13 ára kökusnillingur sem bakar sjálf allar kökurnar

Edda Sól veit nákvæmlega hvernig hún vill hafa ferminguna sína. …
Edda Sól veit nákvæmlega hvernig hún vill hafa ferminguna sína. Hún valdi litaþemað sjálf fyrir veisluna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Edda Sól Óladóttir ætlar að bjóða til 50 manna kökuveislu eftir ferminguna sína í Lindakirkju í lok mars. Hún ætlar sjálf að baka fyrir gestina og fermingartertan verður stór marengstertustafur. Hún hefur aldrei prófað að gera marengsstaf áður.

„Mig hefur alltaf langað að fermast og ég þurfti ekki að spá mikið í því. Ég hef alltaf trúað á guð,“ segir Edda Sól sem er mjög spennt fyrir fermingunni.

Bróðir Eddu Sólar fermdist í fyrra. „Mér fannst spennandi að sjá hvað hann var að gera og ég bakaði líka fyrir hans fermingu. Ég bakaði fjórar kökur. Ég bakaði meðal annars súkkulaðiköku, gerði toblerone-súkkulaðimús og skyrdesert,“ segir Edda Sól.

Hvernig verður veislan þín?

„Ég ætla að halda um 50 manna veislu í sal. Ég ætla að baka og svo verð ég með snittur. Vinkonur mínar hjálpa mér að baka. Ég ætla að búa til marengsstaf með upphafsstafnum mínum. Ég hef aldrei gert marengsstaf áður en ég hef margoft gert marengsköku. Þú þarft að nota sprautupoka, búa til stafinn sjálf og kremið. Það verða líka skreytingar á stafnum,“ segir Edda Sól. Hún er ekkert stressuð, frekar spennt fyrir verkefninu. Stafurinn kemur í staðinn fyrir kransaköku sem margir bjóða upp á í fermingarveislum. Það verður engin kransakaka í þessari veislu Eddu Sólar en hún segist þó vel geta hugsað sér að taka þeirri áskorun að búa til kransaköku þegar tími gefst.

Þarf maður ekki vera skipulagður þegar maður bakar fyrir fermingu?

„Ég er búin að skrifa niður allt sem ég ætla að baka og við verðum með allt sem við þurfum. Ég er búin að setja allt í röð þannig að ég verð með nógan tíma fyrir það.“

Hvenær ætlar þú að byrja að baka?

„Ég byrja að baka tveimur dögum fyrir ferminguna. Ég er með vinkonur mínar að hjálpa mér og á meðan kökurnar eru í ofninum þá bý ég til deigið í aðrar kökur.“

Edda Sól var að sjálfsögðu búin að vippa fram einni …
Edda Sól var að sjálfsögðu búin að vippa fram einni köku þegar ljósmyndara bar að garði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur bakað fyrir veislur frá níu ára aldri

„Mamma mín og pabbi hafa lítið bakað og mömmu minni hefur aldrei fundist skemmtilegt að baka,“ segir Edda Sól þegar hún er spurð út í bakstursáhugann. Hún segist helst hafa litið upp til Silju Ósvaldsdóttur, frænku sinnar, og þegar hún byrjaði var ekki aftur snúið. „Ég byrjaði að baka fyrir afmælisveislur hjá vinkonum mínum og hef bakað fyrir afmælin mín síðan ég var um níu ára af því að mömmu finnst svo leiðinlegt að baka. Ég baka fyrir öll afmæli í fjölskyldunni.“

Edda Sól segir að móðir hennar hafi engar áhyggjur af því hvort hún drasli til, hún er ánægð með framleiðsluna í eldhúsinu í Kópavoginum. „Hún er bara ánægð með að ég baki. Hún er bara glöð að hún þurfti ekki að baka lengur og kenndi mér að ganga frá rosa vel og það geri ég.“

Hvar færðu hugmyndir?

„Bara á netinu og svo eigum við fullt af matreiðslubókum.“

Áttu þér uppáhaldsköku?

„Örugglega svona lavaköku. Það er kaka í litlum bolla og svo er bráðið súkkulaðið í miðjunni. Þú borðar hana þegar hún kemur beint úr ofninum, hún er í litlum soufflé-bollum.“

Ætlar þú að vinna við þetta í framtíðinni?

„Ég get hugsað mér að opna mitt eigið bakarí eða vinna í einhverju bakaríi.“

Það er auðvelt að föndra fallegt fermingarskraut. Edda Sól og …
Það er auðvelt að föndra fallegt fermingarskraut. Edda Sól og Vala mamma föndruðu þetta skraut enda báðar sérlega góðar í höndunum.

Væri alveg til í bökunardót i gjöf

Edda Sól er spennt fyrir fermingardeginum. Hún er búin að finna kjól og það eina sem þarf að gera er að stinga nokkrum brauðréttum í ofninn áður en gestirnir koma. Hún sér um baksturinn en móðir hennar sér um að skreyta.

„Mamma mín vinnur í A4 þannig að hún býr til allar skreytingarnar fyrir veisluna. Ég ætla að vera í bláum kjól sem ég keypti í Kjólum og konfekti. Flestar vinkonur mínar kaupa fermingarkjólana sína í Kjólum og konfekti.“

Hvað er á óskalistanum?

„Ég er ekki alveg búin að hugsa út í hvað mig langar í í fermingargjöf en ég væri alveg til í að fá bökunardót,“ segir Edda Sól sem þarf þó ekki hrærivél í fermingargjöf. „Ég á hrærivél. Mamma átti hana en hún notar hana ekki þannig ég á hana eiginlega.“

Kerti, gestabók og kortakassi.
Kerti, gestabók og kortakassi.
Hér má sjá fermingarskraut sem búið er til úr hringjum …
Hér má sjá fermingarskraut sem búið er til úr hringjum og svo er ljósasería sett á sem býr til skemmtilega stemningu. Fermingarmóðirin útbjó þetta skraut.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »