Ætlaði ekki eignast fleiri börn eftir erfiða reynslu

Valgerður Tryggvadóttir á þrjú börn. Hér er hún með tvíburunum …
Valgerður Tryggvadóttir á þrjú börn. Hér er hún með tvíburunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Sjúkraþjálfarinn Valgerður Tryggvadóttir á þrjú börn, sjö ára tvíbura og hálfs árs gamla dóttur með sambýlismanni sínum. Valgerður hefur mikinn áhuga á allri hreyfingu og þjálfun og kennir meðal annars mömmuþjálfun. Tvíburameðgangan og fæðingin reyndi á og fyrstu árin eftir meðgönguna var hún ekki viss um að hún vildi ganga með fleiri börn. 

„Fyrir utan gleðina, ástina, stoltið og allt það besta sem fylgir þessu hlutverki þá þurfti ég algjörlega að forgangsraða upp á nýtt og það tók mig langan tíma að ná jafnvægi á daglega lífinu,“ segir Valgerður um hvernig lífið breyttist þegar hún varð móðir. „Ég hélt alltaf að það yrði ekkert mál að vera með börnin og báðir foreldrar að vinna fulla vinnu ásamt því að ég hef mikla þörf fyrir hreyfingu og félagslífi. Ég fann harkalega fyrir því að það er ekki hægt að gera allt í einu en ég vil gefa börnunum allan þann tíma sem þau þurfa.“

Meðgöngurnar og fæðingarnar eins og svart og hvítt

Valgerður fann mikinn mun á meðgögnunum tveimur. „Margir halda að það sé af því fyrri meðgangan var tvíburameðganga og þess vegna erfiðari. Auðvitað getur það spilað inn í að einhverju leyti en ég fann mestan mun vegna breytinga á væntingum og hugarfari. Ég svaf lítið sem ekkert og var mjög verkjuð alla fyrri meðgönguna,“ segir hún. 

Valgerður Tryggvadóttir sjúþrjálfari hefur gengið í gegnum tvær fæðingar.
Valgerður Tryggvadóttir sjúþrjálfari hefur gengið í gegnum tvær fæðingar.

„Á seinni meðgöngunni var ég búin að læra mikið inn á líkamann og hugann, ekki síst vegna fyrri meðgöngu og bílslyss sem ég lenti í árið 2017 ásamt erfiðs streitutímabils í kjölfarið. Ég hafði þess vegna allt aðrar væntingar til meðgöngunnar og sýndi mér mun meiri mildi. Hvíldi mig eftir þörfum og kunni betur að ráða við stoðkerfiskveikjurnar mínar og hélt þannig niðri verkjum. Svefninn var mun betri og með gífurlegri aðstoð allrar fjölskyldunnar leið mér vel á meðgöngunni og gat mun lengur verið virk í vinnu og hreyfingu, þrátt fyrir ákveðna fylgikvilla, sem gaf mér mikla gleði.“

Hvernig gengu fæðingarnar þínar?

„Fæðingarnar voru líka svart og hvítt. Aðallega af því að miklu meira umstang er í kringum tvíburafæðingar, fleira starfsfólk og meiri viðbúnaður sem getur aukið á stressið. Ég var líka búin að vera inniliggjandi á spítalanum vegna meðgöngueitrunar og var í minningunni orðin hálfrænulaus þegar ég var sett af stað á 35. viku. Stelpan kom fyrst og lífsmörk stráksins voru ekki góð svo það var byrjað að tala um bráðakeisara sem við sluppum sem betur fer við. Hann var mættur tíu mínútum síðar en var mjög slappur og þau fóru beint á Vökudeildina þar sem þau voru næstu tvær vikur. Ég lá ein eftir í algjöru sjokki og upplifunin af næstu klukkustundum og dögum var ljúfsár. Ég fékk þau ekki strax í fangið og gat ekki gengið sjálf inn á vöku. Þau voru bæði í hitakassa og þurftu aðstoð með súrefni og næringu ásamt fleiru sem kom upp. Minni mitt frá þessum vikum og mánuðum er frekar gloppótt og ég var lengi að jafna mig líkamlega og andlega. Erfiðir tímar en líka alveg magnaðir. Í mörg ár ætlaði ég alls ekki að eignast fleiri börn vegna upplifun minnar af meðgöngunni og fæðingunni,“ segir Valgerður en það breyttist heldur betur. 

„Í seinni fæðingunni er maður auðvitað sjóaðri eftir þá fyrri en ég var líka staðráðin í því að vinna vel úr fyrri fæðingareynslunni til að hún hefði ekki áhrif á þá seinni. Ég fékk mun betri undirbúning hjá dásamlegri ljósmóður í mæðraverndinni og var sjálf komin með betri þekkingu á líkamanum, grindarbotninum og hvernig fæðingar virka. Seinni fæðingin var eins og draumur og ég er rosalega þakklát fyrir þá upplifun. Mig langaði ekkert heitar en að eignast fleiri börn fyrstu vikurnar eftir hana. Ég var gangsett á 41. viku og var komin í níu í útvíkkun í fyrstu skoðun við komu á spítalann. Við lögðum bílnum og 45 mínútum síðar var ég komin með stóra og hrausta stelpu í fangið. Þessi góða upplifun og hlýtt og gott viðmót á spítalanum hafði mikið að segja fyrir andlega og líkamlega líðan komandi daga og vikur og ég var mun fljótari að ná mér í seinna skiptið.“

Fjölskyldan nýtur þess að eiga góðar stundir saman.
Fjölskyldan nýtur þess að eiga góðar stundir saman. Ljósmynd/Aðsend

Bjóst ekki við neinu og fagnaði öllu

Valgerður er vön að hreyfa sig mikið. Á fyrri meðgöngunni hreyfði hún sig eins og hún hafði alltaf gert fram að tuttugustu viku en þá sprakk hún algjörlega og gat lítið sem ekkert hreyft sig. „Á seinni meðgöngunni hlustaði ég miklu betur á líkamann. Ég bjóst ekki við neinu og fagnaði öllu. Ég þurfti nánast strax að hætta að hlaupa og fara í langar göngur vegna sigeinkenna sem fóru versnandi. Ég hélt áfram að lyfta, hjóla og fara í styttri göngur aðallega fyrir útiveruna. Ég byrjaði svo að finna fyrir auknum einkennum háþrýstings við hreyfingu og aðlagaði æfingar eftir því. Að lokum gat ég lítið sem ekkert gert og fór í meðgöngusund á Grensás sem gjörsamlega bjargaði síðustu vikunum. Þar fyrir utan fór ég sjálf í sund og gerði léttar æfingar ásamt því að fara sturtu að minnsta kosti einu sinni á dag þar sem ég hlustaði á hljóðbók, slakaði á og liðkaði mig til. Ég var með æfingabolta í sturtunni sem gerði mjög mikið fyrir mig.“

Valgerður er dugleg að hreyfa sig og segir að hreyfing …
Valgerður er dugleg að hreyfa sig og segir að hreyfing á meðgöngu geri konum gott.

En hvernig gekk þér að koma þér af stað?

„Eftir báðar meðgöngur þurfti ég tíma til að jafna mig eftir blóðþrýstingshækkunina en það er mjög mikilvægt að fylgjast með blóðþrýstingnum eftir fæðinguna líka. Eftir meðgöngurnar fylgdist ég líka vel með þeim einkennum sem sátu eftir eins og þvag- og hægðaleki, sigeinkenni og skertur styrkur í kvið og grindarbotni. Tengingin við vöðvana kom frekar fljótt aftur eftir seinni meðgönguna. Í bæði skiptin gaf ég mér góðan tíma í að ná upp þreki í daglegar athafnir, bætti síðan við stuttum göngum og léttum styrktaræfingum þangað til að ég fann að ég gat farið að reyna meira á mig. Ég hef alveg þurft að hafa fyrir hlutunum en það hefur gengið rosalega vel og ég var fljótlega farin að prófa mig áfram í skokki, hoppum og meira krefjandi æfingum. Hér hefur væntingastjórnun skipt miklu máli þar sem það er meira en nóg að gera með þrjú börn, framkvæmdir og vinnu svo ég set enga tímapressu á mig, hlusta á líkamann og hreyfi mig þegar tækifæri gefst.“

Mikilvægt að hlusta á líkamann

Valgerður kennir mömmuþjálfun ásamt þremur öðrum sjúkraþjálfurum. Tímarnir heita VIVIUS mömmuþrek. Menntun hennar og eigin meðgöngur og fæðingar koma að góðum notum. 

„Mömmuþjálfunin gengur út á að læra inn á líkamann í gegnum fræðslu og hreyfingu, hlusta á hann og gefa sér tíma til að ná upp styrk og þol. Það á líka að vera gaman að æfa og maður þarf að fá áskoranir. Í mömmutímum finnst mér skipta máli að taka þessar algengustu æfingar sem eru notaðar í hóptímum og búta þær niður og vinna þannig í grunnstyrk og byggja sig upp fyrir erfiðari æfingar. Það besta við þetta er að einn iðkandi getur unnið í grunninum sínum fyrir upphífingar á meðan hinn er kannski byrjaður að taka sjálfar upphífingarnar. Þannig geta allir fengið eitthvað út úr æfingunum, alveg sama í hvaða formi þeir eru. Í boði er líka fræðsla tengd kvið og grindarbotni,“ segir Valgerður. 

Hún segir rannsóknir hafi sýnt fram á að æfingar á meðgöngu stuðli að bættri líkamlegri og andlegri líðan. Einnig gengur fæðingin og það sem á eftir kemur oft betur. „Þær sem hafa ekki verið að hreyfa sig mega byrja á því á meðgöngu ef þær treysta sér til, það er aldrei of seint að byrja og getur haft verulega jákvæð áhrif.“

Hvað þurfa konur helst að styrkja á meðgöngunni eða hugsa um?

„Fyrst og fremst að hlusta á líkamann og vera forvitnar um þær breytingar sem eiga sér stað. Ekki hræðast breytingarnar um of eða hætta alveg að hreyfa sig. Það er betra að fá leiðbeiningar um hvað er eðlilegt og hvernig megi aðlaga hreyfingu. Algengt er að virkni í kvið, djúpvöðvum, og öðrum vöðvum kringum mjaðmagrind breytist svo það getur verið gott að halda í tengingu og tilfinningu fyrir þessu svæði með því að hreyfa sig og gera æfingar, styrkjandi og liðkandi. Aukin líkamsvitund gerir okkur betur kleift að finna mun á spennu og slökun í líkamanum sem getur hjálpað mikið varðandi líðan á meðgöngu en einnig í fæðingunni. Þá er mikilvægt að geta slakað á vöðvunum og treyst líkamanum fyrir að stýra ferlinu í fæðingunni.“

Eru einhverjir kvillar þér finnst algengari en aðrir eftir meðgöngur og fæðingar?

„Það eru ýmsir kvillar sem koma upp eftir meðgöngur og fæðingar en það sem á hug minn allan þessa dagana er að margar konur sem ég tala við upplifa óöryggi eða skort á upplýsingum um hvað sé eðlilegt að finna og hvernig maður á að haga endurhæfingu sinni eftir fæðingu. Mér finnst mikilvægt að bregðast við þessu án þess að auka á hræðslu við að setja álag á líkamann af ótta við að skemma starfsemi kvið- eða grindarbotnsvöðva. Með góðri fræðslu og því að gefa sér tíma og hlusta á líkamann er þetta yfirleitt ekki svo flókið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert