Getur verið að pabbinn sé með fæðingarþunglyndi?

Kelli Mcclintock/Unsplash

Helga Reyn­is­dótt­ir er ljós­móðir á fæðing­ar­vakt og sér um fæðing­ar­nám­skeið hjá Kvenna­styrk. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. 

Hæ.

Ég er tiltölulega nýbökuð móðir en við maðurinn minn eignuðumst okkar fyrsta barn í mars. Ég er að glíma við vandamál sem ég þori eiginlega ekki að spyrja að í persónu, hvað þá fyrir framan manninn minn. Málið er að ég á erfitt með að fá manninn minn til að taka þátt í því sem kemur að syni okkar. Hann skiptir um bleyjur en hann gerir eiginlega ekki neitt annað. Ég er að örmagnast að hugsa um litla manninn okkar og heimilið og ég veit ekki hvernig ég get fengið hann til að taka meiri þátt, það er eins og hann sé hræddur við að hugsa um son okkar eða eitthvað. Getur verið að hann sé að glíma við fæðingarþunglyndi eða eitthvað svoleiðis? Hvernig er best að fá hann til að taka þátt og gefa honum sjálfsöryggi til þess?

Kveðja, 

B

Helga Reynisdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda Smartlands.
Helga Reynisdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/Hákon Pálsson

Sæl og takk fyrir að leita til mín.

Leitt að heyra að þú sért að örmagnast og fáir ekki þá aðstoð eða áhuga frá manninum þínum sem þú bjóst við. Það er þekkt að feður glími við fæðingarþunglyndi og geta einkennin líst sér eins og þú ert að nefna. Fyrsta skrefið er að ræða við hann um tilfinningar þínar og sjá hvað hann hefur um málið að segja. Spyrja hann hvernig honum líði og hvernig honum finnist hann vera tengjast barninu ykkar. Ég myndi ræða þetta við ungbarnaverndina ef honum líður illa en heilsugæslan ætti að geta komið málinu ykkar í réttan farveg.

Ég leitaði til vinar míns, Ólafs Grétars Gunnarssonar, sem starfar við að aðstoða svona feður. Hann er fjölskyldu- og hjónaráðgjafi. 

Kær kveðja,
Helga Reynis.

Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.
Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög skiljanlegt að þú sért að örmagnast. Mörg pör gera sér grein fyrir því að foreldrahlutverkinu fylgja ekki eingöngu miklar vonir og væntingar heldur getur það einnig haft spennu, kvíða og ótta í för með sér. Rannsóknir dr. Gottmans á foreldrahlutverkinu hafa leitt í ljós að algengt er að nýbakaðir foreldrar upplifi minnkandi gleði og ánægju við það að takast nýja hlutverkið. Við það að verða foreldrar upplifa pör marktækar breytingar á borð við aukna streitu og álag, breytt gildismat og markmið, breytingar á hlutverkum ásamt minni samskiptum og vináttu.

Það getur verið að maðurinn þinn sé að takast á við fæðingarþunglyndi en óöryggi getur einnig verið áhrifavaldur. Feður standa sig oftast vel þegar þeir geta og þurfa að ráða við viðfangsefnið. Það sem getur stuðlað að öryggi hans í þessum aðstæðum er t.d. að karlmennsku hans sé ekki ógnað af erfiðum tilfinningum og sýni hann kærleika til móður og barns. Í þessu tilfelli getur fræðsla hjálpað feðrum með því að undirbúa þá fyrir nýjar áskoranir í formi nýrra tilfinninga sem eiga eftir að skjóta upp kollinum, sem kemur að þeirra hlutverki.

Mörg pör finna leið til að höndla erfiðleika og álag daglegs lífs fyrir tilkomu foreldrahlutverksins. Með auknu álagi og öllu því sem því fylgir geta áhrif fyrri reynslu og áfalla tekið okkur á ystu nöf sem  getur takmarkað getu foreldra til að annast krefjandi ungabarn. Í slíkum tilfellum er geta parsins til að treysta hvort öðru og trúa að makinn sé skuldbundinn sambandinu algjör undirstaða. Þá geta orð og hegðun sem segja „það er erfitt hjá okkur núna en við gerum og getum þetta saman“, breytt miklu.

Það að foreldrar nái að verja tíma saman með ungbarninu, jafna byrðina og væntingar í foreldrasambandinu gefur ykkur meiri möguleika á því að grípa hamingjustundirnar til að hlaða batteríin. Það að sækja sér faglegrar aðstoðar í ykkar aðstæðum er getur verið eftirsóknarvert fyrir velferð fjölskyldunnar.

Að þessu viðbættu ert þú að huga að þinni velferð og fjölskyldu þinnar með að leita þér hjálpar hér og það er krafa sem álag og ábyrgð foreldrahlutverksins gerir en alls ekki allir átta sig á. Þar hefur þú styrkleika. Á síðunni minni er efni sem þið gætið notið að skoða saman. Það hefur reynst pörum vel sem ég hjálpa að gefa parasambandinu 5-10 mínútur daglega að skoða, lesa eða hlusta á nærandi og styðjandi efni. Sá þáttur sem hefur haft hvað mest áhrif á störf og rannsóknir Gottman hjónanna, er að börn bera líðan foreldra sinna í líkama sínum. Hjónin eru viðurkennd fyrir vísindastörf sín á sviði stöðugleika í hjóna og parasamböndum, málefni foreldra og hvernig fyrirbyggja má að álag og ágreiningur valdi hnekki í parsambandi og foreldrahlutverki.

Ég gef þér viðurkenningu fyrir að leita þér hjálpar snemma. Nú er sú vegferð hafin og það að bregðast við snemma er lykil atriði.

Það að verða foreldri hefur stundum verið skilgreint sem náttúrleg tilvistarkreppa. Hægt er að endurvekja hamingjuna í sambandinu ef parið reynir að endurnýja jafnvægið. Það kemur ekki aðeins sambandinu til góða heldur bætir það einnig samband foreldris og barns.

Ég tel það besta fyrir þig að ræða við manninn þinn og þið í sameiningu finnið bestu leiðina til að takast á við þetta vandamál.

Kær kveðja,
Ólafur Grétar fjölskyldu- og hjónaráðgjafi

Þess má geta að Ólafur Grétar er með vinsæl námskeið sem heita Faðir verður til. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent ljósmæðrunum spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert