Fólk tjáir oft sorg með reiði

Börn þrífast illa í umhverfi þar sem eru mikil átök. …
Börn þrífast illa í umhverfi þar sem eru mikil átök. Skilnaður er því ekki alltaf það versta sem barn getur upplifað í lífinu. Sér í lagi ef árgreiningur á milli foreldra minnkar. mbl.is/Colourbox

Sálgreinirinn Marcy Cole starfar við að hjálpa fólki að skilja í sátt og ástunda meðvitað uppeldi eftir skilnað (e. Conscious Co-Parenting After Divorce). Það er alltaf áfall að fara í gegnum skilnað foreldra en þarf ekki að vera það versta í lífinu. Sem dæmi sýna rannsóknir að börn þrífast illa í umhverfi þar sem eru mikil átök. Svo ef skilnaður foreldra minnkar átök þarf það ekki að vera vont fyrir barnið. 

Ef báðir foreldrar eru hins vegar uppteknir af innri streitu eða með fókusinn á að ásaka hinn aðilann í skilnaðinum er líklegt að það hafi áhrif á börnin. Börnin upplifa sig ein og yfirgefin í þannig umhverfi. Ef börn fá ekki stuðning í skilnaðarferli foreldranna aftengja þau oft við eigin tilfinningar. 

Sorg, reiði og leiði eru tilfinningar sem geta fest í þeim börnum sem fá ekki tíma og stuðning til að vinna úr skilnaði foreldra sinna. 

„Meginhlutverk foreldra er að skapa öryggi fyrir barnið sitt svo það geti orðið sjálfstætt, aðlagast nýjum aðstæðum, verið öruggt og myndað tengsl við annað fólk,“ segir dr. Cole og bætir við: „Ég minni foreldra á að sama hvað gerist í framtíðinni þá verða þau að læra að umgangast hvort annað það sem eftir er ævinnar. Þau eiga börnin saman og þurfa að finna leið til að vinna saman að því.“

Hver eru algengustu atriðin sem fólk með börn fer í gegnum við skilnað?

„Það upplifa allir einhvers konar sorg, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Þegar fólk kynnist og verður ástfangið gerir það það með opnu hjarta. Þegar hjónabandið gengur svo ekki upp eru það alltaf vonbrigði. Fólk tjáir oft sorg með reiði, sem stundum verður að þunglyndi eða að fólk varpar eigin tilfinningum á aðra.“

Hún segir marga upplifa það að hafa mistekist og stundum sé áskorun að halda athygli og ró í nýjum aðstæðum. 

„Það er alltaf áskorun að setja mörk og halda þeim og komast í gegnum deilur. Fjármál geta verið flókin og fleira setur strik í reikninginn sem fólk verður að finna leið til að semja um.“

Af hverju ætti aldrei að gagnrýna foreldri fyrir framan börnin?

„Því þá ertu að gagnrýna barnið. Það er tími og stund fyrir alls konar samtöl. Best er að fá þriðja aðila til að æfa upp færni við að tala án þess að ásaka eða verða fórnarlamb.“

Leið til að ná tökum á ástandinu getur verið að búa til tíma fyrir sjálfan sig, fara eftir ákveðnum reglum í samskiptum og ræða opinskátt og hlýlega við börnin. Það getur verið gott að skrifa jákvæðar staðhæfingar um framtíðina og skrifa niður allar tilfinningar sem koma upp í dagbók til að vinna sig í gegnum ferlið.“

Goop

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert