Frétti af óléttunni og framhjáhaldinu sama dag

Systurnar Khloé og Kim Kardashian.
Systurnar Khloé og Kim Kardashian. Samsett mynd

Athafnakonan Kim Kardashian var í miklu áfalli þegar hún frétti af því að NBA-körfuboltamaðurinn Tristan Thompson hefði haldið framhjá systur hennar, Khloé Kardashian og ætti von á barni með annarri konu. Það er óhætt að segja að Kim hafi verið slegin þegar hún frétti svo, sama dag, að Khloé og Tristan ættu von á barni með aðstoð staðgöngumóður. 

Í fyrstu þáttaröð The Kardashians sem hóf göngu sína í apríl 2022 á streymisveitunni Hulu er sýnt frá því þegar Kim komst að framhjáhaldi Tristans. Nú er önnur þáttaröð komin í loftið, en þá eru sýndar fleiri upptökur frá deginum. 

Grunlaus og í vandræðum

Khloé sagði systur sinni að hún væri í vandræðum og sagði henni í kjölfarið að hún og Tristan ættu von á barni með aðstoð staðgöngumóður. Khloé útskýrði að þetta hefði átt sér stað í nóvember, rétt áður en hún komst að framhjáhaldinu.

Hún bætti við að það hefði liðið stuttur tími þar á milli og því vilji hún ekki að fólk haldi að hún hefði tekið ákvörðun um að eignast barn með Tristani eftir að hún frétti af framhjáhaldinu. 

Orðinn faðir eftir framhjáhaldið

Í desember kom í ljós að Tristan hefði eignast son með Maralee Nichols. „Ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum,“ sagði körfuboltakappinn á Instagram nokkrum dögum síðar þar sem hann bað alla þá sem hann hafði sært eða valdið vonbrigðum afsökunar. 

Rúmum sex mánuðum síðar var staðfest að Khloé og Tristan ættu von á barni saman, en sonur þeirra fæddist hinn 28. júlí síðastliðinn. 

mbl.is