Þungunarrof bjargaði lífi hennar

Chrissy Teigen.
Chrissy Teigen. VALERIE MACON

Fyrirsætan Chrissy Teigen opnaði sig í fyrsta skipti um það að hún hefði í raun ekki misst son sinn Jack á meðgöngunni heldur hafi hún þurft að fara í þungunarrof til að bjarga lífi hennar. Soninn Jack misstu þau Teigen og eiginmaður hennar John Legend fyrir tveimur árum. 

„Það kom skýrt í ljós þegar ég var hálfnuð að hann myndi ekki lifa, og ég myndi ekki gera það heldur nema með inngripi,“ sagði Teigen á fundi á vegum Propper Daley í vikunni. 

Teigen gengur nú með sitt fjórða barn, en fyrir eiga þau hjónin dótturina Lunu og soninn Miles. Hún segist ekki hafa áttað sig á því fyrr en nýlega að hún hafi farið í þungunarrof.

„Segjum það bara eins og það er, þetta var þungunarrof. Þungunarrof til að bjarga lífi mínu því að barnið hefði aldrei getað lifað. Og satt best að segja, þá hef ég ekki lagt þetta tvennt saman fyrr en fyrir nokkrum mánuðum,“ sagði Teigen.

Hugsunin kom ekki til hennar fyrr en hæstiréttur Bandaríkjanna sneri við dóminum Roe gegn Wade í sumar, en dómurinn snýr að rétti kvenna til þungunarrofs. Þá ræddi hún við mann sinn um hversu erfiðar ákvarðanir fólk þyrfti að taka í kjölfarið og þá minnti hann hana á að þau hafi einmitt staðið í þessum sporum einu sinni. 

„Ég þagnaði alveg, mér fannst svo skrítið að ég hefði ekki hugsað um þetta á þann hátt. Ég sagði heiminum frá því að við hefðum misst barn, allur heimurinn var sammála um að við hefðum misst barn, allar fyrirsagnirnar. Og ég var pirruð að ég hafi ekki til að byrja með sagt frá þessu eins og þetta var. Mér leið eins og kjána að það hafi tekið mig meira en ár að átta mig á því að ég fór í þungunarrof,“ sagði Teigen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert