„Þau eru líklega það eina sem við erum sammála um“

Shanna Moakler.
Shanna Moakler. Skjáskot/Instagram

Bandaríska fyrirsætan og leikkonan Shanna Moakler opnaði sig um samband sitt við fyrrverandi eiginmann sinn, trommuleikarann Travis Barker, í spjallþættinum Entertainment Tonight á dögunum. 

Þau Moakler og Barker eiga saman tvö börn, Landon, 18 ára og Alabama, 16 ára en Moakler átti dótturina Atiana, 22 ára, áður en hún og Barker tóku saman. Hefur Barker litið á Atiönu sem sína eigin dóttur alla tíð síðan. Sameiginleg þátttaka foreldranna í uppeldi barnanna hefur gengið vel að sögn Moakler. People greindi frá.

„Börnin mín eru alltaf í fyrsta sæti hjá mér,“ sagði Moakler. „Það er það sem ég held að við Travis eigum sameiginlegt,“ sagði hún jafnframt og tók það fram að hún beri engan kala til Kardashians-fjölskyldunnar. 

„Svo lengi sem Kardashians-fjölskyldan er góð við börnin mín þá er ég sátt. Það er það eina sem skiptir mig sem móður máli,“ sagði Moakler. „Það sem er líklega það eina sem við Travis erum sammála um eru börnin okkar. Velferð þeirra er alltaf í forgangi hjá okkur.“

Moakler blés á sögusagnir um að hún væri heltekin og með þráhyggju fyrir ástarsambandi Travis Barkers og Kourtney Kardashians. Moakler hefur verið sögð afbrýðissöm út í trúlofun þeirra en því vísar hún alfarið á bug.

„Ég er það bara alls ekki,“ sagði hún. „Ég er hamingjusöm með Matthew og þau eru ekki einhver miðpunktur í mínu lífi,“ sagði Moakler.

Moakler og Barker voru kvænt á árunum 2004-2008.

mbl.is