Hraun, eldfjöll og jöklar það sem heillar

Ferðamenn sækja mikið í íslensku víðáttuna
Ferðamenn sækja mikið í íslensku víðáttuna Ljósmynd/Aðsend

Magne hefur unnið að uppbyggingu á hjólasvæðinu í Skálafelli og hélt úti hjólaleið í snjónum í Heiðmörk í vetur. Má með sanni segja að Magne sé einskonar guðfaðir í fjallahjólasenunni hér á landi, bæði því sem viðkemur uppbyggingu innviða og ekki síður í fjallahjólaferðamennsku. Þá hefur hann sterka sýn á það hvernig fjallahjólreiðar muni þróast hér á komandi árum og segir að ákveðin uppbygging þurfi að eiga sér stað til að taka við auknum fjölda iðkenda. Samhliða því þurfi að huga að breyttu landslagi með tilkomu rafmagnsfjallahjóla.

Magne vann áður sem grafískur hönnuður á auglýsingastofu, en fór fljótlega að taka að sér stök verkefni sem oft og tíðum voru uppi á hálendi. Í eitt skiptið fékk hann verkefni þar sem hópur hjólara kom á vegum Specialized og Shimano. Eftir strangar myndatökur birtust myndir og blaðagreinar víða um heim og voru meðal annars veitt verðlaun fyrir bæði mynd ársins og ferð ársins hjá Bike magzine fyrir þau verk. „Þetta var virkilega hvetjandi og ég fann að ég var með spennandi tækifæri í höndunum,“ segir Magne.

Náttúran reyndist eftirsóknaverð

Á þessum tíma fór hann að taka eftir því að til væri eitthvað sem kallast hjólaferðamennska og að það væri nánast óplægður akur hér á landi. „Ég sá að það var fólk að ferðast um heiminn og hjóla og var tilbúið að borga fyrir slíka ferðamennsku,“ segir hann. Hér á landi sá hann fyrir sér talsverða möguleika með fjallahjólreiðar, enda mikilfengleg náttúra sem hægt var að bjóða upp á og reyndist eftirsóknaverð. Næstu skref voru að sérhanna kerrur og festingar fyrir hjól, finna skemmtilegar hjólaleiðir og setja upp ævintýrapakka með skemmtilegri upplifun. Magne ákvað svo árið 2015 að stíga upp úr skrifstofustólnum eftir 18 ár og hella sér af fullum krafti í þetta verkefni árið um kring.

Magne Kvam rekur Icebike Adventures ásamt fjölskyldu sinni.
Magne Kvam rekur Icebike Adventures ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Hari

Síðan þau hófu rekstur fyrirtækisins hefur ýmislegt átt sér stað í efnahagslífinu. Fyrst niðursveifla, en svo ýmsar breytingar með sveiflum á krónunni. Magne segir að þau hafi í raun lítið fundið fyrir hinum miklu sveiflum í ferðaþjónustunni sem margir hafi talað um. Hann segir þó að samsetning hópa breytist örlítið eftir efnahagsástandinu.

Upphaflega var aðalsmerki Icebike Adventures krefjandi og stórar 5-10 daga hjólaferðir. Magne segir þetta aðeins hafa breyst á síðustu árum og fólk sæki í dag frekar í styttri ferðir. Þannig séu þriggja daga ferðir mjög vinsælar og þá sé orðið vinsælt að blanda þyrluferðum inn í ferðirnar.

Helsti markhópur fyrirtækisins er að sögn Magne úr efri millistétt, vel menntað fólk sem leitar að eftirminnilegri upplifun. Þetta eru náttúruunnendur og útivistarfólk með brennandi áhuga á hjólreiðum,“ segir hann. Þá hefur einnig leitað til þeirra fólk sem er hér á landi í vinnuferð eða á fundum. Það vilji hins vegar ná einum eða tveimur mjög góðum dögum á hnakknum. „Þetta er orðið vinsælt hjá okkur,“ segir Magne.

Á fullri ferð í nágrenni Landmannalauga.
Á fullri ferð í nágrenni Landmannalauga. Ljósmynd/Aðsend

Þriðji hópurinn sé svo sá sem hefur vaxið umtalsvert síðustu ár. Það sé fólk sem vilji gera eitthvað spennandi úti í náttúrunni, en sé ekkert endilega á kafi í hjólreiðum. Það hafi komið hingað til lands og sé búið að fara á hestbak og klifra í ís. Á veturna bjóðist því meðal annars að fara á „fatbike“ en það eru hjól með mjög breiðum dekkjum sem auðveldlega má hjóla á yfir snjó. Þetta leiddi meðal annars til þess að Magne varð forvígismaður þess að koma upp fjölnota stíg yfir vetrartímann í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktina. Kallaðist leiðin „Sporið“ og naut mikilla vinsælda hjá hjólreiðafólki og fleirum í vetur.

Kaupa landslagið til að hjóla í

En hvað er það sem fólk sækir í þegar það vill koma í fjallahjólaferðir til Íslands? „Fólkið sem kemur til okkar er að kaupa landslagið sem það hjólar í,“ segir Magne. „Við erum ekki með heimsklassa hjólaleiðir miðað við Alpana til dæmis, en við erum með mjög spes og spennandi landslag. Þá er jarðvegurinn sérstakur, en fólk er vant því að hjóla á allt öðru undirlagi. Við erum með vikur og hraun og það er eins og annar heimur fyrir flesta.“

Magne hefur sjálfur ferðast víða til að hjóla. Nefnir hann Kanada, Frakkland og víða um Alpana. Segir hann hjólaleiðirnar þar vera ólíkar því sem við höfum hér heima. „Þú ferð í gegnum skóg og svo upp úr honum og kemst þá upp í fjöllin. En hér erum við með víðáttu alls staðar og þar af leiðandi líka veðrið beint í andlitið,“ segir hann hlæjandi. Það var bæði veðrið og ekki síður víðáttan sem kom honum mest á óvart þegar hann var að hefja reksturinn. Fyrstu ferðirnar sem fyrirtækið var með voru meðal annars í gegnum Kjarnaskóg þar sem gaman er að hjóla. „Hins vegar spurði fólkið alltaf hvenær það kæmi að gígunum eða hrauni,“ segir Magne. Fljótlega hafi hann því ákveðið að allar ferðir fyrirtækisins væru í gegnum eða í nágrenni hrauns og við eldfjöll eða jökla. Það á við hvort sem er í nágrenni Reykjavíkur eða við Heklu. Segir hann að jarðfræði sé einmitt eitthvað sem hjólararnir hafi haft mun meiri áhuga á en hann bjóst við. „Þau vilja vita um eldgos og hvenær jöklarnir bráðna og svo framvegis,“ segir hann og vísar aftur í að viðskiptavinirnir séu oft vel menntað og fróðleiksfúst fólk sem vilji blanda saman hjólreiðunum sjálfum og upplýsingum um land, þjóð og menningu.

Það er alltaf fallegt landslagið í Þórsmörk og á Goðalandi.
Það er alltaf fallegt landslagið í Þórsmörk og á Goðalandi. Ljósmynd/Aðsend

Snjóstígurinn Sporið sett upp í vetur

Spurður nánar um Sporið, sem nefnt var hér að framan, segir Magne að það sé hugmynd sem hann hafi lengi gengið með í höfðinu. Hugmyndin er í raun einföld. Þegar snjór er yfir öllu að fara með sérsmíðaðan troðara og þjappa niður spor sem getur gagnast hjólreiðafólki, göngufólki og öðrum sem vilja nota það – fjölnota vetrarstígur. Magne segir að það hafi hins vegar verið þungt í vöfum að fá leyfi og styrki. Hann hafi sjálfur verið búinn að sérsmíða troðara og hafi meðal annars athugað með leyfi til að troða snjóstíg í landi Mosfellsbæjar. „Ég fékk nú heldur dræmar undirtektir, kannski það gangi betur núna þegar Sporið í Heiðmörk hefur sannað gildi sitt.“

Í vetur gaf hins vegar Skógræktin leyfi til að leggja Sporið í Heiðmörk, en undanfarna vetur hefur verið lagt þar gönguskíðaspor sem notið hefur mikilla vinsælda. Aðstæður leyfðu að Sporið yrði lagt um miðjan janúar að sögn Magne, en það var í mjög góðu standi í tvo mánuði þrátt fyrir að veðrið hafi verið nokkuð rysjótt. Segir Magne að ástæðan fyrir því að þetta hafi virkað séu öll trén í Heiðmörk sem hafi skýlt slóðinni. Í blíðunni í mars bráðnaði hins vegar allur snjórinn. Spurður um framhaldið er Magne mjög jákvæður. „Ekki spurning að þetta er komið til að vera. Fólk sýndi þessu mikinn áhuga.“ Hann segir fæsta hafa áttað sig á hversu skemmtilegt þetta var fyrr en þeir prófuðu, en Sporið spurðist fljótt út og var reglulega mikil umferð um kvöld og helgar. Jafnt gangandi, skíðandi, hjólandi og hlaupandi notuðu stíginn.

Frá Sporinu í Heiðmörk í vetur.
Frá Sporinu í Heiðmörk í vetur. Ljósmynd/Aðsend

Þjappaði sporið sjálfur á kvöldin

Magne segir Sporið ekki hafa verið hugsað fyrir erlenda viðskiptavini Icebike Adventures, hann vilji reyna að fara með þá lengra út fyrir bæinn þar sem þeir komast í hrjóstrugra landslag. „Við viljum fara lengra upp í hraun þar sem er hjarn og meira útsýni. Við vildum með Sporinu sýna fram á að það væri hægt að nýta skógana að vetri til. Fyrir mér var þetta tilraunaverkefni til að sanna að það væri hægt að gera eitthvað stærra og flottara í framtíðinni,“ segir hann.

Sjálfur sá Magne um að þjappa Sporið og fór hann að meðaltali annað hvert kvöld upp í Heiðmörk til þess. En er hann tilbúinn að halda þessu áfram? „Eins klikkað og það hljómar, já. Kannski ekki að eilífu á eigin kostnað og í sjálfboðavinnu, en ég vil samt gera þetta og mun gera þetta áfram,“ segir hann og bætir við að vonandi fái þau samt styrki til að viðhalda þessu á komandi árum.

Síðustu ár hefur orðið mikil breyting á viðhorfi Íslendinga til hjólreiða að sögn Magne og hann telur að sú viðhorfsbreyting muni halda áfram á komandi árum. Hins vegar þurfi að gera ýmislegt til að takast á við breytta stöðu. Þannig segir hann að á sumrin megi sjá næstum annan hvern bíl með hjól á þakinu. „Fyrir ekki meira en þremur árum héldu allir að maður væri ruglaður með svona grind,“ segir hann. „Ég held að við munum sjá þetta aukast mikið sem ferðamáta. Það sem þarf þá að eiga sér stað er uppbygging á stöðum eins og þjóðgörðum þar sem nú er unnið að lokunum. Fólk þarf að geta komið með hjólið sitt og farið um,“ segir hann.

Ljósmynd/Aðsend

Hann segist bjartsýnn á að ráðamenn muni bregðast við á komandi árum. Hjólreiðar séu ferðamáti sem passi mörgum, fólk fari hraðar yfir en með því að labba og hafi þarna frábært tæki til að skoða náttúruna.

Uppbygging án Disney-væðingar

Magne tekur fram að náttúruvernd skipti miklu máli í þessu samhengi og að það þurfi að hafa það hugfast. Segir hann að í raun sé ekki mjög mikið um slóða til að velja úr fyrir hjólreiðafólk. Segir hann að það sé mikilvægt að útbúa fleiri stíga og dreifa umferð þannig betur, þar sem talsvert mikil skörun sé í dag á notkun gangandi og hjólafólks. Þá segir hann að byggja þurfi upp stígamenningu hér á landi. Hún sé ekki til staðar í dag og það muni taka tíma að byggja hana upp. „Snýst fyrst og fremst um að fólk viti hvað það megi og hvað ekki og hvað fjallahjólreiðar snúist um. Það er oft brengluð mynd af því hjá almenningi,“ segir hann. Ítrekar hann að göngufólk eigi alltaf réttinn á stígum. „Margir eru með þá mynd að fjallahjólreiðar séu eintómur glannaskapur þar sem hraði og læti eru allt. En það er alls ekki svo. Hjólreiðar eru grænn ferðamáti til að skoða landið.“

Fjallahjólastígar eru að hans sögn ódýrari og einfaldari í framkvæmd en flestar aðrar tegundir stíga og geti einstigi í líkingu við kindastíga fallið vel að landslaginu. Þá séu þeir nánast viðhaldsfríir með réttri hönnun. Kallar hann eftir því að sveitarfélög taki höndum saman um uppbyggingu fjallahjólastíga í samstarfi við hjólara. Segir hann hægt að samnýta stíga með gangandi vegfarendum og með aukinni stígamenningu og almennri kurteisi geti allir notað saman stíg. Hins vegar megi að hans áliti skoða hvort fjallahjól eigi heima á allra vinsælustu gönguleiðunum og vísar þar sérstaklega til Laugavegarins.

Við Frostastaðavatn að Fjallabaki.
Við Frostastaðavatn að Fjallabaki. Ljósmynd/Aðsend

Magne segir að þrátt fyrir að hann tali fyrir uppbyggingu innviða í kringum fjallahjólreiðar, þá sé hann ekki að tala fyrir því að gera alla stíga þannig að allir komist alls staðar. „Við viljum alls ekki að það verði vegagerð með sléttum og breiðum vegum um allt hálendi með breiðstígum fyrir túrista með franskar kartöflulappir. Sums staðar þurfi að eiga sér stað uppbygging vegna drullu og ágangs, en það þurfi ekki að „Disney-væða“ alla staði.

Efasemdir um rafmagnshjólin á hálendinu

Undanfarin ár hefur átt sér gríðarlega mikil þróun í rafmagnshjólreiðum og fjallahjólreiðar eru þar ekki undantekning. Magne segir þetta meðal annars komið á fullt í Þýskalandi. Hann er hins vegar með efasemdir um hvernig þetta gangi upp á hálendinu hér heima og segir að hugsa þurfi mjög vel út í þann ramma sem verði sniðinn að svona ferðamáta. „Þetta verður vandamál hérna á næstu þremur árum,“ segir hann og bendir á að með þessum ferðamáta muni hópar fólks, sem séu jafnvel óundirbúnir að fara upp á hálendi Íslands, allt í einu komast þangað mjög auðveldlega. Segir hann það vera á ábyrgð stjórnvalda að stýra hvernig þessi umferð verði. „Hvað gerum við með hóp manna á rafhjólum sem komnir eru upp í Hrafntinnusker? Kunna kannski illa að hjóla og eru svo í vandræðum með rafmagnshleðslu,“ segir hann og bendir á að svona hjól geti verið um 25 kg að þyngd og ómögulegt að halda á því langa leið.

Það er ekki alltaf bara full ferð niður, heldur þarf …
Það er ekki alltaf bara full ferð niður, heldur þarf stundum að bera hjólin upp brekkurnar. Ljósmynd/Aðsend

Segir hann hefðbundnu leiðirnar á hálendinu illa henta undir slík hjól, þar sem oft þurfi að bera þau upp bratta stíga upp á fjöll. „Ég er hræddur um að fólk fari að nota rafmagnshjólin á of miklum hraða á viðkvæmum og vinsælum stöðum og þau gætu þannig komið óorði á fjallahjól almennt,“ segir hann. Hins vegar segir Magne að svona hjól geti orðið snilldarlausn fyrir réttar aðstæður og rétt svæði.

„Fjallahjólurum á Íslandi fer fjölgandi með hverju ári, nú er fjölbreytt úrval af námskeiðum í hjólreiðum í boði. Bæði íþróttafélög og einstaklingar eru að vinna frábært starf í að breiða út boðskapinn. Fjallahjólreiðar sameina svo margt, útivist og heilsurækt – það er einfalt að byrja og fjallahjólreiðar eru fyrir alla. Þetta er bara svo rosalega skemmtilegt,“ segir Magne að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »