Mæðgur gefa út bók um Tenerife

Mæðgurnar á góðri stund á Tenerife.
Mæðgurnar á góðri stund á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Snæfríður gaf út handbókina „Ævintýraeyjan Tenerife - stór ævintýri á lítilli eyju“ í fyrravor en nýja bókin sem heitir „Tenerife krakkabókin - Geggjað stuð fyrir hressa krakka” er af allt öðrum toga en um er að ræða samstarfsverkefni hennar og dótturinnar Ragnheiðar Ingu, en fjölskyldan hefur verið búsett á Tenerife í nærri því ár.  

Hvað kom til að þið skrifuðuð þessa bók saman?

Ragnheiður:  „Mamma skrifaði bók um Tenerife í fyrra sem var mjög vinsæl. Mér fannst hún hins vegar ekki nógu skemmtileg fyrir krakka því hún fjallaði mest um gönguferðir og geitaost. Það er fullt skemmtilegt að gera fyrir krakka á Tenerife og ég segi frá því helsta í þessari bók. Við erum sjálf búin að prófa allt sem er sagt frá í bókinni svo þetta er enginn auglýsingabæklingur.“

Snæfríður: „Ragnheiður var að skrifa um lífið á Tenerife í dagbókina sína og þar sem við vorum alltaf að gera fjölskylduvæna hluti á Tenerife þá kom þessi hugmynd fljótlega upp að við myndum hreinlega setja saman ferðahandbók fyrir krakka.“

Bókin er stútfull af hugmyndum að geggjuðu stuði fyrir hressa …
Bókin er stútfull af hugmyndum að geggjuðu stuði fyrir hressa krakka. Ljósmynd/Aðsend

Hvað eruð þið fjölskyldan búin að búa úti lengi? Hvað kom til að þið fluttuð út?

Snæfríður: „Eins og svo marga Íslendinga dreymdi okkur um að prófa að búa á heitari slóðum. Við höfum ferðast reglulega til Kanaríeyja undanfarin ár og heillast mjög af eyjunum. Við ákváðum að láta þennan draum okkar rætast og fluttum út í lok síðasta sumars,  en erum reyndar á heimleið eftir viðburðaríkan vetur. Það virðist aldrei vera rétti tíminn fyrir svona ævintýri, börnin eru aldrei á rétta aldrinum eða peningastaðan er aldrei eins og hún á að vera. En nú þegar þessi vetur er á enda þá erum við afar sátt við að hafa látið slag standa. Við erum reynslunni ríkari og dæturnar þrjár eru altalandi á spænsku.“

Ragnheiður: „Ég kunni ekkert í spænsku þegar við komum hingað og þess vegna var mjög erfitt að byrja í skólanum. Núna finnst mér pínu leiðinlegt að við séum að fara heim. Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur vetur þó að skólinn hafi stundum verið erfiður.  Við erum búin að gera alls konar skemmtilega hluti hérna. Um páskana fórum við til dæmis í húsbílaferðalag um eyjuna og gistum í kirkjugarði. Ég var líka í dansskóla í vetur og fékk að taka þátt í karnivalinu hérna og dansa út á götu, það var mjög gaman.“

Hvernig kunnið þið við ykkur?

Snæfríður: „Við kunnum mjög vel við okkur á Tenerife. Þetta er ótrúlega falleg eyja og þægilegt að ferðast um hana. Við eigum marga vini hérna og höfum fengið dýpri innsýn í líf íbúa eyjunnar. Dætur okkar voru í spænskum skóla sem var mikið ævintýri fyrir þær og ótrúlegt fyrir okkur foreldrana að fylgjast með hvernig þær náðu að spjara sig í framandi aðstæðum. Tenerife á sérstakan stað í hjarta okkar og það verður pottþétt ekki langt þangað til við förum þangað aftur.“

Ragnheiður segir ómissandi að smakka Churros með súkkulaði.
Ragnheiður segir ómissandi að smakka Churros með súkkulaði. Ljósmynd/Aðsend

Um hvað fjallar bókin?  

Ragnheiður: „Bókin fjallar um allt það skemmtilega sem krakkar geta gert á Tenerife. Til dæmis er sagt frá bestu ísbúðunum og öðru sem krakkar verða að smakka á eyjunni. Ég mæli til dæmis með churros, það er í algjöru uppáhaldi hjá mér og er eitthvað sem allir verða að smakka.“

Snæfríður: „Bókin er sett þannig upp að krakkar hafi gaman af því að lesa hana og geti tekið þátt í því að undirbúa ferðalagið. Ragnheiður skrifar út frá sínu sjónarhorni og ég bæti svo við smávegis upplýsingum fyrir foreldra.“

Churros með heitu súkkulaði er ómótstæðilegt.
Churros með heitu súkkulaði er ómótstæðilegt. Ljósmynd/Aðsend

Hvað það svo sem er skemmtilegast fyrir krakka að gera á Tenerife?

Snæfríður: „Flestir ferðamenn sem hingað koma fara með börnin í stóru skemmtigarðanna, Aqualand, Siam Park og Loro Parque, en það er  hægt er að gera svo miklu meira með börn hérna, hluti sem eru oft mun ódýrari. Sem foreldri er ég t.d. mjög hrifin af trampolíngarðinum í La Laguna og Dúkkusafninu í Icod de Vinos. Eins eru Spánverjar snillingar í að hanna útileiksvæði og raða börum og kaffihúsum allt í kringum þau, það er yfirleitt mjög þægilegt að vera foreldri með börn hérna.“

Ragnheiður: „Það er náttúrulega alltaf hægt að fara á ströndina og leika sér í sjónum. Ég fór til dæmis í brimbrettaskóla hérna sem var geggjað gaman. Ég mæli líka sérstaklega með vísindasafninu í La Laguna sem er ekkert venjulegt safn heldur ótrúlegur staður þar sem hægt er að prófa alls konar tæki og gera tilraunir. Á Tenerife er líka hægt að fara út að borða í kastala þar sem riddarar eru að berjast, fara í úlfaldareiðtúr og smakka pöddugos. Þið verðið bara að lesa bókina til að fá fleiri hugmyndir.“

Bókin er fáanleg á heimasíðunni lifiderferdalag  og í verslunum Eymundsson.

Á Facebook-síðu fjölskyldunnar má svo finna ýmsar upplýsingar um eyjuna, gönguleiðir sem þau hafa prófað og annað sem þeim finnst þess virði að deila.  

mbl.is