Keyrð með hraði upp á spítala með meðgöngueitrun

Fyrirsætan Nicole Williams er orðin móðir.
Fyrirsætan Nicole Williams er orðin móðir. Skjáskot/Instagram

Fyrirsætan Nicole Williams og eiginmaður hennar, NFL-leikmaðurinn Larry English, tóku á móti sínu fyrsta barni saman hinn 13. janúar síðastliðinn. Dóttirin, sem hefur fengið nafnið India Moon English, kom í heiminn með hraði eftir læknisheimsókn sem átti í fyrstu að vera hefðbundið eftirlit. 

Williams og English hafa verið saman frá því 2014, en þau gengu í hjónaband á Laguna-strönd árið 2017. Það vakti mikla athygli þegar hjónin tilkynntu að þau ættu von á barni saman síðastliðið sumar, en það gerðu þau á tískupallinum á Miami Swim Week á eftirminnilegan máta. 

„Skelfilegasta augnablik sem ég hef upplifað“

Í samtali við People sagði Williams frá aðdraganda fæðingarinnar. „Við fórum í hefðbundið eftirlit þar sem kom í ljós að ég væri með meðgöngueitrun. Læknirinn minn sagði: „Við þurfum að eignast þetta barn í dag!“,“ sagði fyrirsætan. 

„Við keyrðum með hraði upp á spítala og innan nokkurra klukkustunda var stelpan okkar komin í fangið á okkur. Þetta var skelfilegasta augnablik sem ég hef upplifað, en um leið og við heyrðum dóttur okkar gráta breyttist það í hamingjuríkasta augnablik lífs okkar,“ bætti hún við. 

Yfir sig ástfangin af dótturinni

Williams birti fallega færslu á Instagram-reikningi sínum þar sem hún tilkynnti gleðifregnirnar.

„Litla stelpan okkar gat ekki beðið eftir að hitta okkur. Hún mætti hinn 13. janúar 2023, fullkomin og eins heilbrigð og hægt er. Við erum svo hrifin af henni og njótum hvers augnabliks,“ skrifaði Williams.

mbl.is