Ekki fylla ferðatöskurnar af skrani

Dverg-brimbretti til sölu í minjagripaverslun í Biarritz. Virkar agalega sniðugt, …
Dverg-brimbretti til sölu í minjagripaverslun í Biarritz. Virkar agalega sniðugt, en hvað lenda svona munir ekki örugglega fljótt í kassa uppi á lofti? IROZ GAIZKA

Á ferðalögum er gott að vera mínimalisti. Það má vissulega nota tækifærið til að kíkja í búðir, og sjá hvort eitthvað freistar á mörkuðum, en innkaupin ættu að vera öguð og markviss því tíminn er af skornum skammti og töskuplássið líka. Það þarf ekki að kaupa gjafir fyrir alla stórfjölskylduna og vinahópinn, og flestir minjagripir eru þess eðlis að þeir enda fyrr en síðar ofan í ruslatunnu eða í besta falli uppi á hillu í Góða hirðinum.

Hér eru nokkur góð ráð um hvað ætti að kaupa, og hvað ætti að forðast að spreða í á ferðalögum út í heim: 

Hafðu á hreinu hvaða þig vantar og langar í

Það mættu alveg vera fleiri verslanir á Íslandi, og úrvalið af fötum miklu betra í stórborgunum úti í heimi. En áður en lagt er af stað er ágætt að kortleggja fataskápinn, þó ekki væri nema í huganum, og sjá hvort að það er í raun eitthvað sem bráðvantar. Ef er í alvörunni orðið tímabært að fjárfesta í nýjum hnéháum stígvélum eða vetrarúlpu, þá má bæta þeim á innkaupalistann. Skoðaðu svo netverslanirnar áður en flogið er af stað, til að sjá hvaða framleiðendur gætu verið með flíkina sem hæfri þínum smekk. Þannig þarftu ekki að þræða hverja einustu búð á í New York, París eða London upp á von og óvon um að finna eitthvað, heldur ert búinn að þrengja hringinn og getur klárað innkaupin í hvelli.

Ef þú svo rambar niður á krúttlega peysu eða reffilegan bakpoka fyrir slysni, rifjaðu þá upp fataskáps-bókhaldið þitt. Áttu tíu peysur fyrir og fimm dýra bakpoka sem þú notar sárasjaldan? Kannski er þá betra að sleppa því að taka upp kortið í þetta sinn.

Það sama gildir um raftæki og hluti fyrir heimilið: hafðu á hreinu hvað þú þarft og hvar það er að finna. 

Er illa farið með tímann í útlöndum að eyða heilu dögunum í búðaráp og burðast um með fangið fullt af pokum allan tímann. Miklu skemmtilegra er að lenda í ævintýrum og njóta mannlífsins, skoða söfn og fara í skemmtigarða. Góðar minningar verða sjaldnast til inni mátunarklefanum.

Búð í Claud Monet safni í Giverny. Minjagripabúðir eru oft …
Búð í Claud Monet safni í Giverny. Minjagripabúðir eru oft sneisafullar af algjörum óþarfa. LUDOVIC MARIN

Ekki kaupa óumbeðnar gjafir

Vinir þínir og ættingjar eru líka duglegir að skoða heiminn, og þurfa ekki að fá frá þér lítinn Eiffel turn eða hollenska tréskó. Þeir hafa örugglega líka mjög litla þörf fyrir skotglös frá Ibiza, lyklakippur frá Rússlandi og hauskúpu-dúkku frá Mexíkó. Í dag, þegar fólk er upp til hópa orðið dauðuppgefið á að eiga allt of mikið af allskonar hlutum þá er enginn sem gleðst yfir óumbeðnum minjagrip frá útlöndum. Það eru helst börnin sem ætti að kaupa eitthvað óvænt fyrir, og þau fúlsa varla við litlum Legó-kassa eða nýjasta leikfanginu úr stórri dótabúð. 

Veldu gæði umfram magn

Útimarkaðir á ferðamannstöðum hafa að geyma ótrúlegt framboð af algjöru drasli: T-boli sem skemmast í fyrsta þvotti, glingur og grínvöru sem þolir það varla að vera stungið ofan í ferðatösku, og svo allar mögulegar gerðir af óþarfa. Frekar en að kaupa þrjár útsaumaðar buddur, fimm sandala sem varla þola sólarljós, og nokkra boli sem herma illa eftir nýjustu tísku frá París, skaltu kaupa eitthvað vandað sem endist og gaman verður að nota í áraraðir. Þannig er peningunum mun betur varið.

Ferðastu létt

Það er frábært að ferðast létt og skapar mikið frelsi að vera mættur langt út í heim með ekkert nema nettan bakpoka á öxlinni. Stórar ferðatöskur eru eins og ankeri og leiðinlegt að burðast með þær um fagrar borgir, drösla þeim um flugvelli þvera og endilanga, inn og út úr lestum.

En þeir sem ferðast létt freistast líka síður til að kaupa óþarfa. Hver rúmsentimeter í bakpokanum eða flugfreyjutöskunni er þegar í notkun og ekkert sem heitir að bæta sisvona við nýju pari af strigaskóm eða ilmvatnsflösku. Að pakka létt er því ágætis lækning fyrir þá sem finnst aðdráttarafl stórverslananna ómótstæðilegt, og opnar það augu sumra fyrir alveg nýrri ferðaupplifun að setja ekki stefnuna á næstu verslunarmiðstöð strax við lendingu.

mbl.is