Meðgangan kveikti neista

Elín Huld Sigurðardóttir á hinn eins árs gamla Aron Þór.
Elín Huld Sigurðardóttir á hinn eins árs gamla Aron Þór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Huld Sigurðardóttir íþróttafræðingur fann sína köllun sem þjálfari þegar hún gekk með sitt fyrsta barn en hún einbeitir sér að þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu. Hún segir að líkami kvenna ekki vera þann sama fyrir og eftir meðgöngu. 

„Ég útskrifaðist sem íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2021. Í framhaldi af því náði ég mér í meðgöngu- og mömmu þjálfararéttindi. Eins og er, er ég ennþá að hluta til heima með strákinn minn en ég er líka einka- og hóptímaþjálfari í Heilsuklasanum og er með meðgöngu- og mömmunámskeið þar,“ segir Elín sem opnaði nýlega miðilinn Thjalfunby.es á Instagram þar sem hún býður upp á fræðslu og fleira skemmtilegt tengt þjálfun á meðgöngu og eftir barnsburð. 

Elín og kærastinn hennar, Gunnar Malmquist, eignuðust soninn Aron Þór þann 2. janúar 2021. Hún segir ótrúlega valdeflandi að að ganga með barn í níu mánuði, koma því í heiminn og að verða móðir. „Ég upplifi mig smá eins og aðra manneskju en áður, ég er með allt annað sjálfstraust, ég er þrautseigari og ég er opnari heldur en ég var áður en ég varð móðir. Og þessi skilyrðislausa ást sem maður heyrir svo oft tala um, maður skilur það eiginlega ekki fyrr en maður upplifir þetta sjálf,“ segir Elín um móðurhlutverkið. 

Elín fékk mikinn áhuga á meðgöngu- og mömmuþjálfun þegar hún …
Elín fékk mikinn áhuga á meðgöngu- og mömmuþjálfun þegar hún gekk með son sinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Áhuginn á þjálfun kvenna á meðgöngu og eftir barnsburð kviknaði klárlega þegar ég var sjálf ólétt og upplifði mig mjög týnda í hreyfingu og fannst vanta aðgengilegra efni um hreyfingu á meðgöngu og eftir fæðingu. Ég var nemi í íþróttafræði alla meðgönguna mína og tók ég sérhæfinguna mína í að fylgjast með sérhæfðum meðgöngu- og mömmuþjálfara, ásamt því að framkvæma eigindalega rannsókn á efni tengdu þessu. Að lokum skrifaði ég BSc ritgerðina mína sem að ber heitið: „Hreyfing og næring á meðgöngu og eftir fæðingu“.
Þannig það má segja að ég hafi algjörlega fundið mig á þessu sviði, og þetta er bara byrjunin og fullt spennandi framundan.“

Hvernig gekk meðgangan?

„Ég átti virkilega erfiðar fyrstu rúmar 17 vikurnar þar sem mikið var um ógleði og uppköst en upp úr 20 vikum þá fór mér að líða betur og leið í rauninni bara mjög vel andlega og líkamlega alveg fram að seinasta degi.“

Finnur þú mikinn mun á líkamanum þínum fyrir og eftir meðgöngu? 

„Nei ég er tiltölulega heppin hvað það varðar, en núna ári eftir barnsburð finn ég engan mun. En ég hef líka unnið markvisst í sjálfri mér andlega og líkamlega. Vissulega eru konur allar misjafnar og er bara frekar algengt fyrsta árið að minnsta kosti að finna fyrir breytingum á grunnstyrk kvið- og grindarbotnsvöðvum sem dæmi.“

Elín segir Líkami barnshafandi kvenna taka sífelldum breytingum.
Elín segir Líkami barnshafandi kvenna taka sífelldum breytingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig er þín fæðingarsaga?

„Ég var gengin 39 vikur þann 1. janúar 2021 og ég missi vatnið heima un 16:00 leytið. Við fórum upp á deild þá og fengum staðfestingu á byrjandi fæðingu og var þá með rúma þrjá sentímetra í útvíkkun. Ég vildi fara heim og bíða og sjá hvernig verkirnir yrðu og þeir stigmögnuðust mjög hratt og var komin með reglulegar sterkar hríðar með stuttu millibili. Um níu leytið ákváðum við að fara aftur upp á deild og við skoðun kom í ljós að ég var komin með átta til níu sentímetra í útvíkkun. Við fórum beint inn á fæðingarstofu og ég valdi að prófa að fara í baðið og anda mig í gegnum verkina þar, eftir rúmar 20 mínútur í baðinu kom rembingsþörfin og ég fór upp úr og eignaðist fallega strákinn minn kl 00:55, 2. janúar eftir yndislega fæðingu. Fallegasta sem að ég hef gert er að koma barni í þennan heim.“

Hvað þurfa konur að hafa í huga þegar kemur að hreyfingu fyrir og eftir fæðingu?

„Öndun, líkamsstöðu og sambandið milli kviðvöðva og grindarbotns. Líkami barnshafandi kvenna er í sífelldum breytingum og með stækkandi barni í bumbu bregst líkaminn við með því að ýta líffærum upp að þindinni og lungunum, þess vegna eru barnshafandi konur oft andstuttar því að þær fara að anda upp í brjóstkassa í stað þess að anda niður í þindina. Við tökum um 20 þúsund andadrætti á dag og þess vegna er ekki einungis mikilvægt að passa öndunina á æfingum, heldur ekki síður mikilvægt að stoppa sig líka af á daginn, skoða líkamsstöðuna og hvernig öndunin er og laga til ef þess þarf. Rétt öndunartækni og samband kviðvöðva og grindarbotns er því uppistaða allrar hreyfingar á meðgöngu og eftir barnsburð. Ég fer vel í þetta á námskeiðinu hjá mér ásamt inn á Instagram-miðlinum mínum.“

Hvernig gekk þér að koma líkamanum í gott form aftur? 

„Ég byrjaði snemma eftir fæðingu að gera grindarbotnsæfingar en það er talið vera öruggt um leið og þú treystir þér til. En á þessum tíma var ég enn þá í náminu og var í verklegum fimleikaáfanga, þannig að um fimm til sex vikum eftir fæðingu var ég farinn að mæta í „full-on“ fimleikatíma þar sem við vorum að gera handahlaup, handstöður, heljarstökk og æfingar á trampólíni. Ég var meðvituð um ástandið á líkamanum mínum og sem dæmi man ég eftir að ég sleppti öllum kviðæfingum, eins og kviðakreppum og þess háttar. En að öðru leyti fór ég tiltölulega hratt af stað en almennt er mælt með að konur bíði í sex vikur eftir fæðingu til þess að byrja að stunda hreyfingu aftur en það er auðvitað einstaklingsbundið og fer líka aðeins eftir því hversu vel var viðhaldið grunnstyrk á meðgöngunni.

Mig langar að fá að troða því hérna inn að ætla „komast í sitt gamla form“ eða „passa í gömlu fötin“ er óraunhæft fyrir mjög margar konur, en er oft eitthvað sem maður heyrir. Mér finnst að það ætti í rauninni ekki að vera neitt sérstakt markmið þar sem að líkaminn okkar er ekki sá sami eftir að hafa gengið með og fætt barn. Þetta er nýr veruleiki og breyttur líkami, ég vil frekar leggja áherslu á að kynnast þessum nýja magnaða líkama sem gekk með og fæddi barnið mitt og vinna með þeim breytingum sem hafa átt sér stað í staðinn fyrir á móti.“ 

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum mæðrum?

„Kannski svona nokkrar setningar sem að maður hefur heyrt ansi oft: „Þetta er bara tímabil,“ er mantra sem að ég hef sagt ansi ansi oft við sjálfa mig. „Ekki gleyma að hugsa um sjálfa þig, hamingjusöm mamma sama sem hamingjusamt barn“ og „Fed is best – sama hvort það sé úr pela eða brjósti“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert