Bjóst við skilnaði þegar börnin fóru að heiman

Kelly Ripa og Mark Consuelos.
Kelly Ripa og Mark Consuelos. AFP

Bandaríska sjónvarpskonan Kelly Ripa hafði áhyggjur af því að hún og eiginmaður hennar, Mark Consuelos, myndu skilja þegar börnin færu að heiman. Hún segir hjónabandið hafa breyst þegar börn þeirra fóru í háskóla. 

Í ágúst 2021 fór yngsta barn hjónanna að heiman, en hann hóf þá nám við háskólann í Michigan, og voru Ripa og Consuelos því ein í kotinu.

Ógnvekjandi og hljóðlátt

„Þetta er ógnvekjandi, spennandi, frelsandi, átakanlegt og hljóðlátt,“ sagði Ripa í samtali við People. Ripa og Consuelos giftu sig í maí 1996, þá aðeins 25 ára gömul, og viðurkenndi Ripa að þau hefðu verið of ung. „Við börðumst fyrir hjónabandi okkar þegar það hefði verið auðveldara að hætta,“ sagði Ripa. 

Engar hömlur

Í sumar fóru hjónin í fyrsta barnlausa fríið í 25 ár. Ripa viðurkenndi að ferðin hefði komið sér verulega á óvart og þau hefðu skemmt sér konunglega, en þau fóru meðal annars í klettaklifur og gistu í lúxusvillu í Utah í Bandaríkjunum. 

Ripa hefur talað opinskátt um ástalíf hjónanna, en hún segist ekki hafa neinar hömlur í rúmfiminni með eiginmanni sínum. „Það er sá hluti af lífi okkar sem hefur alltaf verið mjög góður. Jafnvel þegar við erum að rífast, þá er það gott,“ sagði Ripa. 

mbl.is