Hundarnir eru sérþjálfaðir og merktir gulum hálsklútum.
Hundarnir eru sérþjálfaðir og merktir gulum hálsklútum. Ljósmynd/Aberdeen Int.airport

Hvolpasveitin tekur til starfa

Sífellt færist í aukana að hundar séu fengnir til að gleðja þá sem liggja veikir á spítala eða finna fyrir miklum kvíða enda þykir það í flestum tilfellum einstaklega gott fyrir sálarlífið að eiga hund.

Alþjóðlegi flugvöllurinn í Aberdeen í Skotlandi lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að huga að flughræddum farþegum og hefur nú fastráðið hóp af sérþjálfuðum hundum sem bjóða fram loðnar loppur í þeim tilgangi að róa þá sem finna fyrir kvíða. Hundarnir eru sérmerktir gulum klútum og koma til með að ganga um flugstöðina í þeim tilgangi að gleðja gesti og gangandi. Sem fyrr segir hafa hundarnir farið í gegnum sérstaka þjálfun og eru vanir því að vera í kringum ólíka einstaklinga. 

Að sögn eins aðstandanda hundanna hefur það róandi áhrif á taugakerfið að kela við hund og væntir hann þess að þessi viðbótarþjónusta á flugvellinum muni mælast vel fyrir og hafa jákvæð áhrif bæði á farþega, starfsmenn og ekki síst hundana.