Hafa reynt að halda veislu þrisvar sinnum

Oddný Friðriksdóttir ökukennari er ekkert að stressa sig þó hún …
Oddný Friðriksdóttir ökukennari er ekkert að stressa sig þó hún hafi gert þrjár tilraunir til að halda veislu fyrir dóttur sína, fermingarbarnið Ragnheiði Jennýju Jóhannsdóttur. mbl.is

Oddný Friðriksdóttir ökukennari er ekkert að stressa sig þó hún hafi gert þrjár tilraunir til að halda veislu fyrir dóttur sína, fermingarbarnið Ragnheiði Jennýju Jóhannsdóttur. Hún er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en býr nú alsæl með manni sínum Guðmundi Ragnari Ólafssyni í Hafnarfirði.

Dóttir hennar og Jóhanns Inga Guðmundssonar, fermingarbarnið Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir, fermdist þann 10. apríl í fyrra í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og er þriðja barnið þeirra sem fermist í sömu kirkjunni.

Ragnheiður Jenný fermdist ásamt tveimur bestu vinkonum sínum þann 10. …
Ragnheiður Jenný fermdist ásamt tveimur bestu vinkonum sínum þann 10. apríl í fyrra. Ennþá á eftir að halda veisluna.

„Ragnheiður Jenný fermdist á tíma þar sem mikil óvissa var í samfélaginu varðandi samkomutakmarkanir. Það var því óljóst hvort eða hvenær fermingin myndi fara fram og nánast ómögulegt að skipuleggja fermingarveislu. Við ákváðum því í samráði við fermingarstúlkuna að bíða og sjá framvindu mála og festa því ekki dagsetningu fyrir veisluna með miklum fyrirvara. Það varð svo úr að ekki var hægt að halda fermingarveislu en athöfninni var haldið til streitu með ólíkara sniði en venjulega. Í staðinn fyrir að fermast í stórum hóp eins og gengur og gerist, þá voru margar smærri athafnir haldnar sama daginn til að virða fjöldatakmarkanir. Því var fámennt í kirkjunni en góðmennt.“

Fermdist í kirkjunni þar sem allir þekktust

Fermingardagurinn var yndislegur í alla staði að mati Oddnýjar.

„Veðrið lék við okkur, það var sól og blíða sem hafði áhrif á okkur, svo við upplifðum daginn með eins konar sól í hjarta.

Undirbúningurinn var nokkuð hefðbundinn þrátt fyrir óhefðbundna fermingu vegna kórónuveirunnar. Við byrjuðum daginn á því að fara til Rakelar Ársælsdóttur á Hárgreiðslustofuna Flóka í Hafnarfirði og sá hún um að greiða Ragnheiði Jennýju eða Heiðu eins og við köllum hana. Þess ber að geta að hún Rakel er góð vinkona mín og mamma bestu vinkonu Heiðu sem var einmitt að fara að fermast þennan sama dag. Það var því notaleg stemning á hárgreiðslustofunni, þar sem allir voru afslappaðir og fullir tilhlökkunar.“

Það sem gerði sjálfa athöfnina mjög sérstaka og eftirminnilega er að vegna kórónuveirunnar þá voru einungis þrjú fermingarbörn í athöfninni og þeirra nánustu aðstandendur viðstaddir.

Oddný Friðriksdóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en býr …
Oddný Friðriksdóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en býr nú alsæl með manni sínum Guðmundi Ragnari Ólafssyni í Hafnarfirði. Hér er mynd af þeim í fermingunni, með grímur að sjálfsögðu.

„Heiða fermdist því með tveimur bestu vinkonum sínum og úr varð einstaklega persónuleg, falleg og skemmtileg athöfn.

Prestarnir beindu orðum sínum til stúlknanna og andrúmsloftið var mjög gleðilegt og afslappað. Tónlistin var nútímaleg og mjög viðeigandi.

Það sem gerði athöfnina einnig skemmtilega og sérstaka er að kirkjan sem Heiða fermdist í, Ástjarnarkirkja, er nýlega byggð og þegar fyrsta skóflustungan var tekin þá var hún fengin til verksins þar sem hún var virk í barnastarfi kirkjunnar. Við höfum því alltaf kallað kirkjuna Heiðukirkju.“

Oddný er sannfærð um að það sé frekar flókið að ferma á kórónuveirutímum.

„Við tókum snemma þá ákvörðun að vera ekki að stressa okkur á þessu og festa ekki neitt langt fram í tímann. Reynslan var búin að kenna okkur að við þetta verður ekki ráðið og því nauðsynlegt að taka því sem höndum bar. Enda sannaði það sig, það var ekki hægt að halda stóra veislu. Við gerðum eins gott úr aðstæðum og við gátum, fermingin fór fram og var dásamleg. Að henni lokinni hittist stórfjölskyldan heima og við héldum litla veislu fyrir okkar nánustu. Úr varð mjög skemmtilegur dagur þar sem fermingarbarnið naut sín í hvívetna með sínum bestu vinkonum og fjölskyldu.

Ragnheiður Jenný er frábær fimleikastelpa sem sýndi listir sýnar í …
Ragnheiður Jenný er frábær fimleikastelpa sem sýndi listir sýnar í fermingarmynda-tökunni í fyrra. mbl.is/Hulda Margrét

Eftir á að hyggja var þetta kannski bara með betri móti því allir gáfu sér svo góðan tíma og allt var afslappað og þægilegt.“

Fjölskyldan hefur nú reynt að halda stærri veislu nokkrum sinnum.

„Í fyrstu tvö skiptin þurftum við að hætta við vegna fjöldatakmarkana en í þriðja skiptið leit út fyrir að fermingarbarnið yrði ekki á landinu þar sem hún var valin í unglinga-landsliðið í fimleikum og átti að keppa á móti í Belgíu og því var sú dagsetning einnig blásin af. Við ætlum því að gera fjórðu atlögu að veislunni og höfum ákveðið að halda sumarveislu í upphafi sumars, nú rúmu ári eftir fermingardaginn.“

Hvernig verður veislan?

„Við ætlum að leigja sal en erum ekki alveg búin að taka ákvörðun um hvar. Hvað varðar veitingar og annað slíkt þá er ósk fermingarbarnsins að hafa smárétti, tapas og kökur og munum við leyfa henni að ráða því enda er það stórgóð hugmynd. Við leggjum ekki mikið upp úr skreytingum og munum því velja sal í takt við það. Við viljum forgangsraða á þann hátt að í stað þess að leggja út í mikinn kostnað við skreytingar þá kjósum við frekar að fá skemmtiatriði í veisluna, eins og söngvara sem syngur nokkur lög fyrir fermingarbarnið. Við viljum einnig fá ljósmyndara í veisluna sem tekur myndir þar.“

Ragnheiður Jenný er í unglingalands-liðinu í fimleikum og þurfti að …
Ragnheiður Jenný er í unglingalands-liðinu í fimleikum og þurfti að hliðra til með fermingarveisluna sína, vegna keppnisferðalags sem hún þurfti að fara í. mbl.is/Hulda Margrét

Vildi hafa fermingarbarnið í fókus

Oddný undirbjó sig fyrir fermingardag dóttur sinnar í takt við allt annað, á frekar hóflegan og lágstemmdan hátt eins og hún segir sjálf frá.

„Ég vildi leggja áherslu á að gera daginn eins ánægjulegan og eftirminnilegan fyrir fermingarbarnið og hægt var.

Ég sá nú bara um að punta mig sjálf og átti nóg af fötum að velja úr fyrir daginn. Það er spurning hvort maður kaupa sér ekki fallegan sumarkjól fyrir sumarveisluna.“

Ef Oddný hefur lært eitthvað í fermingarferlinu með dóttur sinni þá er það að taka allar ákvarðanir varðandi ferminguna sjálfa með fermingarbarninu. Undirbúningurinn getur verið góð samvera með barninu.

„Mér finnst einnig mikilvægt að vinna þetta allt í samvinnu við fjölskylduna og leyfa öllum að taka þátt. Þegar á hólminn er komið þá er fermingin og allt sem henni fylgir stór stund hjá fjölskyldunni í heild sinni og því afar mikilvægt að allir taki þátt og fái að njóta sín.“

Ragnheiður Jenný fermdist þann 10. apríl í fyrra á þeim …
Ragnheiður Jenný fermdist þann 10. apríl í fyrra á þeim tíma sem mikil óvissa ríkti í samfélaginu vegna kórónuveirunnar. Hún keypti þennan kjól í Gallerí 17. mbl.is/Hulda Margrét
Ragnheiður Jenný fermdist þann 10. apríl í fyrra á þeim …
Ragnheiður Jenný fermdist þann 10. apríl í fyrra á þeim tíma sem mikil óvissa ríkti í samfélaginu vegna kórónuveirunnar. Hún keypti þennan kjól í Gallerí 17. mbl.is/Hulda Margrét
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »