Nýtir nýfengið frelsi með unglingssonum sínum

Britney Spears á tvö börn.
Britney Spears á tvö börn. AFP

Poppstjarnan Britney Spears öðlaðist langþráð frelsi á dögunum. Unglingssynir hennar tveir eru meira hjá föður sínum en fóru með móður sinni á listasýningu og skemmtu sér vel að sögn listamannsins Chris Dowsons. 

Spears á hinn 16 ára Sean Preston og hinn 15 ára gamla Jayden James. Hún fór með þá á Flutter-listasýninguna í Los Angeles. Unnusti Spears, leikarinn Sam Asghari, var einnig með í för að því er fram kemur á vef Page Six. 

Fjölskyldan fékk sérstaka leiðsögn um listasýninguna sem byggist á þátttöku gesta. Chris Dowson, listamaðurinn á bak við sýninguna, sagði að Spears hefði virkað hamingjusöm og áhyggjulaus þegar hún skoðaði sýninguna. Spears tengdi vel við sýninguna sem snýst um jákvæðni, frelsi og sköpun og er sögð hvetja til andlegrar heilsu. 

„Britney var í mjög góðu skapi, var frábær mamma og tók virkan þátt í því sem börnin gerðu og naut þess að vera með Sam og allri fjölskyldunni,“ sagði Dowson jafnframt. 

Spears deildi myndskeiði frá ferðinni með fylgjendum sínum á Instagram. „Ævintýri með börnunum,“ skrifaði Spears. 

mbl.is