Fæddi barn 57 ára

Barbara Higgins eignaðist barn 57 ára.
Barbara Higgins eignaðist barn 57 ára.

Hin bandaríska Barbara Higgins fæddi soninn Jack í mars. Fæðingin væri ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir aldur Higgins en hún er 57 ára gömul og talin ein elsta kona í Bandaríkjunum til þess að fæða barn. 

Árið 2016 misstu Higgins og eiginmaður hennar, Kenny Banzhoff, 13 ára gamla dóttur sína skyndilega en hún var með heilaæxli. Á meðan Higgins var að vinna í sorginni varð hún mjög upptekin af því að eignast annað barn og dreymdi það meðal annars. Í fyrstu hélt hún að hún væri klikkuð en að lokum tóku hjónin vel ígrundaða ákvörðun um að eignast annað barn. 

Aldurstakmarkanir eru hjá mörgum tæknifrjóvgunarstofum en Higgins fann eina í Boston sem sérhæfði sig í konum á sextugsaldri. Að öllu var farið með gát á meðgöngunni. Læknir Higgins fylgdist vel með henni vegna aldurs og sagði Higgins ekki frá meðgöngunni fyrr en hún var komin 20 vikur á leið. 

Hún sagði meðgönguna hafa gengið sérstaklega vel og þakkar meðal annars góðu formi. Higgins er ekki síður gott foreldri í dag en þegar hún var yngri þar sem hún segist vera þroskaðri.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Today um fæðinguna og viðtal við nýbökuðu foreldrana. mbl.is