Fær Filippus nöfnu í Bandaríkjunum?

Meghan hertogaynja af Sussex og Harry Bretaprins.
Meghan hertogaynja af Sussex og Harry Bretaprins. AFP

Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja af Sussex eiga von á dóttur á næstu vikum. Mikil spenna hefur myndast fyrir því hvaða nafn þau muni velja handa henni en nú veðja margir á að Filippus heitinn hertogi af Edinborg muni fá litla nöfnu í Bandaríkjunum. 

Filippus prins lést 9. apríl síðastliðinn og fór Harry til Bretlands til að vera viðstaddur jarðarför afa síns.

Á bresku veðmálasíðunni Ladbroke hefur nafnið Philippa, eða Filippía upp á íslensku, skotist upp listann og er nú með stuðulinn 3/1. 

„Það hægist ekkert á stuðningnum við nafnið Filippíu,“ sagði Jessica O'Reilly hjá Ladbroke. 

Ef Harry og Meghan myndu nefna dóttur sína eftir Filippusi þá væru þau ekki þau fyrstu í fjölskyldunni. Eugenie prinsessa og Zara Tindall gáfu báðar sonum sínum millinafnið Filippus.

Því hefur einnig verið spáð að Harry og Meghan muni heiðra Elísabetu Englandsdrottningu með því að nefna dótturina Lilibet. Það er gælunafn drottningunnar og var helst notað af Filippusi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert