10 ára sonurinn undir stýri og klessti á

Ben Affleck og Jennifer Lopez.
Ben Affleck og Jennifer Lopez. AFP

Líf Hollywood-stjarnanna er ekki alltaf tekið út með sældinni en þótt ótrúlegt megi virðast geta þær líka lent í ýmsum óhöppum líkt og við venjulega fólkið.

Um liðna helgi lentu turtildúfurnar Ben Affleck og Jennifer Lopez í óhappi þegar yngsti sonur Afflecks, Samuel, sem er 10 ára gamall, sat undir stýri á lúxus Lamborghini bifreið fyrir utan bílaleigu og bakkaði bifreiðinni á aðra bifreið. 

Það gefur auga leið að 10 ára gömul börn hafa í flestum tilfellum ekki ökuréttindi enda sat Samuel undir stýri á kyrrstæðum bílnum sem þó var hafður í gangi. Í farþegasætinu sat faðir hans, Ben Affleck en Jennifer Lopez, stjúpmamma hans, sat í einu af aftursætunum bifreiðarinnar með hurðina opna og fætur hennar stóðu út úr bílnum. 

Setti í bakkgír

Samuel freistaðist til að fikta í stýringum bílsins með þeim afleiðingum að hann setti bílinn í bakkgír og klessti á aðra bifreið sem stóð kyrrstæð á bílaplani bílaleigunnar. Þegar Affleck áttaði sig á aðstæðum beygði hann sig yfir son sinn og reyndi að slökkva á vélinni til að koma í veg fyrir frekari skaða. Það tókst honum og betur fór en áhorfðist því allir sluppu ómeiddir.

Samkvæmt fréttamiðlinum Page Six kostar gula Lamborghini bifreiðin um 230.000 bandaríkjadali sem nemur rúmlega 30 milljónum íslenskum krónum. 

Ásamt syninum Samuel á Ben Affleck tvö önnur börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Jennifer Garner.

View this post on Instagram

A post shared by Page Six (@pagesix)

mbl.is