Fékk ekki stuðning þegar hún varð ólétt 16 ára

Systurnar Britney (t.v.) og Jamie Lynn Spears.
Systurnar Britney (t.v.) og Jamie Lynn Spears.

Jamie Lynn Spears hefur alltaf fallið í skugga stóru systur sinnar, söngkonunnar Britney Spears. Hún hefur líka unnið fyrir sér í skemmtanaiðnaðinum síðan hún var ung og átt í erfiðu sambandi við föður sinn rétt eins og stóra systir. Hún segir frá því í bókinni Things I Should Have Said hversu mikið það reyndi á að verða ólétt 16 ára. 

Árið 2007 glímdi Britney Spears við mikla erfiðleika en á sama tíma var litla systir hennar, Jamie Lynn Spears, bara 16 ára og ólétt eftir kærasta sinn. Jamie Lynn segir að óléttan hafi komið fjölskyldu sinni og starfsfólki sérstaklega illa að því fram kemur í bókarkafla sem birtist á vef People. Starfsfólk sem sá um almannatengsl fyrir Spears-fjölskylduna var sett í málið.

„Fjölskyldan mín og umboðmenn mínir tóku mig úr skóla þangað til þau ákváðu hvað þau áttu að gera næst. Þau tóku snjallsímann minn af mér, voru hrædd um að þetta fréttist og kröfðust þess að enginn deildi þessum upplýsingum með neinum, sérstaklega fjölmiðlum. Ég og pabbi hættum að tala saman og spennan var hræðileg,“ segir Jamie Lynn Spears í bókinni. 

Hún segir að allir hafi haft skoðun á því hvað væri henni fyrir bestu. Margir reyndu að sannfæra hana um að það væri slæmt fyrir hana að eignast barn á þessum tímapunkti. „Þetta mun eyðileggja ferilinn þinn. Þú ert alltof ung. Þú veist ekki hvað þú ert að gera. Það eru til töflur sem þú getur tekið. Við getum hjálpað þér með þetta vandamál. Ég þekki lækni,“ var meðal þess sem fólk sagði við hana. Þegar hún neitaði að láta rjúfa þungunina var reynt að sannfæra hana um að fæða barnið og gefa það til ættleiðingar. 

Jamie Lynn Spears átti þó einn bandamann í teyminu. Það var kona sem stóð upp og benti á að það væri ekki hægt að þvinga hana til þess að fara í þungunarrof. „Hún var fyrsta og eina manneskjan sem sýndi löngun minni til þess að halda barninu stuðning.“

Að lokum var óléttan tilkynnt í fjölmiðlum. „Britney frétti af óléttunni þegar greinin birtist,“ segir Jamie Lynn Spears og segir aðferðin enn særa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert