Opin fyrir því að senda Georg í burtu

Georg prins ásamt foreldrum sínum þeim Katrínu og Vilhjálmi.
Georg prins ásamt foreldrum sínum þeim Katrínu og Vilhjálmi. AFP

Hertogahjónin af Cambridge, Vilhjálmur og Katrín, eru ekki sögð mótfallin þeirri hugmynd að senda elsta son sinn í heimavistarskóla. Georg prins varð átta ára fyrir nokkrum dögum og fer ekki að heiman alveg strax. 

„Katrín og Vilhjálmur eru opin fyrir því að senda Georg í heimavistarskóla í framtíðinni og hafa skoðað nokkra en þeim finnst átta svolítið ungt og vilja bíða þangað til hann er orðinn aðeins eldri,“ sagði heimildarmaður Us Weekly. Katrín og Vilhjálmur myndu alltaf taka tillit til Georgs og hans langana og hvað væri honum fyrir bestu. Ákvörðun er sögð fjölskylduákvörðun þeirra. 

Eðlilegt þykir að breska konungfjölskyldan og annað fínt fólk í Bretlandi gangi í heimavistarskóla. Katrín hertogaynja gekk í heimavistarskóla rétt eins og Vilhjálmur. Georg litli er sagður hafa heyrt skemmtilegar sögur frá heimavistarárum foreldra sinna. Sá stutti er sagður mjög áhugasamur um að fara skóla langt í burtu frá heimili sínu. Eins og er gengur hann í St. Thomas Battersea-einkaskólann í Lundúnum. Hann hefur verið nemandi í skólanum síðan 2017 og nú er Karlotta systir hans einnig í skólanum. Síðasta ár fór námið mikið fram í fjarnámi vegna kórónuveirufaraldursins. 

Georg varð átta ára 22. júlí síðastliðinn. Hann fékk fótboltaköku og margar flottar afmælisgjafir.

Vilhjálmur og Katrín eru sögð opin fyrir þeirri hugmynd að …
Vilhjálmur og Katrín eru sögð opin fyrir þeirri hugmynd að senda Georg í heimavistarskóla. AFP
mbl.is