Var eiginlega hrædd við að verða móðir

Tara Sif Birgisdóttir eignaðist soninn Adrían Elí fyrir þremur mánuðum.
Tara Sif Birgisdóttir eignaðist soninn Adrían Elí fyrir þremur mánuðum. Ljósmynd/Aðsend

Tara Sif Birgisdóttir viðskiptafræðingur eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Adrían Elí, með kærasta sínum Elfari Elí Schweitz Jakobssyni fyrir þremur mánuðum. Hún var ekki viss um hvort hún væri tilbúin að verða móðir en áttaði sig fljótlega á að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur. 

„Þetta er best í heimi og tíminn hefur liðið alltof hratt, ég veit að það segja þetta allir, en maður finnur það fyrst þegar maður eignast barn. Það er ekkert betra en að vera heima með honum. Ég vissi þó ekki að brjóstagjöf væri svona mikil vinna! Ég þarf eiginlega að borða meira en Elfar til að halda mjólkinni og ef það kemur ekki nóg verður lilli heldur betur ósáttur,“ segir Tara Sif um fyrstu mánuðina í móðurhlutverkinu. „Tilfinningin að mæta heim með barnið sitt í fyrsta skipti er ein sú furðulegasta. Held ég hafi ekki sofið í heila viku því ég var alltaf að athuga hvort það væri í lagi með hann og vaknaði við hvert einasta litla hljóð, þó svo að hann svæfi vært.“

Fyrstu vikurnar var kærasti Töru Sifjar með henni í fæðingarorlofi og sá litli var rólegur. „Vá, þetta er bara mun auðveldara en ég hélt,“ hugsaði Tara Sif en segir að sér hafi verið kippt aftur niður á jörðina þegar Elfar fór að vinna og sonurinn varð ákveðnari og kröfuharðari.

Tara Sif, Adrían Elí og Elfar Elí.
Tara Sif, Adrían Elí og Elfar Elí. Ljósmynd/Aðsend

„Hann verður þó bara skemmtilegri eftir því sem tímanum líður og það er dásamlegt að fylgjast með honum stækka og þroskast. Ég vildi samt óska þess að einhver hefði sagt mér að hann yrði bara pínulítill í korter. Ég er þannig úr garði gerð að mér finnst ég alltaf þurfa að vera að gera eitthvað og fæ samviskubit ef ég slaka of mikið á. Fæ svo strax móral yfir því að hafa ekki bara verið að njóta. Held ég þurfi bara að minna sjálfa mig reglulega á að þessi tími komi ekki aftur og því sé mikilvægt að hafa hugfast að ákveðnir hlutir geti beðið betri tíma. Litla mannveran sem er að mótast beint fyrir framan augun á þér getur það hins vegar ekki. Það var svo ákveðin áskorun að taka lokapróf kasólétt fimm dögum áður en hann ákvað að mæta í heiminn og svo aftur þremur vikum eftir að hann fæddist. Mæli ekkert sérstaklega með því en það reddaðist,“ segir Tara Sif sem er hálfnuð með nám til löggildingar fasteignasala. 

Það var furðulegt að fá soninn loksins í fangið.
Það var furðulegt að fá soninn loksins í fangið. Ljósmynd/Aðsend

Mikil óvissa vegna kórónuveirunnar

„Ég verð að viðurkenna að ég var ein af þeim sem var eiginlega bara hrædd við þetta og hélt ég væri alls ekki tilbúin í þetta hlutverk. Það má því segja að það hafi verið smá sjokk þegar ég komst að því að ég væri ólétt. Í dag er þetta hins vegar besta gjöf sem ég hef nokkurn tímann fengið. Við Elfar höfðum líka verið saman í sjö ár þegar þetta gerðist svo það var kannski bara tímabært. Gerði það líka að verkum að ég losnaði loksins við: „Jæja, á ekkert að skella í barn?“. Fólk meinar eflaust vel en guð má vita hversu mörg pör ganga í gegnum erfiðleika hvað þetta varðar. Mannslíkaminn er magnaður en hann getur líka verið svo ósanngjarn.“

Hvernig var fæðingin?

„Ég hafði verið með „Braxton Hicks“ (eins og Rachel í Friends) í um það bil tvær vikur sem ég hélt að væri rosa vont, það er þangað til ég fékk að finna fyrir alvöru samdráttunum,“ segir Tara Sif. 

„Vikurnar fyrir fæðinguna einkenndust af smáCovid hræðslu. Fær Elfar að vera hjá mér í fæðingunni eða þarf ég að ganga í gegnum þetta ein? Að fæða yfir höfuð hræddi mig mikið, hvað þá án hans. Til allrar hamingju fékk hann að vera hjá mér í gegnum allt ferlið. Tæpum 29 klukkustundum eftir að samdrættirnir hófust kom hann í heiminn. Eftir klukkustundar rembing kom í ljós að hann sneri með andlitið upp svo gripið var til þess ráðs að nota sogklukku. Ljósmæðurnar á Landspítalanum voru dásamlegar og við færum þeim hjartans þakkir fyrir allt saman. Þeim og mænurótardeyfingunni, hún var bjargvættur.“

Fjölskyldan var heima saman fyrstu vikurnar.
Fjölskyldan var heima saman fyrstu vikurnar. Ljósmynd/Aðsend

Tara Sif segir að tilfinningin við að fá soninn í fangið hafi verið skrítin. „Mér finnst hálfóþægilegt að viðurkenna þetta en mín fyrsta hugsun var: „ó guð hvað er þetta?”. Við upplifðum hvorugt þessa tafarlausu ást og hamingju sem við bjuggumst við en þar hlýtur þreytan að spila stórt hlutverk. Ég var til dæmis búin að vera vakandi í svo gott sem tvo sólarhringa á þessum tímapunkti. Eftir að við náðum smá svefni og fengum hann svo í fangið nokkrum klukkustundum eftir þetta allt saman helltist ástin yfir okkur, hefur ekki horfið síðan og eykst bara með hverjum deginum.

Besti og versti tíminn 

Tara Sif hefur alltaf verið í góðu formi og hefur þjálfað Dansfit-námskeið með Söndru Björg hjá World Class. Henn leið vel á meðgöngunni þrátt fyrir að það þolið hafi versnað aðeins. 

„Það voru mikil viðbrigði fyrir mig að sjá líkamann minn breytast svona. Ég hef alltaf hreyft mig mikið en allt í einu kafnaði ég nánast við að ganga upp fimm tröppur. Á sama tíma var ég ein af þessum óþolandi píum sem leið bara ansi vel á meðgöngunni. Mér var bara óglatt í um það bil sex vikur og þurfti þá stanslaust að borða vanillukex og drekka appelsínudjús til að slá á ógleðina. Á meðgöngunni þráði ég aldrei neinn sérstakan mat, sem voru eiginlega pínu vonbrigði. Hafði hlakkað til að senda Elfar upp í Mosfellsbæ eftir einhverri samloku. Aftur á móti hryllti mig við ákveðnum mat sem ég hafði elskað fyrir óléttuna, eins og til dæmis kjúklingi. Adrían, sem þá var bara baunin, var mjög virkur alla meðgönguna og átti það til að sparka fast í rifbeinin á mér. Neita því ekki að það var orðið vel óþægilegt undir lokin.“


„Þótt mér hafi liðið frekar vel á meðgöngunni tengi ég alls ekki við „bumbusakn“ eins og svo margar aðrar. Mér fannst bara rosalega fínt að klára þetta og fá strákinn minn. Maður öðlast samt aukna virðingu fyrir líkamanum sínum á meðgöngunni. Þetta er magnað fyrirbæri.

Mér líður eins og Covid hafi í raun verið besti og versti tíminn til að vera ólétt. Stressið í tengslum við fæðinguna, það er hvort ég þyrfti að ganga í gegnum hana ein var vont en á sama tíma leið mér aldrei eins og ég væri að missa af einhverju félagslega því það átti sér enginn neitt félagslíf hvort eð er.“

Morgunstundirnar með syninum notalegar

„Hann er kominn með nokkuð stöðuga rútínu yfir daginn sem er mjög þægilegt. Á kvöldin getur hann verið kröfuharðari þegar mjólkin er af skornum skammti. Þessa dagana erum við svo að vinna í því að venja hann á að sofna án þess að vera á brjósti. Það byrjaði brösuglega en virðist vera að smella saman núna,“ segir Tara Sif um dagana þeirra. 

„Ég elska morgnanna okkar en þá er hann í langbesta skapinu. Oftast situr hann í rólunni sinni, hjalar og brosir á meðan ég sötra kaffið. Annars höfum við verið mjög dugleg að hitta vinkonur mínar, fara í göngutúra og njóta þess að vera saman. Þegar hann leggur sig á daginn nýti ég tímann í að læra, taka til og svo framvegis. Ég er nefnilega enn að læra að slaka almennilega á eins og áður hefur komið fram. Ég hlakka mikið til að klára þessa önn í náminu og geta einbeitt mér að fullu að honum í sumar.“

Finnst þér móðurhlutverkið hafa breytt þér á einhvern hátt?

„Móðurhlutverkið hefur klárlega fengið mig til að endurhugsa forgangsröðunina. Ég þarf ekki að gera allt og þóknast öllum, nema kannski honum. Þá kem ég sjálfri mér stöðugt á óvart hvað varðar þolinmæði en líka þrjósku eins og í tengslum við svefnvenjurnar hans. Loks hélt ég alltaf að ég yrði aldrei týpan sem myndi sýna fólki myndir af barninu mínu í tíma og ótíma en það er ég svo sannarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert