Dreymt um að vera stutthærð frá barnsaldri

Jojo Siwa fékk loksins að klippa sig stutt.
Jojo Siwa fékk loksins að klippa sig stutt. Skjáskot/Instagram

Raunveruleikastjarnan og söngkonan JoJo Siwa breytti aldeilis til nú fyrr í vor þegar hún ákvað að klippa sig stutt. Siwa, sem er nýorðin 19 ára, segir að hana hafi dreymt um að klippa sig stutt frá því að hún var sjö eða átta ára gömul.

„Mig er búið að langa í svona klippingu síðan ég var bókstaflega sjö eða átta ára. Síðan ræddi ég það loksins við mömmu, og hún sagði bara alls ekki,“ sagði siwa í viðtali við The View á afmælisdaginn sinn 19. maí. 

Siwa varð fræg þegar hún kom fram í raunveruleikaþáttunum Dance Moms ásamt móður sinni Jessalyn Siwa. Síðan þá hefur hún átt farsælan feril í raunveruleikaþáttum vestanhafs, en það vakti athygli þegar hún kom út úr skápnum í janúar á síðasta ári.

Eftir að hafa rætt stutta hárið við teymið sitt ákvað hún að bóka tíma og ræða klippinguna aftur við mömmu sína sem sagði að lokum já. 

„Ég fékk tíma daginn eftir, áður en einhver myndi segja nei,“ sagði Siwa. 

mbl.is