Sló skít úr hendi sonarins

Tori Spelling.
Tori Spelling. AFP

Beverly Hills 90210-leikkonan Tori Spelling hefur í nógu að snúast þessa dagana. Fyrr í vikunni deildi hún myndskeiði á Instagram sem sýndi son hennar, Beau, fimm ára, í leit að steinum í hvítum sandi á baðströnd sem mæðginin voru stödd við.

Myndbandið var merkilega fyndið fyrir þær sakir að Beau taldi sig hafa fundið einn stein. Spelling áttaði sig þó fljótt á því að ekki var um stein að ræða heldur uppþornaða skítaklessu. 

„Beau, hvað ertu að gera?“ má heyra mömmuna spyrja son sinn. „Ég er að reyna finna steina,“ svarar hann um hæl og teygir sig ofan í sandinn til að ná í eitthvað sem líktist grjóti en reyndist vera kúkur. Spelling var snögg að slá kúkinn úr hendi sonar síns og miðað við myndskeiðið fylltist hún hryllingi við uppátækinu.

Fjölmiðlar vestanhafs greindu nýlega frá því að Tori Spelling og eiginmaður hennar til 16 ára, Dean McDermott, séu nú skilin að borði og sæng. McDermott er sagður hafa flutt út af heimili fjölskyldunnar. Á meðan Spelling hefur í fullu fangi við að halda heimili og sinna barnauppeldinu er fjölskyldufaðirinn sagður verja mestum sínum tíma í að spila golf. 

Spelling og McDermott eiga saman fimm börn; Liam, 15 ára, Stellu, 14 ára, Hattie, 10 ára, Finn, 9 ára og Beau, 5 ára. 

mbl.is