vera með. Magnús fékk þann heiður að vera viðstaddur og klippa á naflastrenginn. Yfirlæknirinn var þar að auki íslensk og búin að fylgja okkur alla meðgönguna þannig að við vorum í mjög öruggum höndum.“

Skjöldur með börnin sín á spítalanum.
Skjöldur með börnin sín á spítalanum. Ljósmynd/Aðsend

Börnin dafna ótrúlega vel

Hvernig hafa fyrstu vikurnar verið?

„Við vorum bara á sjúkrahúsi í tvær vikur áður en við fengum að fara heim. Eina hjálpin sem þau þurftu var svokölluð sonda, en það eru rör sem fara frá nefi niður í maga til að gefa mjólk. Þau voru pínulítil, hann var 2.390 grömm og hún bara 1.770 grömm. Allir læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir eru undrandi yfir því hvað allt er búið að ganga vel með þau. Þau hafa staðið sig alveg eins og hetjur þessar elskur fyrir utan smá magavandamál sem er svo algengt með fyrirbura,“ segir Skjöldur. 

Það koma sér vel að vera þrjú þegar halda þurfti …
Það koma sér vel að vera þrjú þegar halda þurfti á börnunum á spítalanum. Ljósmynd/Aðsend

Foreldrarnir voru með börnin í fanginu þær tvær vikur sem þau þurftu að dvelja á spítala og héldu á þeim þannig að húð þeirra snerti húð barnanna. Sem betur fer voru þau þrjú um tvö börn svo þau gátu hvílt sig inn á milli. Skjöldur segir yndislegt að fylgjast með börnunum stækka og dafna og segir hann þau breytast dag frá degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert