Erfitt að standa á hliðarlínunni

Tótla ásamt dætrunum sínum, Úlfhildi Katrínu og Eyrúnu.
Tótla ásamt dætrunum sínum, Úlfhildi Katrínu og Eyrúnu. Rakel Ósk Sigurðardóttir

Tótla I. Sæmundsdóttir fræðslustýra Samtakanna 78 segir að móðurhlutverkið hafi gjörbreytt sér en hún á tvær dætur, þriggja og sex ára, með Sigríði Eiri Zophoníasdóttur sviðshöfundi og kennara. Hún hefur bæði verið meðgönguforeldri og hitt foreldrið og upplifði mikinn mun á hlutverkunum.

Hvernig breytti móðurhlutverkið þér?

„Það gjörbreytti mér. Ég held að fyrst og fremst hafi ég hætt að taka mig jafn alvarlega og ég gerði. Ég virkilega nýt þess að leika við börnin mín, fíflast og brasa með þeim. Mér finnst skemmtilegt að vera hallærislega mamman með lélega brandara. Flestir dagar snúast um þær og mér finnst ég alltaf hálftýnd án þeirra. Ég uppgötvaði líka þolinmæði sem ég vissi ekki að ég gæti átt til og að anda inn í aðstæður sem ég hefði áður flúið undan. Tilkoma dætranna hægði töluvert á lífinu. Fyrst þegar ég eignaðist eldri dóttur mína reyndi ég að aðlaga hana lífinu sem ég hafði búið mér til. Ég komst mjög fljótt að því að ég þurfti að aðlaga mig breyttu hlutverki og gat ekki smellt henni inn í eitthvert fyrirframákveðið mót.“

Kom eitthvað á óvart?

„Bæði og. Ég er yngst fjögurra systkina sem öll áttu heilan herskara af börnum. Ég hafði þess vegna fylgst með því í návígi að foreldralífið gæti verið alls konar. Líklega kom mér mest á óvart hversu þreytt ég var alltaf. Ég hefði aldrei trúað því fyrir fram hvað þessar litlu manneskjur geta reynt mikið á man. Dætur mínar tóku upp þann sið að vakna milli 4 og 5 á hverjum morgni fyrstu árin sín og brölta mikið á nóttunni svo ég var alltaf úrvinda.

Ég á börnin mín með konu svo ég hef verið bæði meðgönguforeldri og hitt foreldrið. Ég var eiginlega algjörlega óundirbúin að vera hitt foreldrið. Ég hafði rætt svo mikið um foreldrahlutverkið við vinkonur mínar en líklega lítið við aðra sem hafa ekki gengið með börnin. Það kom mér á óvart hversu erfitt var að vera algjörlega bjargarlaus í meðgöngunni og fæðingunni. Geta ekkert gert og standa á hliðarlínunni. Svo tók við tímabilið þar sem eldri stelpan mín var á brjósti og mér fannst ég vera algjörlega gagnslaus. Mér fannst svo mikilvægt að ná að tengjast henni jafnt og hin móðir hennar að ég setti upp alls konar atriði eins og að sækja hana alltaf á nóttunni til þess að rétta henni hana til að setja á brjóst. Eftir á vildi ég að ég hefði getað sagt mér að slaka á og að þetta myndi jafnast út á endanum.“

Hvernig foreldri vilt þú vera?

„Fyrst og fremst vil ég vera hamingjusamt foreldri. Þegar ég er í góðu jafnvægi og glöð með lífið og tilveruna finn ég hvað ég er meira skapandi og til í daginn með stelpunum. Það smitast inn í allt okkar líf. Ég vona að ég geti haldið í leikgleðina og kraftinn og haldið áfram að njóta þess að vera með þeim. Ég vona að ég geti kennt stelpunum mínum að verða sjálfstæðar og ríkar af samkennd. Búa til umhverfi þar sem þær geti lært að verða góðar manneskjur en það sé pláss til að gera mistök.“

Finnur þú fyrir pressu frá t.d. samfélagsmiðlum um að gera hlutina á ákveðinn hátt?

„Já, ég held að samfélagsmiðlar skekki öll okkar viðmið um það hvernig hlutirnir eru raunverulega. Við deilum yfirleitt einhverju sem sýnir okkar allra bestu hliðar. Ég er meðvituð um að ég sýni glansmynd af lífi okkar mæðgna og reyni þess vegna að finna mótvægi.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi foreldrum?

„Slakið á. Þið eruð nóg. Hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir voru lagðir upp í bókunum eða myndunum. Lífið verður alltaf öðruvísi en þið hélduð eða höfðuð ákveðið. Börn hafa sinn eigin persónuleika og þarfir, hafa sína kosti og galla og það verður að mæta hverju og einu eins og það er.“

Úlfhildur Katrín og Eyrún á góðri stundu.
Úlfhildur Katrín og Eyrún á góðri stundu. Rakel Ósk Sigurðardóttir
mbl.is