Minningar sem endast til himnaríkis

Alexía Björg, Edda, Jói og Guðmundur.
Alexía Björg, Edda, Jói og Guðmundur. Ljósmynd/Aðsend

Það er óútreiknanlegt veður úti og skiptist á sól, hríð og slydda, allt á sama korterinu. Íslenski veturinn berst hatrammlega fyrir lífi sínu en það er sannarlega sólskin hinum megin á línunni þegar ég slæ á þráðinn þvert yfir heiminn, alla leið til Suður-Ameríku. Alexía Björg Jóhannesdóttir og Guðmundur Steingrímsson pökkuðu niður örfáum flíkum snemma á árinu, gáfu íslenska vetrinum langt nef og héldu af stað til Suður-Ameríku með börnin tvö, þau Jóa og Eddu.

„Við erum núna stödd á stað sem heitir Baños í Ekvador en við vorum að koma úr fjöllunum þar sem við vorum í nokkra daga í engu netsambandi, sem var bara dásamlegt. Við fórum á hestbak og í fjallgöngu en í Ekvador höfum við verið í viku, tíu daga,“ segir Alexía og nefnir að ferðin sé um það bil hálfnuð og allt hafi gengið að óskum.

Ekvador er fjórða landið af níu sem þau hyggjast heimsækja á þessu sex mánaða bakpokaferðalagi. Löndin níu eru Kosta Ríka, Panama, Kólumbía, Ekvador, Perú, Bólivía, Síle, Argentína og Úrúgvæ og dvelja þau að meðaltali þrjár vikur í hverju landi.

Elst og yngst

Fjölskyldan er með afar lítinn farangur; aðeins einn bakpoka á mann. „Það er dásamlegt hvað maður þarf lítið í lífínu; maður þarf bara fólkið sem maður elskar,“ segir Alexía, sem svarar blaðamanni fyrir hönd fjölskyldunnar.

„Maður þarf ekki neitt og svo erum við alltaf bara í sömu fötunum sem við getum þvegið. Svo er einn lítill gítar með í för sem Gummi spilar á,“ segir hún.

Alexía segir þau hafa gist á ýmsum tegundum gististaða, allt frá hótelum til hostela og jafnvel hafa þau leigt sér Airbnb-íbúð. „Nú erum við á hosteli sem líkist Kex-hostelinu heima. Við erum elst og börnin okkar eru yngst,“ segir hún og hlær. „Það hefur eiginlega reynst okkur best að vera á Airbnb því oft með hótelin fær maður ekki það sem maður bjóst við. Við höfum verið fjögur öll kramin í pínkulitlu herbergi,“ segir hún og hlær.

„Þegar við erum í stórborgum gerum við aðeins betur við okkur og veljum Airbnb þar sem hægt er að þvo og krakkarnir fá meira pláss,“ segir hún en hjónin höfðu skipulagt gistingu fyrstu tvo mánuðina heiman frá en plana nú framhaldið smátt og smátt. „Við fáum svo mikið af góðum ráðleggingum frá fólki sem við kynnumst á leiðinni, við erum alltaf að hitta aðra ferðalanga sem eru kannski að koma frá stöðunum sem við erum að fara til.“

Spurð um uppáhaldslandið segir Alexía erfitt að gera upp á milli þeirra landa sem þau hafa komið til. „Við höfum eignast svo æðislegar minningar frá öllum þessum löndum. Ég held samt að það land sem hafi komið mér mest á óvart sé Panama. Það algjörlega heillaði mig. Sonur minn sagði að við ættum minningar þaðan sem við myndum enn tala um þegar við værum komin til himnaríkis!“ segir hún og hlær.

„Þar gistum við á lítilli eyju og upplifðum ótrúlega magnaða hluti sem erfitt verður að toppa.“

Ævintýrin eru á hverju strái; fjölskyldan prófaði að snorkla.
Ævintýrin eru á hverju strái; fjölskyldan prófaði að snorkla. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerðuð þið þar sem var svona sérstakt?

„Við gistum í litlu húsi sem var búið til úr flugnaneti og vorum inni í skógi en alveg við ströndina. Við gátum opnað dyrnar og hoppað út í sjó og snorklað við æðislegt kóralrif. Svo voru engir veggir, nema bara net, þannig að maður sá út og við vorum í svo mikilli nálægð við náttúruna, og allt var fullkomlega umhverfisvænt á þessum stað,“ segir hún. „Eitt kvöldið var algjörlega magnað! Þarna má finna sjálflýsandi svif í sjónum sem lýsist upp í myrkrinu. Við fórum þarna tíu manna hópur eitt kvöldið og stukkum út í sjó. Um leið og maður hreyfir sig í sjónum í myrkrinu lýsist allt upp. Þetta var eins og í Disney-bíómynd, algjörlega klikkað! Að vera þarna í myrkrinu með manninum sínum og börnunum tveimur og sjá þetta lýsast upp; þetta er það magnaðasta sem ég hef upplifað fyrir utan að fæða barn. Þetta var ógleymanlegt, eins og að vera staddur inni í óraunverulegum ævintýraheimi. Þess vegna á Panama mjög sérstakan stað í hjartanu.“

Læra á lífið

Alexía segir dagana misjafna; suma daga er ævintýramennskan í fyrirrúmi en aðra daga er slakað á. „Við erum líka með vinnudaga þar sem krakkarnir læra stærðfræði og við vinnum að ýmsum verkefnum. Við Gummi erum bæði sjálfstætt starfandi og getum unnið hvar sem er í tölvunum. Svo höfum við yfirleitt eitthvað fyrir stafni á hverjum stað, í Kosta Ríka lærðum við öll á brimbretti og í Panama fórum við öll á spænskunámskeið og erum farin að skilja heilmikið,“ segir hún. „Svo höfum við farið í aparólu yfir heilu dalina, í fjallgöngur og á hestbak,“ segir hún.

Krakkarnir þurfa stundum að læra heima og þá sérstaklega stærðfræði.
Krakkarnir þurfa stundum að læra heima og þá sérstaklega stærðfræði. Ljósmynd/Aðsend

„Núna erum við á leiðinni til Galapagos þar sem við ætlum að snorkla og skoða dýrin. Þetta er heilmikill lærdómur fyrir börnin. Þau eru að læra á lífið í leiðinni og þeim finnst voða gaman. Þau sakna auðvitað vina sinna en þau eru dugleg að hafa samband yfir netið. Sonur minn sendir bekknum sínum reglulega bréf og skæpar við þau. Þannig að þetta er líka kennsla í landafræði, fyrir hann og allan bekkinn, í leiðinni,“ segir Alexía.

Pítsa með naggrís

Alexía nefnir að kennarar krakkanna hafi hvatt þau til að upplifa sem mest og ekki eyða of miklum tíma í heimalærdóm. Nóg myndu þau læra samt! „Þetta finnst okkur frábært viðhorf hjá skólunum, Melaskóla og Hagaskóla. Það líður ekki sá dagur að börnin, og við öll, lærum ekki eitthvað nýtt. Heimurinn er risastór skólastofa.“

Fátt hefur komið upp á sem hefur sett strik í reikninginn nema hvimleið moskítóbit og einstaka magapína en þau hafa passað vel upp á hvað þau borða. „Maturinn hér er geggjaður og við erum farin að þora að smakka meira með hverri vikunni og hverju landinu. Hérna í Ekvador er naggrís mjög algengur matur. Um daginn var hér pítsukvöld og hægt var að velja margarítu eða pítsu með naggrís,“ segir hún og hlær. „Við ákváðum að sneiða hjá naggrísnum!“

Hjónin Guðmundur og Alexía njóta sín vel á suðrænum slóðum.
Hjónin Guðmundur og Alexía njóta sín vel á suðrænum slóðum. Ljósmynd/Aðsend

Alexía segir ferðina dásamlega í alla staði og nefnir að löndin í Suður-Ameríku séu alls ekki hættuleg. Hún segir marga hafa varað þau við hættum en sjálf segist hún ekki upplifa neitt annað en velvild heimamanna og öryggi hvert sem þau fara, enda séu þau heldur ekki að taka neina óþarfa áhættu eða ana út í óvissu. Alexía myndi ekki hugsa sig tvisvar um ef hún fengi fleiri tækifæri til að ferðast á þennan máta.

„Ég myndi hiklaust mæla með svona ferð; þetta er það gáfulegasta sem við höfum gert í lífinu. Þetta er svo hollt og gott og það er svo gaman að vera svona mikið með börnunum. Ég er að kynnast þeim á annan hátt. Og svo er yndislegt að sjá veröldina.“

Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á vertuuti.is og einnig á instagramsíðunni guslextravel.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert