Móðurhlutverkið breytti lífinu til hins betra

Gunnar Bjarni Albertsson, Ástrós Lea Guðlaugsdóttir með dótturina Eddu Lovísu.
Gunnar Bjarni Albertsson, Ástrós Lea Guðlaugsdóttir með dótturina Eddu Lovísu. Ljósmynd/Aðsend

Ástrós Lea Guðlaugsdóttir er 28 ára gömul verðandi tveggja barna móðir. Frumburðurinn Edda Lovísa verður þriggja ára í ágúst en í september á hún von á sínu öðru barni með unnusta sínum, Gunnari Bjarna Albertssyni. Ástrós er búin með grunnnám í sálfræði og hefur starfað mikið með ungmennum. Hún segir starfsreynsluna og námið hafa haft mikil áhrif á sig sem manneskju. 

„Það breytti eiginlega bara öllu til hins betra og dró fram í mér það besta ef svo má að orði komast. Það að geta eignast barn er algjört kraftaverk og ég er mjög þakklát fyrir það. Tilgangur lífsins breyttist og mér fannst ég sjá betur hvað raunverulega skiptir máli og hvað ekki,“ segir Ástrós um hvernig móðurhlutverkið breytti henni. 

„Ég er elst fjögurra systkina og fylgdist því náið með systkinum mínum frá unga aldri svo að ég var búin að sjá ansi margt. Það sem ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir þrátt fyrir að hafa aflað mér upplýsinga var brjóstagjöfin. Mér fannst það taka meira á en ég bjóst við og mér fannst ég gera lítið annað fyrst um sinn en að vera með dóttur mína á brjóstinu. Þetta var hörkuvinna og mjög sársaukafullt til að byrja með en svo þegar ég komst yfir brattasta hjallann að þá varð þetta ósköp þægilegt að geta gefið brjóst hvar og hvenær sem er. Aftur á móti finnst mér umræðan mega vera opnari um að brjóstagjöf gengur ekki alltaf upp og það er ekkert verra að börn fái þurrmjólk.“

Lífið varð betra þegar Edda Lovísa kom í heiminn.
Lífið varð betra þegar Edda Lovísa kom í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Tíminn líður hratt 

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Nei ég get eiginlega ekki sagt það, ég áttaði mig á að þetta myndi gjörbreyta lífi mínu en ég var undirbúin því og mjög til í það. Kannski algjör klisja og eitthvað sem allir hafa heyrt en þegar þú ert að fylgjast með litlum einstaklingi vaxa og dafna að þá líður tíminn skuggalega hratt og allt í einu er fæðingarorlofið búið. Ég til dæmis hugsaði um að skrá mig í meira nám á meðan ég var í orlofi en ákvað svo að gera það ekki. Eftir á að hyggja er ég mjög ánægð að hafa getað notið orlofsins án þess að hafa nokkuð annað hangandi yfir mér. Þetta er svo stuttur tími sem þau eru lítil og þessi tími kemur aldrei aftur.“

Hvernig móðir vilt þú vera?

„Ég vil fyrst og fremst vera góð fyrirmynd. Ég vil að börnin mín finni fyrir ást og umhyggju alla daga, að þau alist upp við það að hafa trú á sjálfum sér og að þau geta orðið allt sem þau langar til að vera. Ég var sjálf alin upp við það að ég ætti að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig sem hefur verið gott veganesti út í lífið.“

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum að gera hlut­ina á ákveðinn hátt?

„Já og nei. Það er náttúrulega pressa um að það sé nauðsynlegt að kaupa hitt og þetta. Við fengum til dæmis notaðan vagn og bílstól og áttum ekkert skiptiborð eða bleyjutunnu. Það gekk samt allt upp og okkur leið vel.

Ég þarf stundum að pota í öxlina á mér þegar „mömmusamviskubitið“ læðist að mér. Þá hef ég verið að skoða samfélagsmiðla og dett í það að bera mig saman við aðra. Það er hvað aðrir eru að gera með sínum börnum eða hafa verið að elda og þrífa á meðan ég er þreytt og löt eftir vinnudaginn. Ég þarf stundum að minna mig á að langflestir setja brot af því besta inn á þessa miðla og það er allt í lagi að slaka á.“

Edda Lovísa verður stóra systir í haust.
Edda Lovísa verður stóra systir í haust. Ljósmynd/Aðsend

Var heppin á meðgöngunni

Ástrós gengur nú með sitt annað barn og segir meðgönguna byrja ekki ósvipað og fyrri meðgangan. 

„Heilt yfir átti ég rosalega góða meðgöngu, ég var svo heppin að fá enga ógleði en var aftur á móti alltaf þreytt fyrstu 12 vikurnar. Á síðasta þriðjungi fékk ég þvagfærasýkingu upp í nýru sem var mjög sársaukafullt og ég var mjög smeyk um að þetta gæti orðið til þess að ég færi of snemma af stað. En um leið og ég fékk meðhöndlun varð ég miklu betri og endaði á því að ganga 41 viku. Ég er gengin 14 vikur með annað barn og þessi meðganga hefur verið nákvæmlega eins og sú fyrri hingað til en að vísu er nóg eftir.

Hvernig var fæðingin?

„Ég vaknaði á laugardagsmorgni gengin nákvæmlega 41 viku með óreglulega verki og um hádegi hringdi ég upp á Landspítala og lét vita af mér. Ég tók því rólega heima og verkirnir ágerðust eftir því sem leið á daginn. Ég fór upp á Landspítala um klukkan átta um kvöldið og var þá skoðuð og komin með fjóra til fimm í útvíkkun og var því send heim aftur. Þegar ég kom aftur rétt fyrir miðnætti fékk ég stofu og prófaði glaðloftið sem virkaði ekki fyrir mig, mér varð svo óglatt af því. Ég fór því næst í bað og fannst það mjög verkjastillandi, í baðinu fékk ég rembingstilfinningu og þegar ég kom upp úr var ég komin með fulla útvíkkun. Ég var frekar lengi að rembast og var alveg við það að gefast upp þegar ég fékk að finna kollinn á hárprúðri stúlku sem kom svo loks í heiminn kl. 06:05. Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert en á sama tíma það yndislegasta.“

Fjölskyldan stækkar í september.
Fjölskyldan stækkar í september. Ljósmynd/Aðsend

Mótun einstaklings byrjar í fæðingu

Ástrós er með BS-gráðu í sálfræði og starfar hún sem deildarstjóri hjá Heilindum búsetu og skólaúrræði en það er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu fyrir einstaklinga með ákominn heilaskaða. 

„Fyrirtækið er nýtt og tók til starfa 1. janúar 2021 og má segja að við séum frumkvöðlar á þessu sviði. Það er mjög skemmtilegt og spennandi að vera partur af því,“ segir Ástrós. 

Ástrós var aðeins 21 árs þegar hún hóf að starfa með ungmennum sem höfðu lent í alls kyns áföllum og sum hver komið frá brotnum heimilum. Starfið hefur mótað hana mikið sem manneskju. 

„Það víkkaði sjóndeildarhringinn hjá mér til muna og ég áttaði mig á hversu lánsöm ég var með fjölskyldu og heimilisaðstæður. Ég var í sálfræðinámi samhliða vinnunni fyrst um sinn og öðlaðist enn meiri skilning á því sem ég upplifði í vinnunni en mér hefur alltaf þótt hegðun mannsins mjög áhugaverð. Mín starfsreynsla hefur kennt mér að uppeldi og mótun einstaklings byrjar frá fæðingu og fylgir honum alla tíð. Í náminu lærði ég snemma að það er ástæða fyrir því að einstaklingur hegðar sér á ákveðinn hátt og í stað þess að dæma að þá reyni ég frekar að skilja af hverju. Þetta finnst mér gott að hafa í huga bæði í uppeldinu og lífinu almennt.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Ég myndi segja að hafa trú á sjálfri þér og treysta þínu innsæi. Það er engin ein leið og þó að eitthvað hafi virkað fyrir mitt barn getur verið að það virki alls ekki fyrir þitt barn. Mér finnst einnig mikilvægt að týna ekki sjálfum sér og hafa það í huga að maður er betri móðir ef manni líður vel og ræktar sjálfan sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert