Einstæð í háskólanámi vill vera dætrum sínum góð fyrirmynd

Birgitta var orðin fjögurra barna móðir 27 ára gömul.
Birgitta var orðin fjögurra barna móðir 27 ára gömul. Samsett mynd

Birgitta Ásbjörnsdóttir var einungis 19 ára gömul þegar hún varð móðir í fyrsta sinn. Meðgangan reyndist ekki auðveld en hún komst seint að því að hún gengi með tvíbura. Nýja móðurhlutverkið tók því ekki einungis á vegna þess hversu ung hún var heldur var hún orðin tveggja barna móðir fyrir tvítugt. 

Í dag á hún fjórar dætur, Heklu Berglindi og Kötlu Bryndísi sem eru 15 ára, Öskju Bjargey sem er verður 12 ára í maí og Eldey Björk sem er 8 ára. Birgitta segir að þær hafi verið stærsta ástæðan fyrir því að hún ákvað að fara í háskólanám því hún hafi viljað vera þeim góð fyrirmynd.

Þrátt fyrir að vera einstæð fjögurra barna móðir í háskólanámi og vinnu, ásamt því að taka þátt í hagsmunabaráttu námsmanna á Íslandi, lítur Birgitta ekki á sig sem neina ofurkonu. Það hugtak er henni hugleikið þar sem lokaverkefni hennar í háskólanáminu fjallar um hugmyndina að ofurkonunni. 

Birgitta fyrir framan kynningarspjald lokaverkefnis síns um ofurkonuna.
Birgitta fyrir framan kynningarspjald lokaverkefnis síns um ofurkonuna. Aðsend mynd

Fyrsta meðgangan áhættumeðganga

Þegar Birgitta komst að því að hún væri ólétt hélt hún í fyrstu að hún vissi nákvæmlega hvað hún væri að fara út í, þótt hún sæi fram á að vera einstæð móðir. Bæði móðir hennar og amma voru mjög ungar þegar þær eignuðust sín fyrstu börn og því gat hún leitað til þeirra. 

Hins vegar uppgötvaðist það ekki fyrr en í 20 vikna sónar að hún ætti von á tvíburum, sem var mikið áfall. Fékk hún einnig þær fréttir að tvíburarnir væru eineggja og að hún væri með svokallað tvíbura-tvíbura blóðrennslissjúkdóm. Einkennist hann af því að tvíburar eru í sitthvorum belgnum en deila fylgju og annar tvíburinn stelur næringu af hinum tvíburanum.

Um leið og þær fréttir bárust hætti Birgitta að vinna og þurfti að búa sig undir það að fara af stað í fæðingu allt frá 28. viku. Um tíma var munurinn á legvatnsvatninu orðinn það mikill að ákveðið var að hún skyldi fara til Belgíu í aðgerð þar sem átti að fjarlægja æð á milli naflastrengjanna.

„Þetta var ákveðið á föstudegi en þegar ég mætti í lokaskoðun fyrir brottför á mánudeginum kom í ljós að ekki var lengur þörf fyrir að senda mig út,“ segir Birgitta. Yfir helgina hafði legvatnsmagnið hjá tvíbura a nefnilega minnkað og aukist hjá tvíbura b.

„Þvert á allar líkur endaði ég í gangsetningu eftir rétt rúmlega 37 vikna meðgöngu og fæddi ég tvær fullkomnar og heilbrigðar stelpur,“ segir Birgitta með bros á vör.

Birgitta með tvíburadætrum sínum, Heklu Berglindi og Kötlu Bryndísi.
Birgitta með tvíburadætrum sínum, Heklu Berglindi og Kötlu Bryndísi. Aðsend mynd

Með sterkt bakland

„Ég hef oft gantast með það að þær hafi verið eins og börn pöntuð úr bæklingi. Þær sváfu allar nætur, voru samstilltar í gjöfum og matartímum og auðvelduðu mér hlutina á ótrúlegan hátt,“ segir Birgitta.

„Ég hafði líka ótrúlega gott bakland en við mæðgur bjuggum hjá foreldrum mínum þar til þær voru 8 mánaða.“

Birgitta bætir við að dætur hennar eigi stórkostlega föðurfjölskyldu og yndislegan pabba.

Fimm ættliðir í beinan kvenlegg.
Fimm ættliðir í beinan kvenlegg. Aðsend mynd

Birgitta segir að þétt net af góðu fólki hafi auðveldað allt saman. Amma hennar og afi hafi verið þeim mæðgum mikið til staðar ásamt vinkonum hennar. 

„Þrátt fyrir að við vorum allar ungar þá studdu vinkonur mínar mig frá fyrsta degi. Þó svo ég hafi orðið móðir langt á undan þeim þá fjarlægðust þær mig aldrei, heldur þvert á móti tóku þær virkan þátt í lífi þeirra frá fyrsta degi. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.“

Áfall að eignast langveikt barn

Birgitta komst að því að hún ætti von á þriðja barni sínu 21 árs gömul. Segir hún að það hafi verið meira áfall en þegar hún varð ófrísk í fyrsta skiptið.

„Tvíburarnir voru ekki nema þriggja ára og ég var í mjög nýju sambandi. Þessi meðganga tók miklu meira á mig andlega en sú á undan, þrátt fyrir að hún hafi gengið áfallalaust fyrir sig.“

Birgitta fékk hins vegar erfitt símtal frá yfirlækni vökudeildarinnar eftir að niðurstöður úr hælprufu dóttur hennar höfðu borist frá Barnaspítalanum. Bentu þær til þess að ekki væri allt með felldu og við tók strembið tímabil.

Voru mæðgurnar boðaðar í frekari rannsóknir og þegar dóttir Birgittu var tveggja vikna gömul fékkst staðfesting á greiningu á efnaskiptasjúkdómnum Homocystinuria.

„Þetta er mjög sjaldgæfur genagalli sem greinist í um það bil 1 á móti 250.000-500.000. Sjúkdómurinn er oft nefndur keltneski sjúkdómurinn þar sem hann er algengastur á Írlandi,“ útskýrir Birgitta.

Lýsir sjúkdómurinn sér þannig að líkaminn getur ekki unnið úr amínísýrunni metíóníni. Veldur það skaðlegri uppsöfnun efna í blóði og þvagi. Börn sem fæðast með þennan sjúkdóm hafa vanalega engin einkenni á fyrsta æviárinu en án meðhöndlunar getur sjúkdómurinn verið lífshættulegur.

Tveir einstaklingar á Íslandi með sjúkdóminn

Dóttir Birgittu er annar einstaklingurinn sem greinist með sjúkdóminn hér á Íslandi en fjölskyldan var svo lánsöm að komast í kynni við hinn einstaklinginn, sem Birgitta segir vera ómetanlegt.

Við tóku strembnir tímar því umstangið í kringum meðhöndlun sjúkdómsins er nokkuð mikið og flókið hvað varðar mataræði og lyfjagjöf.

„Ég fór hins vegar í eitthvað „survivor mode“ þegar þetta komst upp. Einhvern veginn gerir man bara það sem þarf að gera þegar heilsa og heilbrigði barnsins þíns er í húfi. Í dag á ég ótrúlega flotta stelpu sem ber það ekki utan á sér að glíma við jafn flókinn og erfiðan sjúkdóm,“ segir Birgitta.

Dæturnar fjórar á fallegum sumardegi.
Dæturnar fjórar á fallegum sumardegi. Aðsend mynd

Fjögurra barna móðir fyrir þrítugt

Birgitta eignaðist sitt fjórða barn árið 2014, þá 26 ára gömul. Segir hún að fjórða barnið hafi verið planað, en að þau hjónin hafi ekki vitað að hún væri þegar orðin ólétt þegar þau tóku ákvörðunina.

„Það var mikil gleði og eftirvænting sem fylgdi þeirri meðgöngu og var þetta langbesta meðgangan mín að öllu leyti, bæði líkamlega og andlega,“ segir Birgitta.

Var þetta hennar þriðja meðganga og segir hún að henni hafi liðið eins og hún væri mun tilbúnari í þetta skiptið, enda orðin eldri og töluvert reyndari.

„Ég man ekki hvort ég hafi leitt hugann eitthvað sérstaklega að því að ég yrði fjögurra barna móðir fyrir þrítugt. Hins vegar er ég alveg á þeim buxunum að fyrst ég hóf barneignir snemma þá gæti ég alveg eins klárað þær snemma."

Birgitta viðurkennir þó að hafa ekki gert sér grein fyrir umstanginu sem fylgdi því að eignast fjórða barnið. Lítil breyting hafi fylgt því að eignast þriðja barnið en þegar það fjórða kom í heiminn þurfti að hugsa fyrir ýmsu nýju.

„Það þurfti auðvitað stærri bíl og að komast út úr húsi varð allt í einu að einhverju stórmáli. Svo er það líka meira en að segja það að eignast fjögur börn á sjö árum. Að eignast fjórða barnið var nánast eins og að eignast fimm til viðbótar,“ segir Birgitta og hlær.

Ekki hrædd við að eltast við drauma sína varðandi menntun

Birgitta stundar nám í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst. Auk þess er hún menntaður hársnyrtisveinn og snyrtifræðingur, ásamt því að hafa lært förðun og að vera stílisti. 

„Ég ákvað svo haustið 2018, eftir hvatningu frá pabba mínum, að skrá mig í háskólagáttina við Háskólann á Bifröst og hóf svo nám í miðlun og almannatengslum í sama skóla haustið 2019.“

Samhliða náminu hefur Birgitta setið sem hagsmuna- og jafnréttisfulltrúi nemendafélags Háskólans á Bifröst ásamt því að sitja í fulltrúaráði Landssambands íslenskra stúdenta. Auk þess hefur hún verið að vinna með náminu.

Þegar hún hóf háskólanámið bjó hún erlendis með fyrrverandi manni sínum og dætrunum fjórum. Hún flutti svo heim með dæturnar í fyrra. Flutningunum fylgdu miklar breytingar sem hafa haft mikil áhrif á nám hennar.

Birgitta á viðburði á vegum Landssambands íslenskra stúdenta.
Birgitta á viðburði á vegum Landssambands íslenskra stúdenta. Aðsend mynd

„Sem einstætt foreldri í háskólanámi skiptir gríðarlega miklu að geta framfleytt sér og sínum án þess að þurfa að vinna samhliða námi. Þetta er mikið púsluspil og stundum vantar of mörg púsl til þess að allt geti gengið upp. Ég hef til dæmis þurft að hægja á náminu mínu og frestað námslokum, sem er ansi súrt,“ segir Birgitta.

Bætir hún því við að þrátt fyrir erfiðleika hafi námið reynst henni mjög valdeflandi og sé það skemmtilegasta sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert